Sunday, April 05, 2015

Fóturinn


Í einum af göngutúrum liðinnar viku

Fóturinn er eitthvað í áttina en ég veit aldrei alveg hvað ég má vera að reyna á hann. Fór í Sjúkraþjálfun á miðvikudag til Unnar og sýndi henni myndirnar sem voru teknar þegar ég var tekinn úr gifsinu. Henni leist ekkert allt of vel á þetta fannst mér á henni. Sagði að þetta væri yfirleitt meira gróið 8 vikum eftir brot. Einhvern veginn fannst mér þetta vera allt í voða aftur eftir að hafa horft á myndirnar með sprungunum sem virtust í raun vera galopnar ennþá.


Röntgen mynd tekin 18. mars þegar fótur fór úr gifsi. 7 1/2 viku eftir slysið.

Fór svo seinna um daginn þann að lesa eitthvað blogg um gaur sem braut upphandlegginn báðum meginn. Hann ætlaði aldrei að gróa neitt og var alltaf að brjóta beinið upp aftur og aftur og jafnvel án þess að átta sig á því að hann væri að brjóta það upp. Las líka um einhverja stelpu sem fótbrotnaði og einhverjum mánuðum seinna var brotið alls ekki gróið. Þar var spekúlasjónin sú að ef brotið væri stórt þá tæki lengri tíma fyrir líkamann að láta það gróa. Svona eins og það væri einhver hámarks heildar afköst sem væri hægt að láta bein gróa og ef brotið væri dálítið djúsí þá tæki lengri tíma að láta það gróa. Mitt bein er augljóslega nógu brotið.

Ég var í raun farinn að setja talsverðan þunga á fótinn en fékk sem sagt einhverja bakþanka með það. Ef gaurinn á blogginu var að brjóta upp það sem var að gróa í handleggnum án þess að fatta það, þá er spurning hvað ég er að gera með hálf-ógróin bein í fætinum og setja á hann kannski 80kg þunga. Dílemman er svo sú að ég þarf að setja álag á beinið til að það fari að gróa meira en álagið má ekki vera það mikið að ég brjóti jafn harðan upp það sem er búið að gróa.

það var annars ágætt að fara í sjúkraþjálfun til Unnar og ætli ég reyni ekki að halda því áfram einu sinni í viku með því að vera tvisvar í viku hjá Árna.


Fóturinn að koma úr sturtu síðustu helgina í mars. Skurðsárið farið að líta ágætlega út.
Vinstri fóturinn er ekkert lengri en hann er líklega aðeins framar. Hann er hins vegar greinilega vel digur miðað við þann hægri.

Þar sem skurðsárið er búið að loka sér mjög vel þá fékk ég grænt ljóst á sundferð hjá Árna. Fór föstudag langa í sund með Gunnanum. Þar leiddi haltur blindan því hann hann kunni ekkert á að fara í sund - þar sem það er orðið frekar hátæknilegt. Það bjargaðist þó allt. Mér gekk ágætlega í sundinu en vissi ekki alveg hvað ég ætti að vera að gera í sundinu. Þorði ekki að synda að neinu marki þar sem ég óttaðist að sparka i eitthvað fast og tjóna fótinn. Gekk því bara 100metra í lauginni og fór svo í heitapottinn.

Er svo líka búinn að vera af og til í heit-köldu fótabaði til að örva fótinn og minnka bólgur. Ráðlegging frá Unni. Hann er annars þannig fóturinn þegar líður á daginn að hann er jafnbreiður upp að hné. Eðlilegur fótur breikkar við táberg, mjókkar við ökkla og er svo breiðastur á kálfvöðva. Minn fótur er svo bólginn um ökkla og kálfvöðvar svo rýrir að það má segja að hann sé jafn frá tábergi og upp að hné.

Af öðrum málum

Annars hefur tvennt borið til tíðinda þessa páskana.

Ég fór að rifja upp hvað ég er að gera í þessu mastersverkefni mínu. Þarf að fara að taka þann þráð upp aftur ef ég er ekki bara hættur því rugli. Unarlegt að vera að læra eitthvað í framhaldsnámi í háskóla sem maður sér ekki beinlínis fram á að vinna nokkurn tímann nokkurn við. Hafa hvorki efni á því að vinna þannig vinnu tekjulega séð og eiginlega á ég ekki von á að mér bjóðist neitt af slíkum störfum. Er dálítið að átta mig á að ég bara klára þetta MS nám og svo er því kannski bara lokið og ég dálítið á sama stað og ég var áður.

Uppfærði þá örlítið háskólabloggið mitt þannig að eitthvað kemur þar fram um verkefnið.
Hitt bar til tíðinda að e.t.v. bjargaði ég lífi hundskammarinnar á neðri hæðinni á föstudag langa. Það var gelt heilan djöfulmóð á þeim helgasta degi og ég bölvaði og ragnaði af því tilefni. Stappaði niður óbrotna fætinum og barði hækjunni í gólfið frekar illilegur. Svo heyrði ég að Guttaskömmin var komin út í garð að gelta. Skildi ekki alveg hvernig á því stóð þar sem ég var viss um að enginn væri heima á neðri hæðinni fyrir utan Guttann. Þegar ég var búinn að öskra út um stofugluggann eins og hver annar brjálæðingur til að fá hundfjandann til að hætta að gelta, þá sá ég að hann skalf úr kulda. Hann komst sem sagt ekki inn, hiti nálægt frostmarki og rigning. Ég sá aumur á honum og vildi nú ekki að hann færi að drepast þarna á föstudeginum langa. Fór niður og hleypti hinum inn til Ólafar. Svo kom hún reyndar heim skömmu seinna þannig að líklega hefði hann lifað þetta af. En Deginum ljósara að sumt fólk á ekki að eiga hund!

No comments: