Kominn upp að læk á 39 mínútum með þumalinn á lofti... jú, hann er bæklaður eins og sumt annað í manni!
Eftir að hafa fengið dauðadóm hlauparans hjá Ríkarði lækni var verið hjá Árna sjúkraþjálfara daginn eftir. Hann sagði mér nú ekkert alveg að taka þessu sem endanlegum dómi að ég ætti aldrei eftir að hlaupa. Stakk upp á að ég færi í segulómun - sem reyndar er ekki hægt fyrr en búið er að taka járnadótið burt - og það verður ekki fyrr en á næsta ári. Þá kemur í ljós hver staðan á brjóskinu mínu í ökklanum er og þá kannski hægt að gefa endanlegri ráð um hversu viturlegt verði fyrir mig að fara að hlaupa aftur. En jæja - hann síðan eiginlega skipaði mér að fara á göngustíginn í Esjunni - sem ég gerði kvöldið eftir.
Esjugangan fyrsta gekk bara vonum framar. Fór með Gunnanum og var ekkert með of miklar væntingar fyrirfram. Lágmark að fara upp tröppurnar í fyrsta bratta kaflanum. Halda svo helst áfram að brúnni yfir Mógilsá. Halda áfram ef allt væri í góðu en fara kannski ekkert lengra en upp að læknum þar sem aftur er farið yfir hann. Þetta gekk allt eins og í sögu og var kominn þangað á um 55 mínútum. Nðurferðin tók einhverjum mínútum lengri tíma - og er eiginlega mikið meira mál þar sem ég vil ekki vera að trampa á aumingja ökklanum mínum.
Varð svo hálf slappur á föstudeginum - en reyndar búinn að vera með aðkenningu að einhvers konar hálsbólgukvefi dagana á undan. Lagðist á föstudagskveldi og missti af þriggja skólagöngu Dísanna tveggja.
Svo í dag á sunnudegi, þrátt fyrir að vera ennþá hálf slappur og rúmlega það var haldið af stað áleiðis á Esju. Núna var enginn Gunni með til að spjalla við og ég líka aðeins meira meðvitaður um hvað ég gæti. Tíminn upp að læk kominn niður fyrir 40 mínútur og það held ég að myndi samsvara því að komast upp að Steini á klukkutíma. Ég er sem sagt að komast réttum meginn við línuna sem skilur á milli feigs og ófeigs.
Niðurgangan gekk hægt fyrir sig en samt örlítið hraðar en á fimmtudeginum. Endaði niðurferðina á 55 mínútunum sem var uppgöngutíminn þá! Hálf datt held ég tvisvar og krossbrá í bæði skiptin. Ekkert gerðist og svo sem ekki nein sérstök hætt á ferðum - en áminning um að fara varlega.
En margt getur komið einum manni á óvart. Fékk ábendingu frá Þórhildi Jetzek um að það væri mynd af mér á Vatternrundan síðu. Og það er! Ég virðist vera eitt af andlitum Vatternrundan þetta árið - með mynd frá árinu 2009 ef ég man rétt. Í kjölfarið hafa skapast umræður og það stefnir allt í að farið verði að ári eina ferðina enn. Fóturinn er dálítið áhyggjufullur reyndar!