Sigurrós - takk fyrir mig! Tvennir ógleymanlegir tónleikar!
Monday, July 31, 2006
Sunday, July 30, 2006
Að vera heima
Langintesa ferðalagablogg
Það verður að öllum líkindum að blogga um sumarfrísferðalagið, sem var farið í fyrir einhverjum þremur vikum síðan. Þarf að bloggast alveg fullt!
Á Akureyri með bilaðan bíl
Fyrst var ekið á honum Cesari til Akureyris og gekk það bara vel svona framan af eða þangað til kom í ljós að hann var eitthvað dálítið latur við að búa til rafurmagn. Lauk því æfintýri einhvers staðar við Þelamörk eða eitthvað skemmtilegt. Harðneitaði hann að halda áfram. Fyrir þá sem ekki vita er Cesar blár og ferlega flottur en dálítið flogaveikur grei skinnið...Ég var einn á ferð, hafði ætlað að vinna á Akureyri fram að hádegi og var sem sagt með rafmgangslausan bíl sem gat ekki búið til nýtt rafmagn þarna einhvers staðar 15 eða 20 þúsund metra fyrir utan hana Akureyri. Nú, það var ekkert um neitt annað að ræða en að fara á puttanum: "kan jú teik mí tó hótel kea...?" Það reyndi nú annars ekkert á enskukunnáttuna því það stoppuðu bara íslenskir bílar. Sá fyrsti að fara til Dalvíkur en sá næsti kona með fullan bíl af krökkum og alls konar dóti en samt alltaf pláss fyrir einn. Þröngt máttu þar sátti sitja. Frábær manneskja að taka mann upp í þó ég hefði ekki séð að pláss hefði verið fyrir nokkurn skapaðan hlut.
Nú á Kea var sofið og svo unnið á Akureyris og svo farið að koma bílnum eitthvað í lag. Sumir reyndust betur en aðrir. Ekki reyndist vera mikið hald í aðstoð FÍB. Þar svaraði einhver þreyttur gaur sem fannst ég vera nokkuð undarlegur að ætlað fá einhverja aðstoð með bilaðan bíl fyrir utan Akureyri. Það eina sem hann gat boðið uppá var að segja mér frá einhverjum dráttarkarli á Akureyri sem myndi sækja bílinn fyrir svona tíuþúsundkall en úr því ég vissi ekki alveg hvert ég ætlaði með hann var ég einhvern veginn ekki af neinun áhuga fyrir þessa ágætu FÍB aðstoð.
Þá fór maður til þeirra sem maður þekkti og treysti eitthvað. Þar rokkaði BSA feitt og var frábært með Hauk og kó. Ónefnt verkstæði á Egilstöðum rokkaði ekki svo rosalega neitt held ég en altanítorabúðin í henni Reykjavík hún Rafstilling, brást ekki heldur sendi bara nýjan altanítor um hæl enda ekki hægt að láta mig vera strandaglóp á Akureyri útaf einhverju fúski á einhverjum verkstæðum á Egilstöðum og Reykjavík.
Svo var slórað á Akureyri fram eftir degi, farið á kaffihús og teknar myndir á Lensbaby sem rokkaði ekki síður en verkstæðin...
Það var líka farið í smá bíltúr út í sveit þegar rafmagn var komið á skrjóðinn og gerðar impressioniskar tilraunir með lensbabíið:
Svo kom Hanakata og við enduðum á að tjalda inni í Kjarnaskógi sem var svakaflott og barsta ágætt.
Morguninn eftir var bíllinn sóttur á verkstæðið og var allur hinn brattasti. Við kíktum til Jóhönnu og Péturs. Hnéð á Hönnukötu var rannsakað og þau buðu upp á eitthvað það bestasta eðalkaffi sem ég hefi fengið og öndvegis ávaxtasafa. Skemmtilegt innlit þar verður að segjast.
Mývatn, Námaskarð og Jökulsárgljúfur
Eftir allslags útréttingar var svo haldið af stað og haldið austur á Mývatn. Það var ekki áðum sinnt fyrr en komið var í Námasakarð... eftir að við komum af okkur sendingu til Gilla. Í Námaskarði var myndavél munduð og gerð tilraun til að búa til ódauðleg listaverk. Veit ekki hvort allt tókst en eitthvað kom út úr því.Annars fyndið að þegar við vorum þarna komu til Hollenskir strákar og spurðu hvort við værum með eitthvað til að hreinsa sensor í myndavél... og ekki málið. Sensor klíning kitið dregið upp og skrúbbað af sensornum á staðnum. Tókst held ég bara ágætlega. Ekki miklar líkur annars á að rekast á einhvern þarna í úti í sveit með svoleis dót meðferðis. En mar klikkaði ekki á þessu!
HK mundaði einnig myndavélina og tók myndir í gríð og erg. Var reyndar ekkert kát á svipinn en ég held að hún hafi bara verið að þykjast...
enda tók hún þessa undarlegu mynd af mér...
og líka þessa hér:
En nei. Ég er ekki að leika jólasvein og ég er ekki í að undirbúa veggjakrot. Rauði hatturinn er húfan henna hönnutötu og spreybrúsinn er bara með lofti innanborðs og var notaður í hollensku hreinsiaðgerðina!
Svo var áfram haldið. Ekinn Dettifossvegur að vesan sem á að fara að endurnýja eitthvað. Svei þeim. Ekkert að þessum vegi eins og hann var þegar við fórum hann. Of góður ef eitthvað er. Urðum reyndar dálítið syfjuð og úrill þarna undir lokinn en okkur tókst að þvo það af í rigningunni.
Það fór nefnilega að rigna og það rigndi og svo rigndi meira og það var mikið. Þá sagði ég: Heyrðu, það er komin irgning. Þetta rigningarsudd varð til þess að ég yfirgaf glabúxurnar og fór í fjallamannabuxur... enda lentur í hálfgerðu slarki.
Ekki var nú farið langt. Landverðir umdæmisins heimsóttir og svo farið í borgara til _ _ _ í Birgisborgara. Það var ljúft og sátum við þar lengi dags. Reyndar komum við okkur ekki af stað í þennan leiðangur fyrr en klukkan var langt gengin í kvöld. Mér fannst að allir væru að fá sér hádegismat en þetta var víst orðinn kvöldmatur og það frekar síðbúinn jafnvel. Svo lokaði Ísak og við þurftum að koma okkur eitthvað. Guðrún var komin og við á Núp og svo á Brekku í ísveislu eina mikla. Svo til baka á Núp. Þar var sofið og svo vaknað. Eftir það var haldið út á Sléttu. það var gaman.
Haldið fyrir Sléttu já nefnilega Melrakkasléttu
Þar byrjuðum við á að fara með Guðrúnu og heimsækja hana Hildi... vona að ég farið rétt með nafn heiðurskonunnar. Þar sem hún var ekkert of ánægð með myndatökur af sjálfri sér sleppi ég að setja mynd af henni sjálfri á netið en set í staðinn bara mynd af húsinu hennar sem er ekki slæmur kostur heldur...Svo þurfti Guðrún að fara til baka á Núp og við HK héldum áfram okkar för sem varð nú hálf skrykkjótt. Það var nebblega þannig veður að það var ekki nokkur leið að halda stíft áfram. Við duttum í sólbað og alls konar letibrölt. Fórum oní fjöru og bara spókuðum okkur.
Þetta var í unaðsfagurri vík þar sem við lágum í sólbaði en reyndar var ekki nógu heitt þannig að við fórum ekkert í sjóinn en ég sé það alveg fyrir mér að við hefðum striplast um nakin og buslað í sjónum. En þetta varð bara svona afslöppunaránægja.
En það var ekki til setunnar boðið. Yfir okkur vöktu hræðileg skrímsl sem gerðu sig líkleg til að éta okkur bæði með húð og hári.
Cesar var samt traustur og við komumst í burtu. Keyrðum áfram og komumst að því að á þessum slóðum hafa skrímsli étið fullt af fólki og eftir standa húsin tóm, mannlaus og frekar óhugnanleg. Ég held að þetta séu kölluð eyðibýli!
Loks var endað á Þórshöfn. Grillað fyrir utan bæinn um miðja nótt og svo hrotið í vellystingum praktulega á Hótel Jórvík áður en haldið var á fjöllin. Fríið hennar Hönutötu búið og alvaran að fara að taka við a.m.k. hjá henni. Ég svona meira að gera það sem mér dettur í hug...
Og svo var reyndar annað eyðibýli, eiginlega af flottari gerðinni, myndin finnst mér í það minnsta!
Herðubreiðarlindir og Askja... Gamla settið í heimsókn ásamt Ralldiggni og Kristjáni
Það var ógurlegt rok á leiðinni og keyrðum við fram á bíl sem hafði farið út af. Líklega sambland af ógætilegum akstri og miklum vindi. Mættum líka hjólreiðamanni sem bar sig fremur aumlega og gat ekkert hjólað. Vildi ekki far þar sem við gátum ekki tekið hjólið hans líka. Sem var svo sem allt í lagi því hann átti ekki nema eitthað um hálfan kílómetra í slysavarnarskýli. Við vonum að hann hafi haft vit á að stoppa þar en að öllum líkindum hugsaði hann okkur þegjandi þörfina fyrir að hafa ekki tekið hjólið og þá hann sjálfan í bílinn.Við komumst samt klakklaust í Herðubreiðarlindir. Þar var Guðný fyrir og tók á móti okkur og var ekki lítið gaman þar. Það var hins vegar ennþá rok og sandstormur daginn eftir. Sást varla handa skil eða a.m.k. ekki neitt til Herðubreiðar og varla á milli skála eins og sjá má!
Svo komu pabburinn og mamman og ralldiggnul og kristjánul. Það var líka vola gaman. Fyrst fór faðir minn Fjalla-Eytvindur og skoðaði kofann sinn gamla góða. Nokkuð fannst honum til koma en heldur meira fannst honum um vatnshrúta þá miklu sem Teitsson hafði látið koma þar fyrir af hinum mesta myndarskap!
Svo var sest að snæðingi þar sem hesthúsað var herjarinnar lambasteik a la mamamía og ralldignul. Við fressarnir og dömurnar horfum aðallega á! En veislan var góð!
Við fórum jeppandi í Hvannalindir og það var einstakt og svo gengum við út í náttúrna og fengum okkur að borða!
Síðan var ekki áðum sinnt fyrr en komið var í Kverkfjöll. Þar var farið í herjarinnar könnunarleiðangur og gengið yfir hóla og hæðir.
Látum var ekki linnt fyrr en við fundum eitt herjarinnar gat í jökulstálið. Vorum við þar búin að uppgötva íshelli í Kverkfjöllum. Var hann kannaður einkum að utan enda ljóst að innfyrir að fara væri hættuspil sakir hættu á hruni.
Svo heilsaði ég upp á skálaverjur, Laufeyju og Ane og loks var haldið til baka þar sem ég fór að leika landvörð enda HK og Guðný farnar upp í Öskju á fund drekanna! Landvarslan gekk ágætlega. Reyndar voru einhverjir krakkagríslingar þarna á tjaldstæðinu í fótbolta fram á nótt á meðan foreldrarnir þömbuðu rauðvín í lítratali. Svo komu pólsku stelpurnar sem ætluðu a plamba um nóttina upp í Öskju. Leist nú ekki mikið á ferðalagið en þær vissu eitthvað örlítið sínu viti!
Daginn eftir fórum við öllsömul upp í Öskju. Ma og Pa örkuðu alveg inn að Víti og fannst þetta dáldið sérstakt. Mamman hafði komið þarna einvhern tíman áður um 1960 og fannst eflaust gaman að vera komin aftur!
Við fórum ekkert í Víti enda hættuför að fara þangað niður sakir hættulegra stíga og enda til siðs að svamla þar allsber sem kannski öllum leist ekkert of vel á!
Um kvöldið bar það helst til tíðinda að hjólbarðar tóku að gefa sig á ótrúlegasta hátt. Verður ekki rætt mjög hátt um það sem gerðist við Upptyppinga en því meira flaggað að tunglið skartaði sínu fegursta við hana Herðubreið þegar sólin var gengin til náða!
Daginn eftir bar það helstast til tíðinda að það var haldið uppteknum hætti og flaggað í hálfa stöng. Ane kom úr Kverkfjöllum og við settum upp fánastöng upp á hól. Ég sem keppnislandvörður hjálpaði til en alvöru landverðir komu að sjálfsögðu hvergi nærri!
Og svo var fáninn kominn á sinn stað!
Nú fyrir utan það að blíðan var eitthvað farin á burt sem og famiglían gerði. Ralldign og Kristján fóru til byggða á sínum eðal sleða en ég fór á Cesari með ma og pa á Mývatn. Verslaði og útréttaði alls konar. Lét gera við dekk og plastaði skrautmiða Hrafnhildar. Æddi svo til baka yfir þvottabrettið við Hrossaborg og var kominn einhvern tíman seint um kvöld í Dreka.
Og þar blakti fáninn enn á hálfri stöng...
Svo fór ég reyndar og tók hann bara niður og fór svo að taka myndir af túrhestum sem höfðu fengið sér spássitúr upp á Feðgna.
Af gönguferðum Öskjunnar
Nú tók við nýr kafli fjallamennskunnar. Reyndar var rigning fyrstu dagana og ekki mikið afrekað. Helst að nefna að rennandi blaut þýsk stelpa bankaði uppá, komin gangandi úr Herðubreiðarlindum og bar sig aumlega fyrir þær sakir helsta að hafa ekki séð neitt af okkar bjútifúl mánteins. Fékk ókeypis áttavitakennslu áður en hún hélt áfram Öskjuveginn niður í Svartakot eða hvað það heitir sem arkað er til.
En svo var ákveðið að við svo búið mætti ekki sitja og var eldaður Edilons kjötgrautur úr krús. Barsta mjög gott. Reyndar afgangar frá heimsókn forkólfa Umhverfisstofnunar en góðir afgangar eru bestir af öllu segir hið nýja máltæki sem var búið til hér og nú...
Svo var skrifað í dagbækur, gönguskór smurðir og lagt af stað daginn eftir.
Einhver fjárans dumbungur var nú þarna í minni fyrstu göngu. Einn gekk ég innan um tröll og forynjur en var bara hvergi banginn. Enda vopnaður GPS tæki, áttavita, korti, myndavél og kossi frá Hönnutötu.
Svo eftir að hafa gengið lengi lengi dags blasti skyndilega Öskjuvatn við og síðan Vítið sjálft.
Þangað var brunað niður hála og hættulega stíga og svo striplast ofaní drullupollinn. Var það fyrsta baðferðin af þremur á ekki mikið fleiri dögum! Reyndar gæti verið rannsóknarefni hvernig baðfatatískan í Víti er. Einhvern veginn lendi ég þar alltaf með meira og minna kapplæddu fólki og maður hálf óttast að trufla blygðunarkennd þess með að skella sér nakinn ofan í. En síðan segjast aðrir hafa verið einir þarna á staðnum í sundfötum og eiginlega hálf skammast sín fyrir tepruskapinn. En í öllu falli þá skal ég fara einhvern veginn þarna ofan í og hananú!
Eftir að hafa svamlað lóinið þvert og endilangt var loks haldið til baka, reyndar haldið áfram að vera á fjöllunum uppi og var það gaman.
Daginn eftir var komin þessi líka himnablíða. Þá var haldið í Öskjurhing. Þ.e. farið inn að Víti fyrst frá bílastæðinu við Öskjuop og svo haldið upp á Dyngjufjöllin þar og hæstu tindar þræddir þangað til komið var á Þorvaldstind.
Útsýnið var stórbrotið og veðrið alveg einstakt. Það var þarna 20 stiga hiti og sólbaðsveður uppi á fjöllunum. Gáfust góð tækifæri til sólbaða þarna uppi.
Loks eftir langt labb var komið á einn tind sem jú var aðeins hærri en hinir. Þetta var nefnilegra óttalegt bras að finna rétta tindinn. HK hafði sagt mér frá gestabók sem átti þarna einhvers staðar að vera. En eitthvað átti hún að vera vandfundin og fór ég eiginlega upp á hvern einasta tind sem ég komst á til að leita að þessari bókarskruddu. Loks fannst hún og er þar sjaldséðasta gestabók sem sögur fara af held ég. Byrjað var að skrifa í hana upp úr 1990 og var skrifað í hana á nokkurra ára fresti til að byrja með. En seinni ár hefur þetta aukist verulerga. Jobbi og Hrafnhildur skrifuðu í hana 2004 svo einhverjir tveir litlir hópar í fyrra og svo ég núna. Reyndar er eitthvað aðeins fleira fóilk sem kemur þarna sem skrifar þá ekki í bókin þar sem ég sá fótspor ekki langt frá tindinum en fáir eru þeir samt. Kannskii svona einn aðra hverja viku eða svo gæti ég trúað!
En fyrir þá sem hafa áhuga þá lítur Þorvaldstindur svona út:
Og útsýnið af honum er svo sem svipað og á Öskjumyndunum þar fyrir ofan.
Svo gekk ég áfram þarna niður og kom að Knebelsvörðunni hinni eldri.
Daginn eftir var ekki síðra veður og var þá arkað inn í Suðurbotn við Öskjuvatn. Það var ekki síður gaman. Svamlað aðeins í vatninu sem var kalt og svo slakað á í góða veðrinu. Engin sérstök þörf á fötum þar!
Það kvöld ef ég man rétt var farið niður í Herðubreiðarlindir. Étin steik og svo sátu landverjur á fundi og ræddu sín mál á meðan keppnislandvörðurinn fór einnn síns liðs og tók næturmyndir af þjóðarfjallinu...
Gæsavatnaferðalangar á Sigurrósartónleikum
Og síðan var bara farið heim
VERÐUR FRAM HALDIÐ .....
Sunday, July 09, 2006
Bloggpása ein ógurleg
Saturday, July 08, 2006
Bloggfrí
Ég fer í fríið
Á morgun fer ég til Akureyrar og svo á mánudag verður haldið til fjalla í Herðubreiðarlindir og Öskju. Geri ráð fyrir svona einnar til þriggja vikna bloggleysi af þessum sökum. Það verða líklegast einhverjar myndir í kjölfarið.Verum kúl
Friday, July 07, 2006
Ég hlít að vera snillingur
- eða kannski er ég bara spastískur
Ég er að minnsta kosti með kvef. Til að slá eitthvað á það ógeð þá reyni ég að dæla í mig vítamínum og alls kyns undralyfjum á hverjum morgni. Núna í morgun skyldi þessu svo vara skolað niður með djúsglasi. Sem ég var búinn að hella þessum fína applesínusafa í glas og var að dunda mér við að skrúfa lokið á pilluboxi sem heitir "Magnamín" haldið þið þá ekki að önnur hendin á mér hafi ekki hlaupið undan merkjum, pilluglasið upp í loft, ég rak mig í annað glas í fátinu sem datt á gólfið og stútaðist og svo kom pilluglasið niður aftur með ógnarhraða og með opið á undan sér. Rataði beina leið ofan í djúsglasið sem stóð í mestu makindum á elhúsborðinu og mátti ekki vamm sitt vita. Pilluglasið stakk sér af þvílíkum krafti að djúsglasið valt á hliðina og gusaðist þessi ágæti applesínusafi út um allt og í honum tróðu vínrauðir Magnamín belgir marvaðann eins og þeim væri borgað fyrir það.
Já, svona gerast æfíntýrin á Laugaveginum sko!
Þetta blogg varð annars fyrir óvæntri truflun. Allt í einu fylltist allt af lögreglum hér fyrir utan sem voru með sírenur og alls kyns hávaða í allar áttir. Eftir að öll umferð hafði verið stöðvuð kom svo svört drossía með númeri einn og einhverjir fánar blaktandi á húddinu. Þetta var annars ekki Búss heldur einhver Grikki líklega af fánunum að dæma. Það hlýtur að vera undarlegt hlutskipti að vera forseti!
Monday, July 03, 2006
Undarlegur dagur
Vaknaði við smátíst í armbandsúrinu mínu einhvern tíman í morgun. Kveikti á tölvunni uppi í rúmi. Svona ósiður eins og hjá þeim sem reykja uppi í rúmi. Ókey - ég er forfallið tölvunörd... en... ákvað að leggja mig aðeins aftur og rumskaði ekki fyrr en einhvern tíman þegar klukkan var langt gengin í fjögur. Heyr og endemi. Þetta nálgast nú að vera persónulegt met hjá mér.
Eitthvað líitð í frásögurnar færandi. Fór í kvöld bæjarrúnt. Þurfti að koma smásendingu til landvarða í Herðubreiðarlindum og tók einhverjar myndir í leiðinni. Áttu reyndar að fara í keppni á DPC en duga held ég hvergi til slíks brúks og verða því bara hér, áhangendum mínum sem víti til varnaðar... brabra sem sagt:
Eitthvað líitð í frásögurnar færandi. Fór í kvöld bæjarrúnt. Þurfti að koma smásendingu til landvarða í Herðubreiðarlindum og tók einhverjar myndir í leiðinni. Áttu reyndar að fara í keppni á DPC en duga held ég hvergi til slíks brúks og verða því bara hér, áhangendum mínum sem víti til varnaðar... brabra sem sagt:
Subscribe to:
Posts (Atom)