Sunday, November 27, 2022

Foss í Lambárgili á Fellsmörk

Það var svona dagur í dag... leitað að fossum sem almennt enginn hefur séð nema fuglinn fljúgandi... af þeim útsýmisstöðum sem ég fann... sést sá flottasti fannst mér best þarna...

Það var sem sagt farið í Fellsmörk. Svona eftirá (skrifað 4. febrúar 2023) þá var það sem ég ætlaði aðallega að gera að finna foss sem ég sá úða frá þegar ég var að þvælast þar síðasta haust. Foss sem ég er ekki alveg viss um að ég hafi séð áður - og raunar hef ég grun um að það hafi afar fáir séð þennan foss því það er mjög erfitt að komast að honum almennilega - ef ekki bara nær ómögulegt. ......

"Útsýnisstaðurinn" að fossinum... ofarlega í þessu gljúfri má sjá örlítið í eitthvað hvítt friss... og það er fossinn. Áin heitir Lambá. Þetta sjónarhorn sem ég kreisti þarna fram var svona með þeim háskalegri sem ég hef lagt mig í... það mátti ekkert mikið út af bregða þar sem ég sat þarna þannig að ég fengi ekki að kynnast ánni frekar harkalega,



Séð yfir gljúfrið þar sem fossinn er. Þar sem ég sat þarna á gilbrúninni hafði ég enga möguleika á að sjá í fossinn. Heyrði aðeins í honum en sá ekki neitt. Sá reyndar varla ofan í gilið þarna án þess að hrapa fram af.
Það má samt líklega sjá kindagötur þarna hægra megin við ána og þar hefur eflaust einhver farið einhvern tímann.



Hvernig er að komast að fossinum sést á þessari mynd. En ég held að eina leiðin til að sjá fossinn almennilega án þess að vera fljúgandi sé að fara að honum upp gljúfrið en þá þarf að komast upp neðri fossinn sem sést á þessari mynd. Það er eitthvað brölt að komast að honum, þ.e. þeim neðri en það er væntanlega vel gerlegt. Hugsanlga hef ég komið þangað einhvern tímann fyrir löngu síðan. En til að komast áfram þarf að klifra klettinn við fossinn eða eiginlega bara í honum.
Hugsanlega er þó einhver möguleiki að komast að honum í brekkurnar líklega frekar hægra megin á myndinni.

Facebook færsla 27.11.2022

Saturday, October 22, 2022

Gígur í Hafnarfjalli


Drónamynd af "gígnum". Skarðsheiðin í bakgrunni og til að skynja stærð fyrirbærisins þá ætti að vera hægt að sjá fólk innan barmanna neðarlega til vinstri á myndinni - er svo smátt að það þarf að smella á myndina til að fá það fram.

Fór í áhugaverða göngu í dag með Þrautseigum Léttfeta FÍ, að sérkennilegri gígmyndun í Hrossatungum austan Hafnardals í Hafnarfjalli. Var með dróna með og veit um einhverja sem vilja sjá myndirnar.

Jarðfræðifyrirbrigði sjást oft ekki almennilega nema úr lofti eða jafnvel utan úr geimnum. Þegar við vorum inni í gígskálinni þá var þetta bara einhvers konar dalkvos og ekkert endilega neitt svo sérstök. En með því að lyfta sér aðeins upp þá kemur þessi sérkennilegi gígur - sem þó er eiginlega alls ekki gígur - betur í ljós.

Það sem e.t.v. er merkilegast við þessa jarðfræðilegu myndun er kannski hvað það hafa verið lagðar fram ótrúlega fjarstæðukenndar tillögur um þessa myndun. Það sem var ótrúlegast sem ég hef séð er að þetta sé myndað á jökulskeiði fyrir um 100 þúsund árum og þar var þessu lýst fannst mér, eins og myndun á móbergsstapa því eldgosið hafi náð uppúr jöklinu. Eitthvað þykist ég vita um móbergsstapa en sá ekki neitt af því sem ég á að geta séð í móbergsstapa. Nálægt dæmi reyndar um mjög jökulsorfinn móbergssapa eru Botnssúlurnar og það er ekki mikið líkt með Botnssúlum finnst mér og þessum hrygg þarna í Hrossatungum með þessari sérkennilegu hringmyndun.

Um aldur Hafnarfjallsmegineldstöðvarinnar er það að segja að svæðið hafi verið virkt fyrir 4-6 milljón árum síðan og að megineldstöðin hafi verið að byggjast upp seinni hluta þess tímabils. Þessi hringmyndun er beint yfir miðju Hrossatungu-innskotsins sem er gabbró og þetta hefur þá í doktorsritgerð Hjalta Franzsonar verið talið vera einhvers konar keilugangainnskot þaðan - eða innskot sem varð einvhern veginn svona sívalningslagað. Gabbró innskotið kennt við Hrossatungur er þar talið með því síðasta sem gerðist í eldvirkni Hafnarfjallseldstöðvarinnar og er tengt við öfugt segulmagnað berg frá segulskeiði Nunivak 4.33-4.09 milljón ára gamalt. Hringinnskotið er hins vegar dólerít, þ.e. basísk kvika sem hefur storknað talsvert hraða en það er er í Gabbró innskotinu en allt saman sambærileg efnasamsetning og venjulegt basalt. Hvort að þetta innskot hafi náð til yfirborðs svæðisins fyrir rúmum 4 milljón árum síðan held ég að sé ómögulegt um að segja en þar sem líklega fæst innskot verða að eldgosi – þá finnst mér það ólíklegra en hitt. Varðandi það að þetta sé myndað í móbergi þá reyndar skoðaði ég ekki bergið þarna í kring þannig að ég get ekki sagt mikið um það en ég tel það ekkert allt of líklegt að það sé móberg. Ef innskotið er meira en 4 milljón ára gamalt þá er bergið sem það gekk i gegnum ennþá eldra en það eru almennt ekki til mikil gögn um jöklunarskeið á Íslandi. Það elsta sem ég hef séð er um 4 milljón ára gamal. Móberg getur hins vegar auðvitað vel myndast í vatni almennt og þarna á svæðinu hefur verið staðsett stærðarininar öskjuvatn í Hrossatungum og þar norður af. Á þeim jarðfræðikortum sem ég hef séð þá er samt ekki merkt móberg þarna neins staðar sérstaklega en það kann líka að stafa af því að þar var verið að greina meira storkubergið sjálft en móbergið. Það að þarna á óvirku svæði um 4 milljón ár, hefði verið eldgos við upphaf síðasta jökulskeiðs væru stórtíðindi í jarðfræði Íslands!

Kenningin um að þetta sé gígur eftir loftstein stenst síðan ekki á neinn hátt þar sem þá ættu að vera þarna steindir sem myndast við háan þrýsting en eru ekki. Eins þá eru veggir innskotsins lárétt stuðlaðir sem bendir eindregið til þess að þetta hafi storknað eins og það er og væntanlega ofan í jörðinni.

Varðandi gosgíginn aftur að þá eru gosgígarnir yfirleitt byggðir upp af gjalli sem getur svo harðnað saman en myndi held ég aldrei fá útlit eins og þessi gígmyndun í Hrossatungum er. Um hvort það megi telja þetta gíg, þá út frá því að orðið gígur sé ekki endilega tengt eldgosi heldur frekar útliti fyrirbærisins á stærri skala – sem er þá einhvers konar hola eða dæld og með einhverjum börmum helst – þá er þetta hikstalaust gígur. Og það sem ég er að skrifa hér er að mestu byggt á rannsóknum Hjalta Franzsonar sem skrifaði doktorsritgerð um þessar eldstöðvar fyrir næstum hálfri öld og rannsóknum sem hafa verið gerðar í framhaldi af því og þá MS rigerð Moneer Fathel Alnethary frá 2018.


Skýringamynd Hjalta Franzsonar, sem er líklegast upphaflega í doktorsitgerð hans um svæðið. Láréttir stuðlnarnir (columnar jointing [horizontal] ).
Ég fann á vef upplýsingar sem eiga að vera frá Hjalta:
Þetta er afar sérstæður gígtappi, um 240 x 140 m. Ytra byrðið er fallega lárétt stuðlað dólerítlegt innskot. Þykkt þessa ellipsulagaða lags er 10-20 m. Það sem er undarlegt er að innri skilin eru fínkorna sem bendir til að þar séu skilin á tappanum. Hvað er fyrir innan í miðhlutanum er ekki ljóst þar sem ekki sést í berg. Þessi sérkennilega myndun er í "móbergfyllingu" öskjunnar í Hafnarfjalli og hefur líklegast rofist þar niður um 200-300 m frá yfirborði öskjunnar.

Svæðið gjarnan kallað Hrossatungur og gígurinn oft kenndur við þær. Fjallshryggurinn þar sem Svartitindur er hæstur heitir svo einnig Rauðuhnúkafjöll. Gígurinn sjálfur hefur hins vegar mér vitanlega ekki neitt nafn fyrir utan að vera þá gígurinn í Hrossatungum.


Hér að neðan er kort sem sýnir gönguleiðina sem var farin en þetta var ferð með FÍ: Lettfeta.

Færsla af Facebook

Wednesday, October 19, 2022

Króatían

Svo einhverju sé haldið til haga þá var þetta fyrsta ferð mín til útlanda án þess að vera bara í vinnunni í dálítið mörg ár. Síðast líklega árshátíðarferð 2017 ætli það hafi ekki verið og svo aftur árshátíðarferð 2022 en núna tókst mér að vera með í lengingunni á ferðinni. Það var farið í tvær ljómandi fjallgöngur. Hæsta fjallið Dinara fyrst og svo tveimur dögum seinna líklega Biokava fjallið sem er aðeins lægra en samt meira krefjandi og þannig séð meira æfintýri. Hvorugt samt neitt klifur eða þannig heldur bara göngutúrar.

Svo var það árshátíð og Dubrovnik og auðvitað breyttist þetta í vinnuferð á síðasta degi þegar ég fór til Danmerkur á heimleiðinni á fund - sem reyndar var áhugaverður á Dragør.

Sett inn 5-FEB-2023

Saturday, September 24, 2022

Hagafellsjökull austari mældur

Fyrir viku var það Hagafellsjökull vestari en núna var það Hagafellsjökull austari. Tækifærið gripið föstudagseftirmiðdag því veðurspáin slæm fyrir helgina og ekki víst að það verði hægt að komast aðrar helgar fyrr en í nóvember. Ekki var lagt í að plata neinn með að þessu sinni, því e.t.v. líklegasta fólkið til að komast með engum fyrirvara var erlendis.

Landslagið sem kemur undan jöklinum sem opin bók og nýjar blaðsíður að bætast við þó hop á eystri jöklinum hafi verið minna en oftast. Þessi jökull hefur þó hopað mjög hratt síðustu árin og frá því við hófum að mæla hann fyrir 15 árum er hann búinn að hopa vel yfir 2 km. Á eftir að fara betur yfir mælinguna en hann er núna að hopa innan við 50 metra á ári.

Loftmynd sem sýnir líklegast malarás, esker á miðri mynd sem er myndað við rennandi vatn undir jökli. Hægra megin eru svo jökulkembur, flutes. Sveigjan á þeim sýnir skriðstefnu jökulsins og hvernig hann hefur dreift úr sér niður við vatnið. Jökullinn var að hopa frá þessi svæði á árunum 2010 til 2015.
Borgir eða Jökulborgir í Hagafellsjökli austari. Þarna undir er líklegast móbergshryggur sem ég geri ekki ráð fyrir að hafi sést í um nokkrar aldir. Miðað við hvað er kominn mikill sandur upp í neðsta kollinum, munu varla líða mörg ár þangað til jökulsker fer að stinga upp kollinum þarna. Þetta er um 2km frá núverandi jökuljaðri

Facebookfærsla

Monday, September 19, 2022

Hagafellsjökull vestari

Við röltum tveir saman, ég og minn bróðir, Gunnar Sigurðsson að Hagafellsjökli vestari núna um helgina og mældum hvort hann hefði nú haldið áfram að hopa. Komin tvö ár frá síðustu ferð og fyrstu niðurstöður segja að hann hafi hopað um 127 metra á þessum tveimur árum. Það er talsvert!

Á leið að jöklinum. Gangan er alltaf að lengjast þar sem jökulsporðurinn er að fjarlægjast ár frá ári! Gengið er frá Línuveginum.

Hér sést hvar jökuljaðarinn var mældur þetta árið, þ.e. 2022. Ekkert var mælt þarna árið 2021 en árið 2020 var einungis neðsta totan í lóninu komin undan jöklinum. Skv. fyrstu mæliniðurstöðum þá er hop jökulsins á mælilínunni 127 metrar yfir þessi tvö ár sem er þónokkuð sértaklega ef tekið er mið af því að sumarið 2022 var ekkert sérstaklega heitt og talsvert snjóaði yfir veturinn.

Hér sést áin sem er yfirleitt alltaf talað um með ákveðnum greini þ.e. Læmið. Líklega ekkert margir sem vita af því að þessi á sé til en hún kemur úr Vestari Hagafellsjökli og rennur í Hagavatn. Heldur svo áfram sem ein af upptakakvíslum Farsins, sem er þá önnur á sem er oftast höfð með ákveðnum greini einnig.

Jökulkembur í botnurðinni sem hopandi Hagafellsjökull vestar hefur skilað til baka. Þetta er þunn botnurð ofan á hrauni sem hefur að mestu verið undir jökli síðustu árhundruðin. Hefur komið undan jöklinum frá síðasta framhlaupi hans frá árinu 1980. Landformin sem myndast í botnurðinni og þarna sjást kallast jökulkembur eða glacial flutes. Slíkt "röndótt landslag" er nokkuð einkennandi fyrir það sem oft á tíðum kemur undan hopandi jöklum.

GPS kort sem sýnir hop jökulsins síðustu ár. Samanlagt hop síðustu tveggja ára er 127 metrar skv. því sem GPS tækið sagði á staðnum. Það er í góðu meðallagi fyrir þennan jökul. Frá því við fórum fyrst að honum til mælinga árið 2009 hefur hann hopað alls um 850 metra.

Facebookfærsla

Thursday, July 14, 2022

Komist upp að honum Steini og meira að segja hjólað smá líka!

Við hann Stein - reyndar kominn í ullarbol en ekki lengur bara á stuttermabolnum

Batavegurinn reyndist vera í Esjuhlíðum - kom kannski ekki á óvart svo mikið. Dagurinn hefði átt að vera óhappa þar sem það var 13. júlí en veðrið var gott og ég lét vaða fyrir hádegi upp að Esjusteini. Í kvartstutthlaupabrók og stuttermabol náði ég þangað upp og meira að segja innan þess eins klukkutíma marks sem er oft talið skilja á milli feigs og ófeigs. Þetta var nú samt næstum því 20 mínútum lakari tími en ég var á þarna í vor. En ég má víst bara teljast góður að Covid fór ekki verr með mig en þetta.

Svo var deginum breytt í frídag og afslappelsi eitthvað. Þar sem veðrið var eðal og ég ekki alveg búinn á því þannig séð þá var hjólað eitthvað. fyrir valinu varð hringur umhverfis Helgafell þeirra Hafnfirðinganna og gekk það barsta ágætlega.

......

....

Saturday, July 09, 2022

Eftir Covid - eða ekki alveg eftir Covid

Búin að vera skelfilega leiðinleg veikindi. Endalaust kvef núna og ekki góð líðan á nokkurn hátt. Er eitthvað frekar slappur á sálinni út af þessu og kannski öðru líka.

Ákvað í gær að láta reyna á hvort ég gæti eittvað og gengið áleiðis á Esju. Rétt fyrir ofan lækinn á eystri leiðinni sneri ég við. Hellan á hægr eyranu á leið inn í hausinn og sá ég fram á að ef ég héldi áfram myndi mér líklegast slá niður. Virðist svo sem ekki hafa látið stórkostlega á sjá eftir þennan göngutúr en óttalegur aumingi er ég þessa dagana.

En ég á þó allavegana flotta lopapeysu :-)

Svo má færa til bókar að ég er kominn með nýjan síma sem virðist ekki virka sérstaklega vel með Drónunum mínum. Fæ bara svartan skjá fyrir Mavic Mini og frosinn svarthvítan skjá með Mavic 2.

Saturday, July 02, 2022

Þá náði Covid mér!

Ég var í alvörunni farinn að halda að ég myndi sleppa við þessa Covid skepnu - en það er líklega ekki í boði nema með endalausri einangrun. Ég hef svo sem ekkert verið að einangra mig neitt sérstaklega en er svo sem heldur ekkert útum allt innan um allt og alla... introvert extrovert sem ég er. En eftir að hafa farið í minn fyrsta gædatúr með hóp útlendinga þá endaði það með smiti í hópnum - hvaðan sem það nú kom og hvert sem það nú fer.

Kom heim seint á föstudagskvöld og var svo í minni venjulegu vinnu á mánudeginum. Hjólandi í vinnuna og eða en alveg rosalega þreyttur eittvað e hjólaði samt langa leið heim. Þá var ég orðinn eitthvað skrýtinn. Kominn með beinverki í hnén og ekkert í of góðu standi. Lagði mig og varð mér svo út um Covid próf, sem var ekkert auðvelt því þau virðast núorðið bara vera til í apótekum. En mitt test arna fyrst, var bara eins og venjulega neikvætt!

Slappur veikur heima allan þriðjudag og reyndar verst að þetta var eiginlega alveg eins og upphafið að hræðlegu veikindunum eiginlega nákvæmlega fyrir ári síðan. Ég var farinn að óttast það versta. En svo frétti ég af því að það væri Covid smit í hópnum og test númer 2 hjá mér er hér að neðan.

Heyri svo í fréttum að þennan eina dag sem ég greindi sjálfan mig með þennan stórhættulega sjúkdóm sem hefur drepið milljónir á milljónir ofan - er það mikið grasserandi á Íslandi um þessar mundir að þann daginn greindust opinberlega yfir 400 manns með Covid á Íslandi. Ég er ekki þar á meðal því ég sá ekki neina sérstaka ástæðu til að fara í einhverja opinbera greiningu. Varla þörf á því nema ég yrði (eða hefði orðið) eitthvað hroðalega veikur. Ég skil hins vegar alls ekki hvað er erfitt að verða sér útum Covid sjálfspróf ef Covid er þetta mikið útbreitt í þjóðfélaginu núna.

Það helsta sem er líklega vitað um Covid er að þetta er ókikindatól og þetta eru undarleg veikndi. Er alveg hroðalega þreyttur, jafnaðargerð fyrir því að eitthvað sé ekki að virka rétt í fyrstu atrennu er eiginlega ekkert og ég er eiginlega bara leiðinlega viðskotaillur. Kannski eins gott að það reynir ekkert mikið á mannleg samskipti hjá mér í þessu nema þá í gegnum síma.

Núna á laugardegi búinn að vera hitalaus í líklega frá á fimmtudag og Garmin er ekki lengur að greina neitt einkennilegt. Ég ætti a.m.k. að geta hvílt mig og safnað kröftum aftur. En mikið djöfull er þetta leiðinlegt!

Í fyrsta skipti að gæta erlendra túrista

Túristi og gæd við Hver í Námaskarði

Það var eitthvað mánuði fyrr að það var spurt mig eitthvað sem þótti ólíklegt, hvort ég myndi stökkva til og fara með sem fararstjóri með hóp Bandaríkjamanna þar sem það vantaði aukafararstjóra því hópurinn var kominn yfir mörk sem var miðað við fyrir einn fararstjóra. Ég kom á óvart og stökk til.

Það að fara með hóp útlendinga í lúxusferð í hótelgistingu og gönguferðum á hverjum degi er dálítið annar vinkill en ég hef verið að fara sem fararstjóri hingað til. Eiginlega mjög margt sem ég þurfi að undirbúa mig, hugsa eða haga mér öðruvísi en í öðrum ferðum.
  • Öll leiðsögn yrði á ensku
  • Þar sem þetta var dálítið dýr ferð þá mætti gera ráð fyrir að fólkið gerði talsvert miklar kröfur
  • Margra daga ferð með fólkinu yfir daginn og á hótelum um kvöld kallar á talsvert flóknari fatapælingar en í öðrum ferðum
  • Ferð um Norðausturland á gönguleiðum út frá þjóðvegum - eitthvað sem ég hef í raun ekki veri að gera sjálfur í áratugi.
  • Mig langaði mikið til að standa mig sæmilega í þessu því ef ég myndi ekki klúðra þessu alveg þá gæti ég alveg fengið fleiri svona verkefni.
  • Og kannski ekki síður að þá hafði ég ekki mikinn áhuga á að klúðra þessu fyrir hönd samfararstjórans - en svo sem ekki mikil hætta á því.
Í heildina þá tókst þessi ferð okkar ágætlega en það gekk nú samt alveg á ýmsu flesta dagana. Upplýsingar ekki að skila sér rétt til hótela, ófyrirséðar breytingar á gistingu og fleira að valda álagi á köflum. En þetta slapp allt saman til og vel það og líklega allir ágætlega sáttir við þátt okkar fararstjóranna í þessu held ég. Það er spurningin hvort maður taki að sér svona aftur ef gefst... jú ætli það ekki :-)
Dettifoss

Monday, April 18, 2022

Á brekkuskíðum í fyrsta skipti í líklega 8 ár

Undirbjí mig aðeins með að fara með skíðiin í stillingu í Fjallakofann í vkunni fyrir páska. Hafði a.m.k. ekki farið á brekkuskíði síðan áður en ég braut á mér fótinn - og fór held ég frekar lítið einhver ár þar á undan.Bað um að þau yrðu stillt miðað við að ég væri byrjandi á skíðum - og í fyrstu ferðinni var ég það algjörlega. Fór hægt ... mjög hægt og var bara í plóg eiginlega allan tíman. Skíðin voru annars þanng að ég gat stigið uppúr þeim ef ég vildi.

Þetta kom svo eitthvað og var eiginlega allt í lagi þegar leið á. Gunni var með mér og sýndi hann mikla þolinmæði að bíða eftir bróður sínum. Endaði a.m.k. á að fara eitthvað af brattari leiðunum þarna á Bláfjallasvæðinu. Færið reyndar þungt og leiðinlegt. Þar sem fáir höfð skíðað var það samt ágætt og hægt að renna sér alveg sæmilega.
Tók enga myndir en það er þarna Strava track til sannindamerkis.

Fór svo á gönguskíði. Var með klístur sem var ekki að virka þannig að ég bafa sneri við en Gunni fór líklega heilan Strompahring.

Sunday, April 17, 2022

Fyrsti Esjusteinn ársins, laugardag um páska

Fór að Esjusteini fyrsta sinn þetta árið... sem var víst í gær. Veðrið hrein hörmung þessa páskana og raunar önnur ef ekki þriðja atlagan að þessu núna. Sneri áður við áður en ég kom í Mosfellsbæ í hávaðaroki og rigningu. Núna rigndi minna og það var ekki neinn vindur að ráði.


Var ekki með miklar væntingar um tíma að Steini. Allt spurning um væntingastjórnun. Ég hafði sagt sjálfum mér að allt undir 50 mínútum væri eitthvað sem gæti sloppið til... en undir 45 mínútum bara nokkuð gott.

Þegar ég svo sá ofarlega að ég væri að ná þessu á eitthvað rúmum 42 mínútum sem yrði bara ótrúlega góður tími miðað við núverandi vigt, aldur og fyrri störf, þá sóttist mér kapp í kinn. Svo fóru þessar 42 fyrir lítið og í lokin stefndi ég í að fara yfir 44 mínútur. Til að láta það ekki gerast þá var tekið á sprett og ég í bókstaflegri merkingu kastaði mér áfram á lokasprettinum. Lenti vel á nefinu... en átti líklega svona 4 metra eftir.

Ekki mikill snjór og nær enginn á styttri leiðinni um Einarsmýri. Ótrúlega lítil drulla líka verður að segjast. Sem sagt næstum því sumar færi.

Fellsmörk helgina fyrir páska

Það er deiliskipulagsvinna í gangi á Fellsmörk - Skógræktarfélagið sem sagt að reyna að ganga frá því hvernig fyrirkomulag á að vera. Ég hafði verið á fundi með þeim í upphafi vikunnar til að ræða gönguleiðir og fleira til að setja fram í deiliskipulaginu. Fannst ég tilfinnanlega vita lítið um gönguleiðir á austurhluta Fellsmerkur. Dreif mig því og gerði helgina langa. Var einsamall og var það eiginlega bara ágætt að geta haft þetta allt eftir mínu eigin höfði.


Tuesday, February 15, 2022

Allt á kafi í snjó


Ég held að svona ófærð hafi ekki verið í Heiðmörk síðan á síðustu öld! Þetta er sem sagt Hjallabraut, ein af aðal akstursleiðum Heiðmerkurinnar!


Skráð eftirá af Facebook færslu.

Monday, February 14, 2022

Líklega er ekki rétt að lýsa frati á þennan vetur... hann er alvöru!
Ég hef annars búið hér í um 15 ár og það hefur aldrei þann tíma held ég snjóað eins og núna um miðjan febrúar!


Skráð eftirá af Facebook færslu.

Friday, February 04, 2022

Kubbur

Í framhaldi af hinni ægilegu ruslabílaklessu er hann Kubbur litli núna kynntur til sögunnar. Hann sannar vonandi það að margur er knár þótt hann sé smár - en einhverjar athugasemdir eða spurningar hef ég samt fengið um hvort það passi fyrir einhvern yfir 190 að aka svona leikfangabíl. Reyndar átti hann fyrst að fá nafnið "Litla Leikfangið" en svona við nánari umhugsun þá er það óttalega óþjált þannig að líklegast fær hann nafni "Kubbur".

Vona annars að fall sé fararheill. Mér fannst hann starta eitthvað frekar rólega og þegar ég var búinn að taka þessar myndir sem eru hér og fljúga smá á drína líka - þá auðvitað gleymdi ég í smá stund að slökkva á ljósunum á honum og ... alveg dauður. Góð ráð voru örlíotið dýr því ég var ekki í henni Reykjavík - eða ekki alveg í þéttbýli ofan við Hafravatn. Gunni kom reyndar í björgunarleiðangur. Hjólandi úr vinnunni og til mín á sínum eðalvagni - sem er núna stærri en bíllinn minn - og með startkapla. Ég hafði reyndar líka fengið aðstoð frá fjölskyldu í bíltúr - sem hjálpaði við að ýta mér eitthvað að brekku til að komast í gang - en það gekk víst ekki. Kannski tókst m

Saturday, January 22, 2022

Ruslabílaklessa


Tók daginn snemma þriðjudaginn 18. janúar... hafði ætlað á fund kl. 8:00 heima á Teams og eitthvað ætlað að skoða gögn fyrir fundinn. Var bara að drekka morgunkaffi svona korter í sjö þegar það heyrðist fyrirgangur og læti. Svakalega hefur hann sett snjótönnina harkalega niður hugsa ég... nei annars, hann hlýtur að hafa rekiða hana utan í eitthvað... hvað gerðist eiginlega?

Fyrir utan húsið var gulur ruslabíll kominn inn í bílaröðina í Hæðargarðinum og sat þar bara sem fastast. Fjórir bílar okkar íbúanna þar í kring í mismunandi mikilli klessu. Bílstjórinn gaf eftir einhvern tíma frekar ótrúverðuga skýringu að hann hefði verið að mæta bíl - sem gengur ekkert upp því þá mætti hann bílnum á öfugum vegarhelmingi sjálfur. Annað hvort hefur hann sofnað eða verið eitthvað upptekinn í símanum sínum. Vonandi ekkert verra en það en löggan tók hann til eitthvað frekari skoðunar.

Núna nokkrum dögum seinna eru báðir bílarnir mínir komnir í eigu tryggingafélags. Guðs lofandi feginn að vera laus við númerslausa Suzuki jeppann og ekkert alveg alvont að vera ekki lengur með Dustein sem gekk undir nafninu Draslerinn hjá mér.
Verkefnið hjá mér núna er víst að eignast annað ökutæki. Var búinn að sjá einn sem mér leist helvíti vel á en sýnist að sá bíll sem var búinn að vera einhverja mánuði á sölu hafi selst tveimur dögum eftir að ég sá hann. Jæja... þetta fer allt saman einhvern veginn!

Friday, January 21, 2022

Óvænt þorrablót!


Á heimleið frá vinnu, hjólandi í gær - enda hafði ég selt báða bílana mína fyrr um daginn - mætti maður bróður sínum - líka hjólandi auðvitað. Hann reyndar tók ekkert eftir mér. En þetta endaði í óvæntu afmælis-ör-þorrablóti á Urðarstekk. Til hamingju með afmælið í gær mamma mín
Fært inn af Facebook