Tuesday, October 09, 2007
Helgi á mannbroddum og mánudagur til sköfu
Cesarur hrímaður á mánudagsmorgni
Það biðu manns morgunverk á mánudagsmorgni og af því að maður reyndi að vera smá herralegur þá var Runi bara skafinn líka. Létt verk og löðurmannlegt. En það var viðburðarík helgin getur maður sagt.
Fyrst skal það telja til tíðinda að við komumst bæði í partý ég og HK saman á Cesari sem var skilinn eftir sakir almenns drykkjuskapar. Var þar verið að kveðja Erik sem skal af landi brott í einhverja mánuði.
Það var komið heim einhvern tíman eftir miðnættið en samt ekkert svo rosalega seint. Samt var ástand manns þegar vaknað skyldi klukkan 7 á laugardagsmorogni ekkert sérlega björgulegt. Arna kom og David bjargandi málunum og manni var ekið á M6 með viðkomu á Essó þar sem nestið var verslað í snarhasti. Það var ekki mikil gleði sitjandi í Ásnum á leið á Sólheimajökul en þar var mannbroddabrölt fram og til baka, æfðar sprungubjarganir og ísklifrað af miklum móð!
Að krafla sig upp úr svelgi einum hroðalegum!
Þetta gekk nú svo sem allt ágætlega alveg þangað til minn fór að síga niður og endað á hvolfi dinglandi yfir 10 metra djúpu hyldýpinu! En þetta fór svo sem allt ágætlega fyrir utan að afturendinn á undirrituðum varð eitthvað sár á eftir.
Hagavatn og Hagafellsjökull að leika sér í góða veðrinu
En svo kom sunnudagurinn og þá var haldið á allt annan jökul. Ég, HK og Gúnninn saman á Cesari sem var hinn kátasti með að fá að fara af bæ! Förinni var ætlað að verða hinn frækilegasti mælingaleiðangur þar sem við höfðum tekið að okkur að mæla sporðinn á Hagafellsjöklunum. Það gekk allt ágætlega þangað til GPS tækið þóttist verða minnisfullt og HK tók á það ráð að beygla á sér andlitið þannig að tækið tæki sönsum, sem og það gerði!
HK og Gúnninn veltandi vöngum
Nú og svo kom mánudagurinn ágætur með sköfunni. Datt síðan svona í hug að setja þessa mynd hér sem var tekin á heimleið mánudagsins og er hægt að horfa á í einhverri þrívídd fyrir þá sem slíkt vilja iðka!
Þetta snýst um að gera sig öfugt rangeygðan fyrir þá sem ekki vita!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment