Sunday, April 29, 2018

Mússikk dót keypt þegar ég átti eiginlega að vera að skurka áfram verkefnum í vinnunni!


Var búinn að hugsa þetta frekar lengi. Eiginlega frá því fyrir einhverjum árum þegar ég átti engan aur til að kaupa eitt né neitt. Verslaði mér mússikkhljómborð, rafmagnspjanó eða hvað fólk vill kalla það. Stærstur hluti gærdagsins seinnipartinn fór víst í þetta, fyrir utan hraðgöngutúr á Esjuna. Það er síðan kannski ljóst að ef ég ætla að nota þetta eitthvað þá verður maður að æfa sig eitthvað. Spurning hvort það þurfi að finna sér píanótíma? !

Af megrunarléttingarheilsuátakinu má það annars færast til bókar að skv. hefðbundnum BMI skala náði ég því á vigtinni eftir Esjugöngutúrinn í gær að verða normal og vigtin sýndi eitthvað um 10 kg minna en þegar hún taldi mig vera þyngstan. Það kannski skondnasta við þetta er að það hefur enginn minnst á það við mig að ég hafi hugsanlega mjókkað eitthvað!

Tuesday, April 24, 2018

Eyjafjallajökull þveraður öðru sinni


Sem gæd hjá Ferðafélagi Íslands að fara yfir Eyjafjallajökul öðru sinni. Fór aðra sambærilega fína ferð fyrir tæpu ári. Þessi gekk líka mestan part ágætlega.

Setti samt líklega persónulegt met í ómanngleggni þegar ég þekkti ekki fólk sem ég átti að þekkja og var í línunni hjá mér. Kenni kannski fésbók og öðrum slíkum um. Þegar maður sér bara myndir af fólki en hittir það ekki í raunheimum þá gleymir maður kannski bara hvernig fólkið lítur út svona augliti til auglitis.

Gædamennskan gekk annars bara vel. Var reyndar eitthvað rosalega mikið eins og ég vissi ekki hvað ég væri að gera þegar ég var að koma mér sjálfur í klifurbeltið og fólkið í línuna. Hefði kannski bara átt að fatta hver var með mér í línunni og láta hana sjá um þetta - það hefði alveg gengið fínt.
Dálítið af sprungum á leiðinni niður, líklega í svona 1200 metra hæð. Uppi á jöklinum við Goðastein og Ónefndan sérstaklega var meiri snjór en fyrir ári.

Ágætt veður þannig séð en ekki mikið skyggni þegar við vorum á efstu tindum. Fórum bara á Ónefndan (Gígtind) og Hámund. Slepttum bæði Goða- og Guðnasteini. Goðasteinn sást varla og Guðnasteinn hefði ekki bætt miklu við þannig séð.

Var að prufukeyra eitthvað af nýju dóti. Nýir BD mannbroddar og var ekki alveg sáttur við hvernig þeir voru að passa undir skóna. Svo var það dálítið turn off að ég rann einhverja cm á þeim nokkrum sinnum. Veit ekki hvort það var út af því að það var í sjálfu sér ekki broddafæri alls staðar sem við vorum í þeim eða hvort þeir séu ekki nógu beittir. En ljóst að ég þarf að skoða þá eitthvað betur.
Var svo að trakka í fyrsta skipti langa gönguleið á nýja Garmin Fenix 5 úrinu. Það var dálítið leiðinlega mikið í rugli með hæðina. Var að gefa of háar tölur miðað við GPS hand-tækin til viðmiðunar sem virtust vera að gefa mjög rétta niðurstöður. Svo sýnist mér að úrið sé að ýkja gengna vegalengd um eitthvað 5-10%. Fannst það seinna varla vera ásættanleg frammistaða fyrir GPS úr af dýrustu gerð - kostar eins og tvö þokkaleg GPS tæki!

Svo að lokum, þá var það skemmtilegt að ég tók líklega eina þokkalaega góða mynd af því grjóti sem ég kalla Guðnastein:




Svo má færa til bókar það sem leit út fyrir að vera skelfilegt en varð ekki svo slæmt þegar upp var staðið. Það brotnaði tönn síðasta vetrardag með morgunskorpubrauðsneið og ég óttaðist að það væri eitthvað lítið eftir af tönninni. Þetta var þó ekki jafn alvarlegt og leit út. Í raun bara fyllingin sem hafði brotnað af en var sem sagt stór hluti af tönninni. það var sem sagt farið til tannlæknis í gær og svo hálfpartinn skrópað í vinnunni eftir hádegið - enda ég dálítið búinn á því eftir fjallgönguna og tannlæknisheimsóknina.

Friday, April 13, 2018


Nýtt dót prufukeyrt. Garmin eitthvað Fenix 5. Rosaleg græja geri ég ráð fyrir en samt ekki alveg að fatta mig. Ef ég skildi apparatið rétt þá segir það að ég eigi að hvíla mig í 29 klst eftir klukkutíma langa hjólatúr... og með þessum eina hjólatúr vantar mig bara einhverjar 5-10 mínútur að ná hreyfimarkmiðum vikunnar. Það er greinilega gert ráð fyrir að ég sé kominn frekar nálægt grafarbakkanum. Svo sýnist mér að ég sakni ennþá einhverra fítusa sem voru í gamla Garmin forerunner 305 sem ég átti. En þetta er nú samt voðalega fínt held ég.

Gamli Bell hjálmurinn minn var orðinn eitthvað lúinn um daginn þannig að það var pantaður nýr Bellhjálmur af vörulista Chainreaction án þess að máta að sjálfsögðu. Síðast þegar ég keypti Bell hjálm þá virtust þeir vera betri og passa betur eftir því sem þeir voru dýrari. Það var því pantaður einn rúmlega miðlungi dýr! Og hann mátast þvílíkt vel á hausinn á mér og er svo þægilegur að ég er að hugsa um að sofa með hann í nótt... og kannski líka úrið til að fá að vita hvort það séu einhver svefngæði hjá mér. Já, þessi tækniöld lætur ekki að sér hæða!

Hjólatúrinn á Strava... og hann fór þangað bara sjálfkrafa!!!