Líklega einhvers konar áramótaheit margendurtekið, ár eftir ár
Það eru eitthvað meira en 10 ár síðan ég eignaðist kæjak eða hvað það bátskrífli skal kallast. Fyrsta reynsla af einhers konar þannig bátum var víst í Vatnaskógi fyrir mörugum áratugum en það voru samt ekki kæjakar heldur kanó bátar. Öðruvísi árar og aðrir frumbyggar Ameríku sem eiga heiðurinn af hönuninni.
Fyrsta kæjakreynslan var víst fyrir 15 árum á Breiðafirði þar sem ég prófaði eitthvað smá í góðum hópi sem ég var þá að þvælast með um fjöll og firnindi. Jú - og áhuginn eða þannig vaknaði þarna.
Svo veit ég eiginlega ekki alveg hvernig en ég keypti minn kæjak eitthvað rétt eftir hrun en fór eitthvað bara pínulítið á hann. Hugmyndin var einhvern veginn að þetta væri ekki sérstaklega dýrt áhugamál og snjallt að eiga kæjak til að geta skroppið eitthvað á - átti að vera frekar ódýrt sport. En miðað við að kæjak-kílómetrarnir mínir á þessum líklega þráttán árum erum einhverjir örfáir tugir í heildina. Svona uppreiknað þá kostar hver kílómeter hjá mér a.m.k. tíu þúsund kall - ef allir kostnaðurinn er tekinn með.. jæja ok - a.m.k. 15 þúsund held ég - enda kostar um 15 þúsund að geyma hann hjá kæjakklúbbunum í eitt ár - þó hann sigli ekki neitt!
Í seinustu siglingunni held ég þarna fyrir meira en áratug þá hvolfdi ég og ég varð eitthvað ragur - ekki búinn að fara á neitt námskeið og hafði einhverjar áhyggjur af þessu öllu saman. Þetta var annars alveg flottur kæjak. Gulur Prion Kodiak sem ég á og reyndar á Gunninn alveg eins bara rauðan.
Það má því heita verulega undarlegt að það næsta sem ég geri eftir að hafa átt ónotaðan kæjak í meira en áratug - hafi verið að kaupa bara annan kæjak! En einhvern veginn fékk ég þá flugu í kollinn að sit-on-top kaæjak væri eitthvað aðgengilegri fyrir mig en þessi sem ég var búinn að eiga ónotaðan - og eitthvað forkaupstilboð hjá GG sport endaði með því að ég sló til og borgaði staðfestingargjald í vetur fyrir jól einhvern tímann.
Ég fór svo á stúfana um miðjan apríl til að sækja bátinn. Vantaði þá eitthvað af dóti sem ég átti úr fyrra kæjak-ruglinu mínu og þurfti að komast í geymsuna í Nauthólsvík þar sem minn bátur reyndist vera í góðum félagsskap annarra kæjaka sem mér sýnist að séu margir hverjir ekki mikið notaðir heldur. Ég hef reyndar einhvern grun um að einhver hafi notað kæjakinn eitthvað fyrir mína hönd þar sem það var bleyta í honum og eitthvað ókunnugt björgunarvesti. En lensidælan mín merkt mér var í honum þannig að þetta var líklegast minn bátur - en hann var ekki merktur ég eiginlega með talasverðar áhyggjur af því að ég myndi aldrei finna hann aftur. Þarna var líka held ég báturinn hans gunna.
Svo var báturinn sóttur í GG sport og prófaður á Hafravatni seinna sama dag. Ég er annars ekki viss um hversu mikið happa það er - þar sem hinn báturinn var líka prófaður fyrst á Hafravatni líka. Fór með Gunna sem prófaði aðeins líka. Þessi bátur, sit-on-top er allur mikið þægilegri að nota en sá guli. Einfalt að komast í hann og hann er það breiður að það er ekkert einfalt að velta honum. Það þýðir líka það að hann siglir eitthvað hægar en Kodiak báturinn
Síðan er ég líklegast búinn að fara tvisvar á Hafravatn og í gær var farið á Elliðavatn. Ég yrði reyndar ekki hissa að þetta verði eitthvað trend. Fyrir mörgum áratugum var ég í hópi sem hengdi upp myndir úr félagslífinu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti - FB - sem var Facebook eða Instragram þess tíma. Fyrir færri áratugum áttaði ég mig á töfrum þess að fara á gönguskíði í Heiðmörk - sem var þá einkennilegt en er svona mainstream í dag. Sama með það að fara í gönguferðir í náttúru Íslands.
Þar sem ég var að róa upp ána Bugðu, sem er neðsti hluti Hólmsár og rennur í Elliðavatn, í algjörri snilld þarna á lignu vatninu sem rennur svo mátulega rólega að það er lítið mál að róa upp ána - þá var þar kona á bakkanum að ganga með hundinn sinn. Hún sagðist koma þarna mjög oft en - jú - aldrei hefði hún séð neinn á kæjak þarna. Þetta var svo mikil snilld að ég held að þetta hljóti að verða eitthvað vinsælla í framtíðinni. En samt kannski ekki þar sem ég sé talsvert mikið auglýst af lítið notuðum kæjökum til sölu - og svo á ég náttúrlega þannig bát líka.
Ég held annars að kílómtragjaldið hjá mér á nýja bátnum sé komið niður fyrir 10 þúsund - þannig að þetta er allt að gerast!
Veit svo ekki hvort ég nái Gunna með mér í þetta núna. Talaði við hann eitthvað um þennan róður á Elliðavatni og hann varð svo fúll þegar við vorum ekki sammála um hvar áin Bugða væri, að við gátum eiginlega ekki talað saman um þetta meira - og gátum eiginlega ekki talað neitt yfir höfuð! Reyndar ekki einfalt hvar þessar ár eru þar sem upphafleg nöfn eru frá þeim tíma áður en vatnsborðið var hækkað með stíflu fyrir um 100 árum og vatnið tvöfaldaðist að stærð. En hann sagðist bara vinna við þetta og fannst snúðugt að amatörinn Einar Ragnar þættist eitthvað vita um þetta. Hef reyndar áður séð að Vatnamælingamenn búa sér til einhver nöfn út frá einhverjum þekktum stöðum í nágrenninu og vilja svo meina að nafnið sé bara þeirra staður. Þannig t.d. færðist Undanfarareiturinn í Heiðmörk til eitthvað nokkur hundruð metra hjá þeim þar sem vatnshæðamælirinn þeirra fékk það nafn.