Tuesday, December 17, 2019

Innflytjandinn

Allt í lagi en ekkert í líkingu við Sakramentið

Vinnufélagi minn fór í óspurðum fréttum að tala um bókina Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson fyrir um tveimur árum síðan, sem varð til þess að ég las þá bók um síðustu jól ef ég man rétt. Mér fannt hún frábær og þegar lýsingin á nýjustu bók hans, Innflytjandinn benti til þess að þar væri eitthvað svipað á ferðinni, ákvað ég að verða mér útum eintak af henni til að lesa.

Ég segi ekki að bókin hafi valdið mér algjörum vonbrigðum og hún var alveg ágæt, skemmtileg aflestrar og mér leiddist ekkert að lesa hana en það var ekkert mikið meira en það. Óttaleg flatneskja á köflum og hægt að hraðlesa suma kafla sem voru eiginlega ekki um neitt, bættu engu við og voru ekkert áhugaverðir. Persónurnar í bókinni þokkalega áhugaverðar en samt tókst ekki að gera neitt almennilegt með þær.

Kannski það sem var áhugaverðast eða sérkennilegast var hvernig atburðir sem hafa átt sér stað síðustu ár og komið við Íslendinga voru notaðir í bakgrunni og stundum ekki í bakgrunni en þá skrumskældir til að búa til sögusvið bókarinnar.

Titillinn, "Innflytjandinn" hefur margs konar skírskotun í bókinni, sem kveikir á ýmsum tengingum í hausnum á manni. Eitthvað er kafað ofan í heim múslimskra innflytjenda en svo sem ekki miklu bætt við það sem maður áður vissi eða maður taldi sig vita.

Fléttan í bókinni er síðan í sjálfu sér ágæt og kom dálítið á óvart en samt eitthvað af lausum endum fannst mér - sem kannski skipti ekki neinu máli. Bókin var samt dálítið eins og að eftir 350 blaðsíður hafi höfundinum fundist þetta vera orðið gott og ákveðið að klára bara fléttuna nokkuð hratt.

Í heildina samt sagt alveg þónokkuð góð afþreying og ekki leiddist manni að lesa bókina.

No comments: