Tuesday, April 29, 2008

lopapeysa sem gæti stungið

Ég held að það hafi verið mánudagur. Eitthvað seint farið að sofa kvöldið áður. Geisp - síminn minn (það er sko líka verkjaraklukkan) úti í bíl. Orðlögð leti ekki beint til þess fallin að fara að sækja símann. Svo sem vonandi enginn að fara að hringja í hann og HK með sinn síma (vekjaraklukka sko) til að vekja okkur. Og jú, einn sími (já, vekjaraklukka - ég var búinn að segja það)getur alveg vakið tvo ef því er að skipta. Jafn vel heila herdeild ef hún er ekki of dreifð. Það var því bara fari að sofa.

Svo kom morgun og sóli kom upp og svo heyrðis píp pípípíp... og hvað er gert þá? Jú auðvitað slökkt á helv... friðarspillinum... og hvað gerist þá... jú, þeir sem eiga að vakna, sofna bara aftur og sofa vært þangað til þeir annað hvort hætta að vera þreyttir (sem gerist mjög seint þegar þessir þreyttu eru hundþreyttir) nú, eða þá að það verður einhver truflun aftur... og það gerðist.

dðsssssssssss dððssssssssssssþþþþssszzzððððð og upp hrukkum við bæði á sömu sekúndu og hver var friðarspillirinn núna. Símavekjaraklukkan auðvitað steindauð en þessi nýja ekki. Frú hungangsfluga var nefnilega mætt á staðinn og sætti sig ekki alveg við þessa leti húsráðenda. Að liggja bara í bælinu steinsofandi. Fyrst var að líta hvort á annað og síðan springa úr hlátri og líta svo á klukkuna og fá áfall! HK orðin allt of sein og komin í sturtu. Ég eitthvað meira að dóla mér í bælinu. Datt svo í hug að losa okkur við hana vinkonu okkar og koma henni barsta út. Sem ég kem vopnaður glasi og pappaspjaldi albúinn til flugumennsku var hún þá ekki horfin eins og jörðin hefði gleypt hana. Nú... úr því að frú hungangsfluga komst inn um gluggann þá mátti nú líka alveg trúa því að frú hungangsfluga kæmist út um gluggann aftur! Hunangsfluguveiðimaðurinn ógurlegi sá því að hann hafði ekkert hlutverk í þessari veiðiferð meira og lagðist undir feldinn aftur. Var svo kallað og óskað eftir þátttöku hans í nestisgerð kennararns duglegasta. Og þá var farið á fætur. Til að hylja nekt veiðimannsins og halda á honum hita við nestisgerðina ætlaði hann að bregða sér í eina af þessum lopapeysum sem húsráðendurnir búa yfir. Heyrðist þá ekki aftur þetta óhugnanlega dðsssssssssss dððssssssssssssþþþþssszzzððððð og lét peysan bara ófriðlega. Má leiða að því líkum að peysuskömmin hefði getað stungið á hinn ógurlegasta hátt ef veiðimaðurinn hefði ekki tekið vopn sín og verjur aftur til handargagns og ráðist til atlögu við hinn ógurlega vágest sem lá reyndar hálf dasaður á svefnherbergisgólfinu. Var nú gerð leyfturárás ofan frá og glasinu brugðið yfir hinn ógurlega vágest. Lét hann mjög ófriðlega þegar hann áttaði sig á hvað hafði gerst. Varð svo að sama skapi frelsinu feginn þegar hann fékk að flögra út um stofugluggann og út í vorið sem er þarna einvhers staðar að búa til sumar hand okkur.

Nú en svo smurði veiðimaðurinn bara nestið, HK fór í sína vinnu og veiðumaðurinn gerðist svo bara aftur venjulegur meðaljón og fór í sína vinnu.

Líkur hér sögu þessari af hunangsfluguveiðimanninum ógurlega!



....

Friday, April 25, 2008

Það kom víst sumar!

Sumarið er komið

Það var í dag eða kannski í gær fyrir þá sem vilja meina að nýr dagur byrji alltaf á miðnætti. Dagurinn byrjaði vel með því að fara á fætur eftir að hafa hlustað á klukkuna reyna að láta okkur drattast á fætur á kortersfresti í svona næstum heilan klukkutíma. Ég meina, til hvers eru helgidagar ef ekki til að vera pínulítið latur / löt eða bara í góðu skapi.

The breakfast table out of focus

Morgunverðarhlaðborðið var eitthvað aðeins óskýrt þegar HK mundaði myndavélina til að mynda það í bak og fyrir. Nei, það var bara slökkt á honum herra autofokus.
The breakfast table

Eftir að hann var kominn í betra lag fundum við græna eðalisdrykkinn sem var innbyrtur með fettum og brettum.

Morgunsjússarnir - The morning shot

En nýjasta trendið okkar sem sagt lifir enn og það er að fara fram á stigapall og slá hveitigrasakurinn sem mátti lesa eða að minnsta kosti sjá í blogginu 18. apríl. Það er reyndar meira eins og að klippa heldur en að slá því sláttuvélin er nú bara eldhússkæragarmurinn. Svo er grasið sett í hakkavélina sem mamman kom með að lána okkur um daginn og svo kemur annars vegar út úr henni dularfullur volgur grasdrellir og hins vegar þessi undarlega lyktandi græni vökvi. Reyndar ekki svo mjög undarlega lyktandi þar sem það er nú bara sumargraslykt af honum. Við sem sagt skáluðum fyrir sumrinu.

Svo vorum við alveg massamegadugleg. Tókum alveg heví mikið á því í garðvinnu. Ég var sínu duglegastur að eigin mati. Byrjaði á að taka niður jólaseríuna úr sírenutrénu (eða er þetta annars ekki sírena sem við erum með... spyr sá sem man ekki hvernig hvaða tré er en þykist samt vera skógræktarlarl) og fór svo að skrúfa ný bretti á minn aldna Leðjuláka hjólfák. HK var eitthvað svona meira í hefðbundinni garðvinnu, safna saman vetrarrússli og taka saman dauðar greinar.



...en af hverju finnst mér Sigurrós núna vera svona fáránlega góð hljómsveit... eru einhverjar aðrar þannig hljómsveitir til? ...

Monday, April 21, 2008

Badminton og jöklaferð

Eiríkur and The Thunderbird
Eiríkur á þeim hvíta - Thunderbird

Það var eitthvað til dundurs gert. Til hafði reyndar staðið að fara einhverjar fjallgöngur um helgina. Annað hvort á Eyjafjallajökul með nafna mínum úr vinnunni og fleirum eða þá með HSSR tengdu fólki á Snæfellsjökul.

Á föstudagskvöldi var hins vegar flugumót í badminton þar sem ég lenti í þriðja sæti og ákvað að vera bara latur og fara að dæmi Gunnars á Hlíðarenda og sitja heima í sæmdi minni og fara bara hvergi. Ekki eins lengi og fornkappinn sem sat heilan vetur heldur ætlaði ég að láta daginn duga. Það tókst þó alls ekki þar sem maður að nafni Eiríkur hringdi og vildi fá okkur bæði, mig og HK upp á Langjökul með sér í bara svona dægilegan bíltúr. HK var ekki alveg orði nógu hress af vesöld sem var að hrjá hana og fór ekki en það gerði ég.

Þetta var mikið gaman. Komum við á M6 þar sem alls kyns dót var tekið saman áður en haldið skyldi í hann. Aðal tilgangurinn var reyndar að koma með vatn á brúsum fyrir JÖRFÍ menn sem voru við borun og mælingar á jöklinum.

Ferðin gekk vel og stórslysalaust fyrir sig fyrir utan eitt púff þegar drífutakkarnir biluðu. Hittum síðan þá félaga, Eyfa, Sveinbjörn og Hlyn Skagfjörð sem voru að bora og hamast í góðaveðrinu. Þvældumst við með þeim fram eftir degi. Hjálpuðum smá og ég tók eitthvað myndum. Æddum upp á Geitlandsjökul og fórum svo í fluggír niður Krillajökul hans Kristleifs í Húsafelli. Reyndar gekk ferðin upp aftur til baka eitthvað hægar fyrir sig. Vont færi með púðursnjó undir þunnri ísskel og drífutakkarnir bilaðir. Þetta gat bara endað á þann veg að gert var við drífutakkana góðu og með loftlæsingarnar á komumst við á skrið og enduðum svo í pulsupartýi uppi á miðjum Langjöklinum.

Sveinbjörn and Eyfi
Sveinbjörn að bora - Eyfi að mæla

Sveinbjörn and Hlynur
Skagfjörð að bora

Three men on a glacier
Einhverjir tveir gestkomandi karlar á tveimur jeppum sem kíktu á okkur

The sunset on the glacier
Svo kom að því að sólin settist - alltaf flott á jökli

Thunderbird and Boli
Tunder og Boli uppi á miðjum Langjökli með stjörnubjartan himininn yfir sér

On the way home
Á heimleð á Línuveginum að pumpa í dekk, tanka og alls kyns

Eftir pulsupartýið Edilonsfína sem fór fram í hlýjunni í Bola var haldið heim á leið. Gekk fyrirhafnarlítið að skottast niður jökulinn og stjörnunar eltu okkur áleiðis til Reykjavíkur og tunglið reyndar líka.

Friday, April 18, 2008

Grænu engin hinum megin

The green grass

Þetta gæti verið lýsandi mynd fyrir leikritið sem við HL sáum í fyrrakvöld. En þetta er nú samt bara nýjasta trendið, hveitigrasið sem er pressað með sérstökum hætti og sötrað af kúnstarinnar mætti. Þetta ku vera allra meina bót.

Fyrst (eftir að konan sem kemur stundum er búin að koma með hveitigrasið og allt dótið) fer maður og klippir smá hveitigras af hveitigras akrinum sínum. Svo er þetta allt sett í hveitigrass pressuna og pressað alveg fullt. Það lekur þá út grænn undarlegur vökvi sem lyktar eins og heil hlaða.

Svo byrjar maður eitthvað að færa þetta til og þá ef maður er dálítið spastískur á fínhreyfingunum eins og fíll í postulínsbúð eins og maður er stundum þá hellir maður þessu öllu niður. Þá er bara að sötra þetta af borðinu eins og maður varð að gera!



Og þegar maður er búinn að sötra þá er að velta hunangsvökvanum uppi í sér og finnast þetta ekki svo slæmt!



Og náttúrlega hafa með sér HK til að taka mynd af manni!

Þetta gerðist annars fyrr í kvöld sem var fimmtudagskvöld en núna er komin nótt sem er á föstudegi skv. þeirri skilgreiningu að nýr dagur byrji þegar klukkan slær miðnætti. Mér finnst alltaf meira að nýr dagur byrji þegar maður fer á fætur. Það er samt þá umdeilanlegt hvort nýr dagur er kominn núna því ég fór ekkert svo seint að sofa en fór bara aftur á fætur til að ljúka við eitthvað eins og þetta blogg og þá er kannski kominn föstudagur.


------------------

En það er stundum of lítið að gerast til að það sé gaman að blogga um það og svo er stundum svo margt að gerast að það finnst enginn tími til að blogga um það. Það fyrrnefnda er afleitt en það síðarnefnda er í sjálfu sér ákjósanlegt þó bloggið manns verði þá hálf svona snubbótt fyrir vikið. Ég er dálítið að kljást við það fyrrnefnda.

Nú væri hægt að blogga um alveg eðalis fína leikhúsferð sem við HK fórum að sjá hjá nemendum HK þar sem þeir sýndu grænu engin hinum megin. Mikið gaman að sjá hvað sýningin var flott. Sumir eða kannski flestir leikararnir töluðu á köflum dálítið hratt þannig að sljóum miðaldra áhorfendum fannst á stundum erfitt að heyra allt og ná öllum orðunum en það lagaðist nú mikið þegar leið á sýninguna. En þar fyrir utan hin besta sýning og alveg eðal söngur hjá sumum leikurum og sýningin skemmtileg. Mæli með þessu í Austurbæ!

Svo væri hægt að blogga um æfintýri helgarinnar þegar farið var með HSSR í Þórsmörk. Það verður kannski gert eitthvað meira en til að byrja með þá eru myndir hér.

Svo þarf að ferðablogga um páskaferðina í Lakagíga með Gunna, Palla og Rósu. En til að byrja með þá eru myndir komnar á verfinn.

Svo mætti líka blogga eitthvað um afrek mín á sviði stjörnuskoðunar. En þau eru nú reyndar ekki neitt svo rosaleg að beinlínis sé hægt að stæra sig af þeim en samt verð ég að játa að mér finnast hringir Satúrunusar með því merkilegasta sem ég hef augum litið!

-----------------

Svo stendur margt til og eitthvað sem á að fara að gera. Fór skokkandi í kvöld enda verður maður að halda sér eitthvað í forminu til að geta gengið á fjöllin. Um helgina verður kannski farið á Eyjafjallajökul og kannski verður farið á Snæfellsjökul. Fór annars áðan og ætlaði að nota einhverjar innleggsnótur frá jólagjöfum sem ég skal alltaf skipta til að kaupa nýjan hlaupara stakk. Fékk nebblega einhvern stakk í jólagjöf ætlaðan til hlaupaiðkunarnar en vildi ekki þann stakk heldur einhvern allt annan og það endaði með innleggsnótu. Fór í Útilíf en var búinn að týna nótunni. Þarf að finna hana en fann í Útilífi þennan edilonsfína stakk sem kemst í mína eigu þegar nótuskömmin finnst sem skal verða fljótt.

Prufaði svo líka Cintamani lopahettupeysu þarna í Útilífinu og minn langar eilega í svoleis þó það sé of sterilt að vera í merkjavörulopapeysu svona eiginlega og svo líka einum of að kaupa lopapeysu á 20 þúsund og svo er hún af einverjum ástæðum bara seld í kerlingarsniði en það passaði samt bara flott fannst mér. Kannski maður fari í lopipeysubúð eða búi til einhvern tíma fyrir sig og prjóni barsta sjálfur. Það er eiginlega samt verst með þetta skrambans tímaleysi sem alls staðar er. Af hverju er maður hannaður þannig að maður þurfi að sofa þriðja part af sólarhringnum? Mér finnst það ferlegt!