Thursday, December 26, 2019

Mómó eftir Michael Ende

Eiginlega keypti ég þessa bók óvart eða kannski frekar svona óforvarandis. Samt ekki alveg því fyrir um 35 árum (ótrúlegt að það geti verið svona mörg ár síðan) sat ég ásamt nokkrum vinum mínum í sér tíma í Heimspeki hjá Gunnari Dal í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Eitt af því sem hann gerði fyrir okkur var að rubba uppúr sér eitthvað um 20 bóka lista sem var listi yfir þær bækur sam hann sagði að við yrðum að lesa á lífsleiðinni. Eitthvað las ég af þessum bókum á sínum tíma en ein af þeim sem ég mundi alltaf eftir en án þess að les, var þessi: Mómó eftir Michael Ende. Núna var ég hins vegar að leita að jölagjöf handa frænku minni 12 ára og var ekki alveg viss um þessa bók sem jólagjöf handa henni þannig að ég keypti hana handa sjálfum mér til lestrar og ef mér litist á þá myndi ég gefa henni bókina. Það er ekki neinn stóridómur um þessa bók en frænkan fékk gjafakort í Smáralind í jólagjöf. Bókina fær hún kannski einhvern tímann seinna.

En bókin þá...

Jæja, eitthvað um bókina. Eins og við var að búast af bók sem komst á listann hans Gunnars þá er þetta ekkert mjög venjuleg bók – og svo las ég líka af umræddum lista Söguna endalausu eftir sama höfund sem ætti einnig að vera skyldulesning. Það er líklega hvort heldur hægt að segja að Mómó sé rosalega góð barnabók fyrir fullorðna eða góð fullorðinsbók fyrir börn.

Annars er þessari bók kannski best lýst með því að segja að hún sér einhvers konar heimspekileg vangavelta um tímann, hvernig maður notar eða eyðir tímanum. Hvort maður hafi tíma til einhvers eða ekki… og þá af hverju. Reyndar eins og einhver sagði einhvern tímann að þá þarf maður ekkert að vera að flýta sér eða gera sig tímabundinn því aðal galdurinn við tímann væri að það kæmi alltaf meiri tími aftur.

Hvað ef...

En hvað ef þetta væri allt saman satt... ef sagan sem maðurinn á óræða aldrinum sagði Michael Ende væri rétt... það væru einhver grámenni búin að plata okkur öll og þess vegna hefði enginn lengur tíma til neins. Veit samt ekki alveg með sjálfan mig því leti minni eru á stundum engin takmörk sett. Og þó... núna þessi jólin hef ég verið finnst mér upptekinn við að hafa tíma fyrir mig eins og mig lystir... en samt hefur sá tími einhvern veginn bara horfið frá mér. Kannski var maðurinn á óræða aldrinum í lestinni sem Michael Ende hitti Meistari Hora kominn þar í eigin persónu og þá grámennin búin að hrekja hann úr húsinu sem var og er hvergi. Er einhver saga sönn eða eru þær það allar... og skiptir það annars einhverju máli?

Annar í jólum = fyrsti í afgöngum

Jæja... jólaboðin afstaðin. Það var farið í Fagrahjalla á aðfangadags en sama fólk … ekki svo margt kom til mín á jóladag. Gæs fyrri daginn en aðallega hangikjöt seinni daginn. Margir pakkar opnaðir fyrr daginn en mikið spilað seinni daginn. Hvort tveggja alveg ljómandi.

Á aðfangadag var kannski helst í frásögur færandi að ég fékk tvöfaldan jólamatsskammt að þessu sinni. Ég sat fyrst með henn múttu minni og Ástu á Grund með öðru gömlu fólki og nokkrum hressum ungum konum sem sáu um að allt færi rétt fram. Svo var farið í Fagrahjallann og þar var eiginlega samt stjarna aðfangadagskvöldsins lítill kettlingur.


Já og eins og sést á myndinni hér að ofan þá heldur nýja linsan sem ég keypti mér áfram að rokka feitt.

Núna tekur hins vegar baráttan við afgangana við. Verð að mestu í flugeldasölu næstu daga og í þannig séð fullu fæði þar. Afgangarnir frá jóladagsboðinu munu því að einhverju leyti mæta afgangi hjá mér. Vona að ég endi ekki á að henda miklum dýrindismat þegar líður á. Henti óþægilega miklu í fyrra minnir mig. Það er eitthvað einkennilegt með þetta hjá mér að ég þarf alltaf að kaupa of mikið í matinn!

Tuesday, December 17, 2019

Innflytjandinn

Allt í lagi en ekkert í líkingu við Sakramentið

Vinnufélagi minn fór í óspurðum fréttum að tala um bókina Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson fyrir um tveimur árum síðan, sem varð til þess að ég las þá bók um síðustu jól ef ég man rétt. Mér fannt hún frábær og þegar lýsingin á nýjustu bók hans, Innflytjandinn benti til þess að þar væri eitthvað svipað á ferðinni, ákvað ég að verða mér útum eintak af henni til að lesa.

Ég segi ekki að bókin hafi valdið mér algjörum vonbrigðum og hún var alveg ágæt, skemmtileg aflestrar og mér leiddist ekkert að lesa hana en það var ekkert mikið meira en það. Óttaleg flatneskja á köflum og hægt að hraðlesa suma kafla sem voru eiginlega ekki um neitt, bættu engu við og voru ekkert áhugaverðir. Persónurnar í bókinni þokkalega áhugaverðar en samt tókst ekki að gera neitt almennilegt með þær.

Kannski það sem var áhugaverðast eða sérkennilegast var hvernig atburðir sem hafa átt sér stað síðustu ár og komið við Íslendinga voru notaðir í bakgrunni og stundum ekki í bakgrunni en þá skrumskældir til að búa til sögusvið bókarinnar.

Titillinn, "Innflytjandinn" hefur margs konar skírskotun í bókinni, sem kveikir á ýmsum tengingum í hausnum á manni. Eitthvað er kafað ofan í heim múslimskra innflytjenda en svo sem ekki miklu bætt við það sem maður áður vissi eða maður taldi sig vita.

Fléttan í bókinni er síðan í sjálfu sér ágæt og kom dálítið á óvart en samt eitthvað af lausum endum fannst mér - sem kannski skipti ekki neinu máli. Bókin var samt dálítið eins og að eftir 350 blaðsíður hafi höfundinum fundist þetta vera orðið gott og ákveðið að klára bara fléttuna nokkuð hratt.

Í heildina samt sagt alveg þónokkuð góð afþreying og ekki leiddist manni að lesa bókina.

Árleg eða hérumbil árleg aðventuferð bræðra í Fellsmörk

Það var kalt en það var fallegt!


Líklega ágætis ferð í Fellsmörk og þá jafnvel sú besta í huganum í langan tíma. Eitthvað skemmtilegt gert.
  • Ég hafði verslað mér battarís-jólaljós (eða það sem var kallað partýljós) í Bykó síðasta haust og þeim var smellt upp í snarheitum. Það vantaði nagla og svo vantaði hamar en það fyrra fannst í geymslukamri bjálkakofans og því síðarnenfnda var til bráðabirgða bjargað með þykkbotna pönnukökupönnu!
  • Það var grillað
  • Var vopnaður nýrri linsu á Nikoninn og það vaknaði einhver hérumbil slökkt framtaksemi að taka kúnstmyndir.
  • Það var að venju farið í einhverja stuttgöngutúra - við bræður reyndar sitt í hvoru lagi.
  • Allt með kyrrum kjörum eftir nýafstaðið óveður (rauða aðvörunin) en á einhverjum tímapunkti var spáð mjög hvössu veðri í eða ofan Fellsmerkur. GS reyndar búinn að gera afar lítið úr því öllu fyrirfram og þar með mér en fæ svo spurningu á Facebook um hvort allt sé í lagi á austurhluta og ekki nógu gott að hafa ekki skoðað neitt þar. En það er eins og það er hjá manni, bæði í leik og starfi.

Það var annars svo kalt þennan sólarhring sem við vorum í Fellsmörk að mér var eiginlega kalt allan tímann. Lá uppi í rúmi og var að reyna að lesa bók en þá að drepast úr kulda á höndunum. Hefði þurft að vera með vetlinga við lesturinn!

Eitthvað sem ég hugsa en kem aldrei í verk þar í Fellsmörk.
  • Það vantar skenk undir gluggann á dyravegginn. Hann myndi annars vegar nýtast sem hirsla undir dót sem er í húsinu og er dálítið alltaf út um allt og alltaf hálfpartinn fyrir. Hann myndi svo nýtast til að geta lagt frá sér farangur hverrar ferðar sem núna er alltaf út um öll gólf.
  • Náttborð
  • Hillur við efri koju
  • Krókar við kojurúm
  • Skápur inn í geymslukamarinn. Þunnur IKEA Ivar, helst með hurðum.

Monday, December 16, 2019

Móskarðahnúkar eða Móskarðshnúkar

Fór á Stardalshnúka með FÍ um síðustu helgi og þá kom til tals hvað hnúkarnir þar norður af eigi að heita: Móskarðshnúkar eða Móskarðahnúkar.

Ég sjálfur ólst upp við að þeir hétu Móskarðshnúkar en var fyrir líklega rúmum 10 árum síðan bent á að þeir hétu Móskarðahnúkar því á milli þeirra væru Móskörð en ekki eitt Móskarð. Miðað við það væri réttara að þeir hétu Móskarðahnúkar, þ.e. fleirtölumynd skarðanna væri notuð í nafni hnúkanna.

En ef ég skoða hvað er upprunalegra er ein leið að skoða hvað hefur verið skrifað í íslensk dagblöð og tímarit í gegnum tíðina. Þá á eintölumyndin (Móskarðshnúkar) vinninginn og það er yfirburðasigur. Móskarðshnúkar koma fram í íslenskum prentmiðum á timarit.is alls 191 sinni. Elsta dæmið er frá þarsíðustu öld eða 1899 í Andvara og Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags.

Skráð dæmi um Móskarðahnúka eru eingöngu 9 talsins og bara eitt frá því fyrir síðustu aldamót sem er auglýsing Útivistar um gönguferð þangað árið 1985. Þar er hins vegar um tölvuvillu í skönnun að ræða og það er greinilega verið að nota orðið í eintölu. Það eru því engin dæmi til um Móskarðahnúka nema eftir árið 2000.

Ef skoðað er hvort það er talað um Móskarð eða Móskörð þá snýst dæmið hins vegar við því ekki virðist vera talað um Móskarð í eintölu utan einu sinni - í Þjóðólfi árið 1876. Einhver nokkur dæmi eru um að tala um Móskörð hins vegar í fleirtölu.

Þetta er til gamans gert og ég ætla ekki að taka endanlega afstöðu. Væntanlega er rökréttara að tala um Móskarðahnúka en þeir hafa samt verið kallaðir a.m.k. á prenti Móskarðshnúkar síðustu 120 árin eða svo.

Svo sé ég að Landmælingar hafa tekið afstöðu því á vef https://ornefnasja.lmi.is/ er ekki að finna Móskarðshnúka heldur eingöngu Móskarðahnúka.

Tuesday, December 10, 2019

Nýtt dót

Kistufell Esjunnar og Grafardalur vestan Hátinds séð með nýju linsunni.


Veit ekki hvað er langt síðan ég verslaði mér síðast linsudót á Nikoninn. Það eru líklega svona 10 ár síðan. Reyndar á blankheitatímanum gerði ég ekki ráð fyrir að kaupa mér nokkurn tímann aftur nýja linsu - en blankheitatíminn er líklegast blessunarlega liðinn - eða kannski ekki svo blessunarlega.

En það var myndavélin sem gekk undir nafninu krílið sem gafst upp á mér eftir einhverja blauta gönguferð í haust þegar ég endaði á að hella te yfir hana í hristingi í eðalfáki Höskuldar. Hún hætti að geta lesi minniskort. Fór í viðgerð fyrir meira en mánuði síðan og átti að vera tilbúin bara eftir fáa daga. Búinn að hringja tvisvar og alltaf á hún að vera tilbúin eftir fáa daga. Þeir dagar hafa breyst í að ég er farinn að telja daga hennar talda.

Svo leiddi eitt af öðru. Fór á amrísku vefverslanirnar og jú... þar var einhver rauðlituð Olympus vél sem gæti kannski þolað meðferðina hjá mér... og svo sá ég einhverja linsu sem gæti verið gaman að eiga... og svo kom svartur föstudagur með alls konar tilboðum. Að endingu var hvort tveggja keypt. Linsan 16-80mm F2.8-4.0 sem myndin að ofan er tekin með og svo Olympusan rauða sem á að vera vatnsheld. Ég sem hafði helst ætlað að spara 100% á þessum svarta fössara með að leiða hann hjá mér enda með einhverra fárra tuga prósenta sparnað og eyðslu hátt í 200 þúsund. En ég held að þetta séu ágætar græjur!

Myndin að ofan er annars tekin síðasta sunnudag þegar ég fór í könnunarferð og myndatökubíltúr að skoða aðstæður fyrir göngu næstu helgar þegar stefnt verður á Stardalshnúka.

Monday, December 02, 2019

Flottar frænkur sem ég á


Bloggandinn ekki alltaf alveg að drepa mig. Var þó búinn að henda inn þessari mynd að ofan sem sýnir Margréti frænku mína flotta tróna efst í píramída balletfélaga sinna. Var auðplataður á sýningu og með myndavélina sérstaklega með. Tók sig upp smá gamalt ljósmyndaragen og var bara þokkalega ánægður með útkomuna. Fleiri myndir eru á Flicrk síðunni minni sem merkilegt nokk er ennþá til og reyndar bara talsvert uppfærð.

Já og hin frænkan auðvitað, Hrefna Vala er ekki síður flott!