Wednesday, November 09, 2016

Polýönnuleikarnir þegar maður er á batavegi


Með annan fótinn á jörðinni...


Minn hægri fótur fór batnandi dag frá degi eftir að myndin hræðilega úr síðustu færslu var tekin. Reyndar er skurðurinn ennþá all svakalegur að sjá en það hætti að leka úr honum um helgina síðustu og í dag er ég svona til dæmis búinn að fá mér göngutúr uppi í henni Heiðmörk og svo fór ég hjólandi út í búð - ekki stystu leiðina.

Fyrirsögnin á þessari færslu annars - þetta með Pollýönnuleikana er eitthvað sem mér datt í hug fyrir svona rúmu ári þegar ekki gekk allt of vel með fótinn og ég var kominn aftur á hækjur í ágúst einhvern tímann. Þá er samt að sjá eitthvað jákvætt í þessu.
  • Það er svo frábært þegar maður slasar sig eða verður veikur og manni fer að batna aftur... svona t.d. þegar maður getur aftur farið að fara í göngutúr.
  • Þegar það kemur vetur og myrkur á kvöldin þá er svo frábært að geta bara kveikt á kerti og haft smá rómó!
  • Þegar það kemur snjór þá er það svo frábært að geta farið á skíði...
  • Fyrir þá sem finnst ekkert gaman á skíðum er kannski bara hægt að gera snjókarl í staðinn
  • Ef einhver vill ekki hvorki fara á skíði né gera snjókall og sér ekkert við það að hafa kertaljós - þá er hægt að hugga sig við það að með snjónum verður mikið bjartara - og kannski þarf ekkert að nota þessi fjárans kerti :-)

Wednesday, November 02, 2016

Tækifæri fyrir staka sokka


Einstakir sokkar með hlutverk!

Veit ekki hversu batavegurinn er hraður. Held nú samt að þetta sé frekar að koma heldur en hitt. Tók umbúðirnar af í morgun og ætla að leyfa þessu að vera svona í dag helst. Get samt eiginlega ekki farið í vinnuna með þennan halloween fót.

Þetta er eitthvað til friðs held ég en samt verkur þarna einhvers staðar. Veit ekki hvort ég eigi að gera eitthvað í því. Hlýtur eiginlega að teljast vera alveg sæmilega eðlilegt. Ekki lengur á neinum verkjalyfjum og það lekur ekkert úr þessu, hvorki glært, rautt né grænt, hvítt eða gulleitt. Kom örlítið blóð þegar grisjan losnaði frá þessu.

Stefni á að fara í vinnuna á morgun. Væntanlega samt með eitthvað yfir þessu til að ganga ekki fram af fólki.

Tuesday, November 01, 2016

Járnabindingin tekin úr


Fóturinn kominn í umbúðir


Í dag er þriðjudagur en á föstudaginn lagðist ég undir hnífinn. Flatjárnið á sköflungnum skyldi tekið af. Mér skilst að Rikki skurðlæknir hafi skorið mig en ég var víst sofnaður þegar hann kom inn á skurðstofuna og hann var farinn þegar ég rankaði við mér. Var bara yfir daginn á Borgarspítalanum.

Skurðurinn er auðvitað af sama kaliberi og þegar ég var skrúfaður saman í janúar 2015 og jafnvel enn stærri. Mér finnst hann a.m.k. alveg ógnar langur. Held að hann sé eitthvað uppundir 20cm. Átti að taka umbúðir af honum - ég bara sjálfur - í gær í síðasta lagi. Gerði það í gærkvöldi og það lak smá blóð úr þessu ennþá. Leist ekkert allt of vel á skurðinn eða hvað hann grær ekki mjög hratt. En í öllu falli sýnist mér að það sé ekki nein ígerð í þessu. Fannst hann samt enn vera hálf opinn. Ákvað að bíða aðeins með að fara í vinnu en er að reikna með að fara á morgun samt.

Á enga mynd af skurðinum en hann er svona alvöru halloween gerfi myndi ég segja!

Friday, October 21, 2016

Líklega síðasta Hlöðuvallaferðin í bili og ennþá enn hopa jöklar


Frekar ágæt testofa með útsýni


Fór að mér telst fjórtándu ferðina að Hlöðufelli um síðustu helgi. Var einsamall en reyndar talsvert fjölmenni samt á svæðinu. Sótti loksins kjarnana sem ég boraði í klettana við uppgönguna í fyrra og að hluta núna í sumar. Kláraði einnig fleiri sýnatökustaði þar sem sýni höfðu verið of fá. Svo sem ekkert merkilegt um eitt eða neitt að segja þannig séð.


Læmið sem núna hefði mátt kalla Flæmið!

Var laugardag og sunnudag og fór sunnudagurinn að hálfu í að fara inn að Vestari-Hagafellsjökli. Eftir stórrigningar liðinnar viku var talsvert í Læminu og sá ég af bökkunum í kringum ána að hún hefur verið óvæð, a.m.k. tveggja metra djúp þegar mest var í henni.
Jökullinn hafði hopað skv. minni mælingu 56 metra frá síðasta ári.



Síðan er það helst að frétta að karl faðir minn er kominn á sjúkrahús eina ferðina enn.

Jú og svo er ég búinn að gera mig hálf gjaldþrota með kaupum og uppsetningu á Ikea skápum í anddyrið hjá mér. En það er þó a.m.k. komið herjarinnar geymslupláss!

Já og kannski fyrir mig sjálfan ekki hvað síst í frásögur færandi að ég fer í úrjárnun á hægri sköflungi á föstudag eftir viku. Líklega best að sækja hækjurnar upp á háaloft!

Sunday, October 09, 2016

Jöklar hopa enn!

Við jökuljaðar Hagafellsjökuls eystri

Það var farið að Hagafellsjökli eystri og sporður hans mældur. Frumniðurstaða er hop upp á 342 metra síðan hann var mældur síðast árið 2013. Það gerir hop um 114 metra að meðaltali hvert ár. Mæling gerð 8. október.

Feltferð sú 13. á Hlöðuvelli

Það gekk betur í tilraun 2 á Hlöðuvelli. Mér telst reyndar til að þetta hafi verið 13. ferðin þannig að kannski hefur óhappatalan eitthvað gildi. Næst er þá 14. ferðin og einhvern tímann ákvað ég að 14 væri happatalan mín.

Norðurljósin sviku mið reyndar hálfpartinn. Voru bara í meðallagi á meðan ég var vakandi. Náði samt einhverjum myndum. Ók norður að Stórasteini og tók einhverjar myndir. Skemmtilegt að hafa t.d. eðalfjallið Skjaldbreiði á myndunum. Velti dálítið fyrir mér ljósinu sem sést á þessum myndum. Sú fyrri er tekin við Stórastein sem er við norð-vestur horn Hlöðufells. Ég geri ráð fyrir að bjarminn sem þar sést yfir vinstri hlíð Skjaldbreiðar sé frá Reykjavík. Stefnan passar a.m.k. miðað við það.

Ég er hins vegar í vanda með bjarmann á seinnni myndinni sem er tekin undir morgunn frá Hlöðuvöllum. Bjarminn sem sést þar er í stefnu eitthvað norð-vestur og þar er enga sérstaka byggð að finna sem gæti skýrt bjarmann. Liggur reyndar í áttina að skálabyggingum jeppa og sleðamanna norðan Skjaldbreiðar en efast um að ljósin komi þaðan. Held því helst að þetta sé frá tunglinu. Hef samt ekki athugað líklega stefnu að tunglinu klukkan 5 að morgni 30. september.

Wednesday, September 28, 2016

Æfintýri á ökuför eða þannig!

Beðið björgunar!

Það voru æfintýrin í dag. Var fram yfir miðnætti í gærkvöldi að undirbúa ferð á Hlöðvelli og safta líka krækiber áður en berin sem voru tínd á sunnudag myndu öll skemmast. Ætlaði mjög snemma af stað en varð frekar seinn því ég hafði alls ekki náð ekki að undirbbúa mig almennilega kvöldið áður.

Var svo kominn rétt norður fyrir Meyjarsæti þegar það kviknuðu ljós í mælaborðinu, rafmagns og kælivatns. Hafði sem betur fer vit á að stoppa og snúa við. Hringdi í verkstæði og ýmislegt. Hefði brætt úr bílnum ef ég hefði haldið áfram. Mamman manns kom og sótti stúfinn. Fengum okkur eðal fínan bíltúr norður að Línuvegi og svo þingvallahring á bakaleiðinni. Vaka sótti bílinn og fór með á verkstæði. hann kominn í lag og núan gert ráð fyrir brottför snemmbúinni. Heimkoma fer eftir veðri, frammistöðu og ýmsu.

Svo er í frásögur færandi að Ingibjörg Gunnarsdóttir var jarðsett á mánudaginn. Fallegt veður og góð athöfn. En mikið eru eftirlifandi systkini hans föður míns orðin gömul!

Loks má færa til bókar að það ku vera einhver Norðurljósadýrð í háloftunum þessa dagana. Hef ekki alveg náð að sinna því í öllum þessum erli. Hefði annars verið gaman að vera á Hlöðuvöllunum að fylgjast með þeim dansi!

Monday, September 19, 2016

Langt um liðið


Það er ár og dagur... nei annars bara rúmlega hálft ár síðan ég sett eitthvað síðast á þetta blogg. Gæti reyndar sótt eitthvað í Fésbókarsarpinn og bætt inn í til að hafa eitthvað á milli en það er þá bara seinni tíma tilbúiningur.

Seinasta færsla sem ég raunverulega setti inn var þegar bíllinn minn blái klessukeyrðist. Hann hefur núna breyst í sjálfrennireiðina svörtu, Fagra Blakk, sem er raunar sömu gerðar og sá blái og ágætur líka.

Annars er tvennt að frétta. Margrét minnsta sem er á myndinni að ofan átti afmæli á föstudaginn og ætlaði að halda upp á það í gær, sunnudag. Hún fékk hins vegar einvherja hitapest og afmæli frestað um tæpa viku. Reyndar fór ég með mömmunni minni í heimsókn til þeirra í staðinn. Í frásögur færandi því ég fer yfirleitt aldrei í heimsókn eitt eða neitt.

Þennan sama morgun frétti ég svo að Ingibjörg frænka mín sé dáin.

Monday, June 06, 2016

Fagri Blakkur: Nýr skrjóður

Jæja... ég ætla að kalla hann Fagra Blakk a.m.k. á meðan hann er svona fagur!
Eftir langa og erfiða leit fannst loksins nothæft ökutæki og merkilegt nokk - kostaði það sama og ég fékk fyrir þann bláa - eiginlega upp á krónu. Enda ákvað ég að færa viðskipti mín til TM sem gerði sem sagt alveg þokkalega við mig eftir tjónið á þeim bláa. Vörður reyndi áfram sitt til að blóðmjólka mig. Merkilegt að Vörður geti mælst vinsælasta tryggingarfélag landsins. Hjá mér er Vörður og VÍS í harðri samkeppni um að vera það tryggingarfélag sem mér er mest í nöp við.

Fært inn eftir á í september af Fésbók og manns eigin minni

Saturday, February 13, 2016

Kannski er maður bara hrakfallabálkur - en fer ekki að vera komið nóg!

accient
Veit ekki hvort ég á að vera að skrifa þetta - en betra að hafa þetta hér en að hafa þetta á Fésbókinni sem minnir safnar minningum yfir árið og endar þá á að upplýsa mann um að árið 2016 hafi verið hrakfaraár eins og þau tvö á undan. Er ekki komið nóg!

Röð tilviljanakenndra atvika og ákvarðana eru þess valdandi að núna hef ég ekki lengur bílinn minn - Norðlendinginn eins og ég kallaði hann stundum - nema sem eitthvað dót í poka fyrir utan útidyrnar.

Um hádegið hringt í Gunna - hvort það væri ekki upplagt að fara aðeins á skíði. Ég ekkert farinn að fara á svigskíði eftir fótbrotið fyrir rétt rúmu ári og því bara ætlunin að fara á gönguskíði upp á Mosfellsheiði. Þangað eru margir kílómetrar og því þurfti að taka eldsneyti.
Ég kominn til Gunna rétt upp úr kl. 2 eftir hádegið. Ekki með bensínkort og þurfti að sækja það. Kom svo niður Bústaðaveg en gleymdi að beygja inn á bensínstöðina þar sem ég er með mestan afslátt. Farin slaufa við Elliðaárbrýr og til baka. Kannski átti þetta að gerast - hvað veit ég!

Tankurinn fylltur hjá Atlantsolíu og svo ekið af stað. Bíð á rauðu ljósi á Bústaðavegi við Reykjanes braut. Lagði strax af stað enda beið skemmtileg skíðaferð eftir okkur. Loksins vorum við að komast af stað. Kominn einhverja metra út á götuna og þá öskrar gunni, við hendumst til inni í bílnum - það er árekstur í gangi - líklega lyftist bílinn að framan og svo er allt kyrrt. Gunni ekki að ná andanum fyrst en nær svo að anda sem betur fer. Ég finn strax að ég er ekki neitt slasaður þannig séð og Gunni ekki heldur. Fólkið í hinum bílnum ekki heldur slasað að neinu ráði.

Veit ekki hvað ég á að segja um þetta. Þó minn bíll (blái jeppinn) líti ekki út fyrir að vera mikið klesstur á myndinni þá var hinn bíllinn á 80 km hraða og náði líklega ekki að bremsa nokkurn skapaðan hlut. Konan sem ók þeim bíl sá ekki út af birtunni líklega - sólin á móti - að ljósið var orðið rautt - og ók bara beint á mig. Var líklega á miðju akreininni og slapp næstum því en dugði ekki til. Líknarbelgir blésust upp. Tvær konur og ein lítil stelpa í hinum bílnum. Þær dálítið marðar eftir bílbeltin en að mestu leyti í lagi samt líka.

Kristján kom og sótti okkur og var heila eilífð á leiðinni enda var umferðaröngþveiti út um allan bæ vegna þessa árekstrarins!

Gunni með bólgið hné og verk í bringubeini. Ég með verk í síðu og aðeins í vinstri öxl og fætinum sem brotnaði. Engin alvarleg meiðsli samt held ég. Litum við á Slysó en ákváðum að bíða með skoðun þar sem við vorum í sjálfu sér ekki þannig séð slasaðir. Var ráðlagt að fá áverkavottorð en niðurstaðan sú að það væri hægt að fá slíkt þess vegna bara á heilsugæslustöð eftir helgi.

Eftir situr að eitt af því fáa hjá mér sem ég var svona almennt mjög ánægður með var þessi bíll og núna er hann líklega farinn. Geri ekki ráð fyrir öðru en að viðgerðin á honum verði dýrari en bíllinn sjálfur. Hann er líklega allur boginn þó hann hafi ekki beyglast mikið þannig séð. Hurðin farþegamegin ekki að opnast eðlilega sem segir það að hann er talsvert grindarskakkur. Fæ eitthvað út úr tryggingum en efast um að ég finni aftur slíkan happafeng í bílakaupum sem þessi Nissan Terrano minn var.

En augnablikið í bílnum þegar þetta gekk yfir situr dálítið illa í sálinni manns.

Það skondnasta er hins vegar að við söfnuðum saman dótinu sem var í bílnum til að taka með heim. Ég setti eitthvað dót í plastpoka sem löggan lét mig hafa og svo var einher annar plastpoki þarna. Báðir fóru í bílinn hans Kristjáns - enda dráttarbill búinn að sækja báða klessubílana. Svo þegar skoðað var í hinn pokann þá kom í ljós að það var bara drasl sem brotnaði af bílnum mínum og kannski hinum við áreksturinn!

Verst var svo að þar sem ég var með linsur í augunum til að geta verið með eðlileg sólgleraugu - þá var ég með gleraugun mín í bílnum. Þau hentust eitthvað til við áreksturinn og urðu efir í bílnum. Ætla rétt að vona að þau skili sér enda kosta þau líklega eitthvað uppundir 200 þúsund!

Frétt af mbl.is um áreksturinn

Wednesday, January 06, 2016

Jólin að klárast og einkunnir komnar í hús!

Jæja, þá eru jólin að klárast og einkunnir komnar í hús. Ég líka búinn að standa vaktina sem sölustjóri í flugeldasölu HSSR vi Grjótháls þar sem Össur er og bensínstöð Skeljungs sem hét einu sinni Select við Vesturlandsveg.

Eftir barlómsfrærsluna sem var skrifuð í desember þegar ég var að krebera á því að skrifa grein um öskufall sem próf þá er niðurstaðan sú að sem betur fer náði ég báðum prófunum. Einkunnir hins vegar mjög afstæðar. Í báðm fögum fékk ég í hærra lagi miðað við hvað ég átti von á - ég hefði a.m.k. ekki gefið mér hærra en ég fékk. Svipuð tala í báðum fögum en merkilegt nokk að í öðru var ég hæstur en í hinu var ég lægstur. Fyrir fram hefði ég alveg getað giskað á þessa niðurstöðu - þ.e. áður en ég fór að leysa prófin - en þá hefði ég giskað á að ég hefði orðið lægstur í því sem ég varð hæstur í en með þeim hæstu þar sem ég varð lægstur. Svona getur þetta snúist í höndunum á manni.

En niðurstaðan samt í samræmi við það að í öðru prófinu þá drapst ég næstum úr óvæntu áhugaleysi en í hinu þá fór ég langt fram úr mínum björtustu vonum.