Wednesday, December 25, 2024

Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Já, ég las víst bók!

Fannst áhugavert viðtal við Guðrúnu Evu í Kiljunni hjá Agli einhvern tímann fyrir jól og ég ákvað að kaupa mér bara jólabókina til að lesa fyrir jól. Heilmikil lesning fyrir þann sem les orðið sjaldan annað en eitthvað ADHD rugl á Instagram en bókin kláraðist uppúr hádegi á sjálfan jóladag.

Skáldæfisaga held ég hafi verið orðið sem var notað um bókina og það sem maður veit aldrei er hvað er skáldað og hvað ekki. Hvað er bara alveg satt, hvað er svona eitthvað skreytt og hvað er helber uppspuni. Skiptir kannski ekki máli en jú – skiptir máli ef manni finnst raunveruleikinn forvitnilegur og fólk sem hírist í raunveruleikanum þá sérstaklega.

Persónurnar eru margar í bókinni en þær einu sem ég veit fyrir víst að séu til er hún sjálf og Hrafn Jökulsson fyrri maðurinn hennar. Seinni maðurinn sem hét Helgi í bókinni er væntanlega til líka en heitir eitthvað allt annað. Hvort Aupair stelpurnar hjá þeim og barnið í fóstrinu séu raunverulega til veit ég ekki og mun líklega aldrei vita. Hef svona hérumbil grun um að þar hafi hvað mestu verið skáldað.

Og miðillinn ótrúlegi… já ótrúlegur… ég hef ekki nógu mikla trú á að þannig fólk sé yfir höfuð til. En kannski í þeim heimi sem ég er ekki með í, í þessu jarðlífi… kannski… ekki veit ég.

En svona ef þetta á að vera bókadómur þá fannst mér þetta eðalgóð bók ef ég hef eitthvað vit á slíku ennþá. Skemmtilegt hvernig bókin vafðist um einn atburð í núinu og allt annað rifjað upp einhvern veginn á óskiljanelgan hátt í kringum þann atburð. Sá atburður var sýruferðalag sem Guðrún Eva var reyndar meira bara áhorfandi að en hún hefur a.m.k. alltaf þá afsökun eða útskýringu á af hverju eitthvað var skrifað eins og það var skrifað að það hefði bara verið einhver ofskynjun.

Kannski það sem ég man að mér fannst óskiljanlegt … sem sýnir kannski muninn á mér jarðbundnum og henni ekki… að hún hafði aldrei gert sér grein fyrir að rosabaugur myndaðist um sólina og það gæti fylgt með eða á undan runnið úlfur og gíll. Hún tengdi það beint við ofskynjanir en eyddi svo einhverjum setningum í að skýra út þetta stórmerkilega náttúrufyrirbæri.

Svo hef ég ekki lesið mikið eftir hana Guðrúnu Evu en verð eiginlega að lesa hina skáldæfisöguna sem hún gaf út fyrir nokkrum árum, Skegg Raspútíns. Áður hafði ég bara lesið eina bók eftir hana, Yosoy, sem var eiginlega of undarleg fyrir mig.

No comments: