Wednesday, June 24, 2015

Esju-Steinn


Mér telst til að í dag séu 5 mánuðir frá því ég mölvaði á mér hægri fótinn. Hélt upp á það (reyndar án þess að hafa áttað mig á að það væri afmæli) með að skottast upp að Steini. Ferðin upp gekk eiginlega framar vonum. Þrátt fyrir að hafa stoppað í nokkrar mínútur á leiðinni upp til að spalla við Melkorka Jónsdóttir​ í þágufalli reyndar þá sýndi skeiðklukkan 57:53 þegar upp að Steininum var komið. Ég man ekki betur en að það séu 60 mínútur sem skilji þar á milli feigs og ófeigs.

Niðurgagnan er meira fyrirtæki fyrir farlama mann og var ég líklega um einn og hálfan tíma að komast niður. Ég held annars að ég hafi verið hálf undarleg sjón þar sem ég á köflum næstum því skreiddist niður en samt jafn sportlega búinn fyrir neðan mitti og alvöru Esjuhlaupari - eða kannski bara eins og hver annar kvenmaður - þ.e. í hlaupabrók. Ég þarf einhvern tíman að tjá mig eitthvað þessa undarlega tísku að sá klæðnaður sem mér finnst þægilegastur í sumargöngu í köldu íslensku sumri er eingöngu viðurkenndur á karlmanni ef hann er úti að hlaupa eða hjóla. Konur mega hins vegar klæða sig í þrönga brók þegar þeim bara dettur í hug og þykir held ég kúl. Ef ég tek upp á því þegar ég er ekki úti að hjóla eða hlaupa þá yrði ég hins vegar talinn eitthvað undarlegur.

Mikið djöfull var ég svo svangur þegar heim var komið. Verslaði ógeðslega vondan grillaðan kjúkling í Hagkaup og hann var étinn með soghljóðum!

No comments: