Friday, October 21, 2016

Líklega síðasta Hlöðuvallaferðin í bili og ennþá enn hopa jöklar


Frekar ágæt testofa með útsýni


Fór að mér telst fjórtándu ferðina að Hlöðufelli um síðustu helgi. Var einsamall en reyndar talsvert fjölmenni samt á svæðinu. Sótti loksins kjarnana sem ég boraði í klettana við uppgönguna í fyrra og að hluta núna í sumar. Kláraði einnig fleiri sýnatökustaði þar sem sýni höfðu verið of fá. Svo sem ekkert merkilegt um eitt eða neitt að segja þannig séð.


Læmið sem núna hefði mátt kalla Flæmið!

Var laugardag og sunnudag og fór sunnudagurinn að hálfu í að fara inn að Vestari-Hagafellsjökli. Eftir stórrigningar liðinnar viku var talsvert í Læminu og sá ég af bökkunum í kringum ána að hún hefur verið óvæð, a.m.k. tveggja metra djúp þegar mest var í henni.
Jökullinn hafði hopað skv. minni mælingu 56 metra frá síðasta ári.



Síðan er það helst að frétta að karl faðir minn er kominn á sjúkrahús eina ferðina enn.

Jú og svo er ég búinn að gera mig hálf gjaldþrota með kaupum og uppsetningu á Ikea skápum í anddyrið hjá mér. En það er þó a.m.k. komið herjarinnar geymslupláss!

Já og kannski fyrir mig sjálfan ekki hvað síst í frásögur færandi að ég fer í úrjárnun á hægri sköflungi á föstudag eftir viku. Líklega best að sækja hækjurnar upp á háaloft!

Sunday, October 09, 2016

Jöklar hopa enn!

Við jökuljaðar Hagafellsjökuls eystri

Það var farið að Hagafellsjökli eystri og sporður hans mældur. Frumniðurstaða er hop upp á 342 metra síðan hann var mældur síðast árið 2013. Það gerir hop um 114 metra að meðaltali hvert ár. Mæling gerð 8. október.

Feltferð sú 13. á Hlöðuvelli

Það gekk betur í tilraun 2 á Hlöðuvelli. Mér telst reyndar til að þetta hafi verið 13. ferðin þannig að kannski hefur óhappatalan eitthvað gildi. Næst er þá 14. ferðin og einhvern tímann ákvað ég að 14 væri happatalan mín.

Norðurljósin sviku mið reyndar hálfpartinn. Voru bara í meðallagi á meðan ég var vakandi. Náði samt einhverjum myndum. Ók norður að Stórasteini og tók einhverjar myndir. Skemmtilegt að hafa t.d. eðalfjallið Skjaldbreiði á myndunum. Velti dálítið fyrir mér ljósinu sem sést á þessum myndum. Sú fyrri er tekin við Stórastein sem er við norð-vestur horn Hlöðufells. Ég geri ráð fyrir að bjarminn sem þar sést yfir vinstri hlíð Skjaldbreiðar sé frá Reykjavík. Stefnan passar a.m.k. miðað við það.

Ég er hins vegar í vanda með bjarmann á seinnni myndinni sem er tekin undir morgunn frá Hlöðuvöllum. Bjarminn sem sést þar er í stefnu eitthvað norð-vestur og þar er enga sérstaka byggð að finna sem gæti skýrt bjarmann. Liggur reyndar í áttina að skálabyggingum jeppa og sleðamanna norðan Skjaldbreiðar en efast um að ljósin komi þaðan. Held því helst að þetta sé frá tunglinu. Hef samt ekki athugað líklega stefnu að tunglinu klukkan 5 að morgni 30. september.