Monday, August 31, 2009

Af kamarraunum

Raunir tveggja bræðra af kamarsmíði í Fellsmörk

Vatnavextir í Fellsmörk

Vegarslóði Fellsmerkur undir vatni



Það á ekki af manni dauðum að ganga. Við bræður ákváðum Fellsmerkurferð um helgina eins og stundum áður. Eitthvað höfðum við heyrt um vatnavexti þar sem foreldrar okkar höfðu ætlað til Fellsmerkur helgina áður en þurft frá að hverfa sakir vatnavaxta þar sem Hafursáin var búin að flæmast um þar sem heita átti vegur. En nú vorum við bræður mættir á stóra Tarfinum og til alls líklegir. Meira að segja voru foreldrarnir aftur mættir og treystu á tarfinn eins og við.

Tilgangurinn var að koma gólfi í kamarskömmina og klára helst sperruverk og annað burðarvirki kamarsins og jafnvel klambra einhverju saman sem mætti sitja á í kamrinum þegar sú iðja er stunduð sem kamrar eru sérhannaðir fyrir. En það varð ekki af því.

Eftir að hafa öslað áreyrar og sokkna vegarslóða komumst við loksins á músarstaði og þar blasti við undarleg sjón. Kamarholan hafði breyst í sundlaug sem virtist helst notuð af músum í sjálfsmorðshugleiðingum!

Thursday, August 27, 2009

Baldvin í Beco er snillingur

Það var farið með linsu í viðgerð í dag

Þegar ljósnyndnarinn dró upp 80-200mm F2.8 hlunkinn (fótboltalinsuna sko) sinn og ætlaði að fara að mynda einhverja ísjakana þá bara hringlaði í honum. Á einhvern undarlegan hátt höfðu skrúfur sem hafa það göfuga hlutverk að halda framenda linsunnar saman ákveðið að hefja nýtt líf utan linsuhlunksins. Reyndar tókst nú alveg að taka einherjar myndir með linsunni í Grænalandinu en það var varla hættandi á að hafa linsuna skröltandi svona til langframa.

Eftir að hafa hringt í Beco var niðurstaðan að koma með hlunkinn til að sjá hvað væri hægt að gera en Nikin dót senda þeir venjulega til útlandsins, sem mér leist ekki of mikið á. Síðast þegar svona dót frá mér fór í viðgerð til útlanda þá endaði það með meiriháttar Evrópureisu myndavélarinnar.

En Baldvin bara tók linsuna mína og sneið í hana skrúfur sem pössuðu á meðan ég verslaði mér einn filter hjá honum. Það skipti ekki miklu máli þó filterinn kostaði marga þúsundkarla því viðgerðin hans endaði á að verða ókeypis.

Fyrir utan að vera fótboltalinsa þá hefur t.d. verið hægt að taka með henni afríkanskar sólarlagsmyndir á borð við þessa hér:

Sunset in Kenya - Masai Mara


Eins gott að hún er komin í lag!

Monday, August 24, 2009

Háaloftið!

Vá! Bloggfærsla tvo daga í röð!!!


Uppi á háalofti er stundum allt í drasli

Draslið á háaloftinu er samt við sig... reyndar ársgömul mynd en ástandið er svipað!



Loksins kom ég mér upp á háaloft til að gera einhvern skurk í öllu þessu drassli sem er þarna. Reyndar auðvitað ekki neitt drasl heldur mjög mikilvægir hlutir eins og jakkinn sem ég var í þegar ég útskrifaðist úr háskóla og mamma mín saumaði af mikilli snilld, gráu frekar ljótu jakkafötin sem ég keypti mér þegar mér skildist af kærustunni að ekkert annað gengi þegar farið væri á árshátíð og svo er þarna einhvers staðar fermingarjakkinn minn held ég.

Svo rakst ég á eina tösku fulla af gömlum skóm og síðan plastpoka (svona stóran svartan) með því sama... hmmm... kannski ætti maður að henda einhverju eða koma til rauðakrossins.

Svo er þarna eitthvað dót sem maður á alls ekki einu sinni sjálfur. Það er spurning hvort landverðir séu ekki komnir til byggða. Jám, ætli það séu ekki að verða komin þrjú ár síðan ég setti svipaða setningu í blogg hjá mér... nei þau eru víst orðin fjögur!

Sunday, August 23, 2009

Jæja... blogg sumarsins

Þetta árið verður maður nú varla talinn afkastamikill bloggari. En nú skal sagt frá einhverju sem gerðist þetta sumar sem er eiginlega formleg að ljúka um þessa helgi. Reykjavíkurmaraþonið og menningarnóttin að baki og vinnan tekur við á morgun. Þetta verða óvenjuskörp skil hjá manni!

Fellsmörk aftur og aftur


Þröstur sitjandi á grein
Það var farið aftur og aftur nokkrum sinnum með Gunnanum í Fellsmörkina. Bæði í gróðursetningu, fuglamyndatöku og slíkt en svo var hafin smíði á kamarhúskofa sem er bara nokkuð langt komin.
Burðargrind Kúkúsins að taka á sig mynd

Fjallabaksferð ein mikil


Það var farið um Fjallabak þvert og endilangt. Bæði það Syðra og hið Nyrðra. Á því Nyrðra var til dæmis arkað á Bláhnúk
Landmannalaugar - Bláhnúkur

En á því Syðra var til dæmis farið í Rauðabotn.
Í Rauðabotni


Stefnumót við fossa Djúpár og Brunnár


Farin var ein sérdeilis flott gönguferð með fyrrverandi IMG-urum upp með Brunná og niður með Djúpá þar sem fossar þessara áa voru sérstaklega skoðaðir. Þar var vatnsmestur og líklega flottastur fossinn sá sem stundum hefur verið kallaður Bassi en heitir annars bara ekki neitt skv. Páli vini vorum.
Fossinn Bassi í Djúpá í Panorama

Já, hægt er að smella á myndina til að fá hana sérdeilis stóra!



Það bar annars til tíðinda í þessari ferð að um morguninn á öðrum degi ferðarinnar var þvílík bongóblíða að fæstir höfðust við í tjöldum og voru komnir út undir bert loft í svefnpokunum.


Þegar leið á daginn fór veðrið að breytast eitthvað og fyrst gránaði í fjöll og svo varð bara allt hvítt. Ekki slæmt svona um hásumarið. Verra veður var væntanlega á norðurhálendinu samt!
það getur snjóað á fjöllum!

En breytingin á veðri á bara örfáum klukkutímum með algjörum ólíkindum.

Könnunarleiðangur Sveðju


Sveðjan þar sem hún rennur í lónið

Gæsavatnaleið


Eftir að hafa farið hinn stutta túr inn í Þórsmörk þar sem öslað var yfir Krossá og fleiri sprænur í ágætum vexti var haldið á miðhálendið. Stefnan hafði verið sett á Fjallkirkju Langjökuls og búið að hafa samband við Villa jöklaskálagælyklagæslumann en þar sem rigning átti að vera á Kili var farið um næsta jöklaskarð, þ.e. Sprengisandinn. Fyrst var áð í Nýjadal og svo farin Gæsavatnaleið í Öskju. Baðið var tekið í Víti og góður göngutúr um fjallabrúnir að Öskjuopi á bakaleiðinni.

Í Herðubreiðarlindum var hitt á Guðjón Jónsson fyrrverandi rafveitumann og Ráðgerðing sem var þar kominn á húsbílnum sínum.

Svo átti að arka á Herðubreið en þá barst símtal. Ég spurður hvort mig langaði ekki til Grænlands. Það varð og úr!
Reyndar var reynt við Herðubreiðina en þar var komin rigning og þegar droparnir voru orðnir stórir og hvorki sást upp né niður var eiginlega ekkert vitrænt í stöðunni annað en að fara niður. Ferðin stytt um einn dag og fengið fararleyfi til Grænlands!

Grænland


Í Einarsfirði á Grænlandi - Igalikup


......




....