Friday, April 04, 2025

Tollaklikkun Trumps...



Ég skil ekki alveg hvernig þetta á að virka en ég sé ekki annað en Trump sé að klippa Bandaríkin út úr viðskiptum við önnur ríki. Fyrr í vetur var ég aðeins að endurnýja myndavélabúnað og það var hagkvæmast fyrir mig að kaupa beint frá USA úr stórum myndavélabúðum í New York sem er mjög þægilegt að kaupa af í gegnum netið. Þegar ég lagði inn pöntunina þá hafði ég mestar áhyggjur af því að Ísland myndi fara að setja mótvægistolla á það sem er keypt inn frá USA og það hefði þá hækkað það sem var að kaupa um 10-20%. Það varð ekkert af því þá þó það gæti gerst. Það sem ég hins vegar sé er að myndavéladótið sem ég keypti og hef keypt beint frá USA í gegnum árin er allt framleitt í Tælandi, Taiwan og Japan. Þar eru núna komnir eitthvað um 35% tollar á innfluttar vörur til USA.

Ég get ekki séð annað en að verði til þess að vöruverðið í USA hækki um eitthvað þannig hlutfall því ekki geri ég ráð fyrir að framleiðendur í Asíu geti bara lækkað sitt verð um þriðjung. Svo gæti bæst við tollur sem Ísland myndi setja á innflutning frá USA.

Svona nokkurn veginn virkar þetta þannig á mig að það kaupir enginn neitt frá USA ótilneyddur nema það sem þeir þá framleiða sjálfir sem er yfirleitt ekki nein sérstök eftirspurn eftir. Áhugi á því að flytja einhverjar vörur til USA hlýtur einnig að minnka mikið. Þeir eru því að klippa sjálfa sig út úr milliríkjaviðskiptum. Kannski er ég eitthvað að misskilja hvernig þetta kemur til með að virka en það sem ég sé í þessu er alveg út í hött og reyndar lang verst fyrir fólkið sem býr í Bandaríkjunum. Fólk í öðrum löndum getur bara fært sín viðskipti eitthvað annað.

Það sem ég reyndar helst vona er að þetta sé í heildina bara eitthvað rugl sem verði aldrei að neinum veruleika. Það sem segir mér m.a. að það sé þannig eru t.d. þessir tveir dálkar sem eru þarna á þessari mynd. Þar kemur fram að EU sé með 39% toll á innflutning frá USA. Ég einhvern veginn geri ráð fyrir að það sé rugl því Ísland ætti að vera með eitthvað svipað og EU en ég veit miðað við það sem ég kaupi sjálfur af USA að þar er enginn tollur settur á almennan innflutning. Trump er hugsanlega að rugla saman sköttum og tollum en skattarnir koma því ekkert við hvort varan sé innflutt eða ekki, skatturinn greiðist af öllum vörum.

No comments: