Monday, June 29, 2015

Kerfillinn tekur völdin



Þegar ég arkaði upp að Steini í vikunni sem leið, fór ég að velta gróðrinum aðeins fyrir mér. Ég man ekki hvernig þetta var þegar ég fór fyrst í göngutúr á Esju en held að ekki hafi þá verið fyrir miklum gróðri að fara. Einhverjar fjallaplköntur sem uxu þarna í mölinni.

Fyrir einhverjum árum voru lúpínubreiðurnar allsráðandi ef ég man rétt en núna er önnur tegund búin að ná yfirhöndinni að ég tel. Kerfilsbreiðurnar eru þarna alls staðar. Svo sem fallegt yfir að líta en vægast sagt frekar einsleitur gróður!

......

....

Nöldur

Um helgina þegar veðrið lék við landsmenn var minn leikur háður í roki og rigningu sunnan undir Mýrdalsjökli.

Í morgunn þegar veðrið var gott í henni Reykjavík mátti vart heyra mannsins mál fyrir einhverjum framkvæmdum utandyra og svo var ekki hægt að fara í bað því nær ekkert heitt vatn var í boði frá Orkuveitu Reykjavíkur (kannski tengsl á milli framkvæmdahávaða og vatnsleysis - en held annars að aðal hávaðinn hafi komið frá sláttuorfum), svo var ég með verk í baki og gat mig varla hreyft fyrir utan ökklann sem var með verra mótinu og svo til að gera útslagið og hrekja mig að heiman (ég sem hafði ætlað að vinna heima til hádegis) var geitungsóféti sem sveimaði um íbúðina í vígahug albúinn að gera árás.

Ég velti fyrir mér hvort þetta eigi eftir að versna eitthvað - en er annars bara góður!

...

Komst svo að því að heitavatnsskorturinn stafar af framkvæmdum. Það er víst vatnslaust í þarnæstu götu!



En ég hefði samt haldið að helvítis geitungarnir ættu að vera úti að leika sér en ekki inni heima hjá mér - búnir að hertaka íbúðina.

Wednesday, June 24, 2015

Esju-Steinn


Mér telst til að í dag séu 5 mánuðir frá því ég mölvaði á mér hægri fótinn. Hélt upp á það (reyndar án þess að hafa áttað mig á að það væri afmæli) með að skottast upp að Steini. Ferðin upp gekk eiginlega framar vonum. Þrátt fyrir að hafa stoppað í nokkrar mínútur á leiðinni upp til að spalla við Melkorka Jónsdóttir​ í þágufalli reyndar þá sýndi skeiðklukkan 57:53 þegar upp að Steininum var komið. Ég man ekki betur en að það séu 60 mínútur sem skilji þar á milli feigs og ófeigs.

Niðurgagnan er meira fyrirtæki fyrir farlama mann og var ég líklega um einn og hálfan tíma að komast niður. Ég held annars að ég hafi verið hálf undarleg sjón þar sem ég á köflum næstum því skreiddist niður en samt jafn sportlega búinn fyrir neðan mitti og alvöru Esjuhlaupari - eða kannski bara eins og hver annar kvenmaður - þ.e. í hlaupabrók. Ég þarf einhvern tíman að tjá mig eitthvað þessa undarlega tísku að sá klæðnaður sem mér finnst þægilegastur í sumargöngu í köldu íslensku sumri er eingöngu viðurkenndur á karlmanni ef hann er úti að hlaupa eða hjóla. Konur mega hins vegar klæða sig í þrönga brók þegar þeim bara dettur í hug og þykir held ég kúl. Ef ég tek upp á því þegar ég er ekki úti að hjóla eða hlaupa þá yrði ég hins vegar talinn eitthvað undarlegur.

Mikið djöfull var ég svo svangur þegar heim var komið. Verslaði ógeðslega vondan grillaðan kjúkling í Hagkaup og hann var étinn með soghljóðum!

Sunday, June 14, 2015

Eitthvað getur maður þó gert!


Kominn upp að læk á 39 mínútum með þumalinn á lofti... jú, hann er bæklaður eins og sumt annað í manni!

Eftir að hafa fengið dauðadóm hlauparans hjá Ríkarði lækni var verið hjá Árna sjúkraþjálfara daginn eftir. Hann sagði mér nú ekkert alveg að taka þessu sem endanlegum dómi að ég ætti aldrei eftir að hlaupa. Stakk upp á að ég færi í segulómun - sem reyndar er ekki hægt fyrr en búið er að taka járnadótið burt - og það verður ekki fyrr en á næsta ári. Þá kemur í ljós hver staðan á brjóskinu mínu í ökklanum er og þá kannski hægt að gefa endanlegri ráð um hversu viturlegt verði fyrir mig að fara að hlaupa aftur. En jæja - hann síðan eiginlega skipaði mér að fara á göngustíginn í Esjunni - sem ég gerði kvöldið eftir.

Esjugangan fyrsta gekk bara vonum framar. Fór með Gunnanum og var ekkert með of miklar væntingar fyrirfram. Lágmark að fara upp tröppurnar í fyrsta bratta kaflanum. Halda svo helst áfram að brúnni yfir Mógilsá. Halda áfram ef allt væri í góðu en fara kannski ekkert lengra en upp að læknum þar sem aftur er farið yfir hann. Þetta gekk allt eins og í sögu og var kominn þangað á um 55 mínútum. Nðurferðin tók einhverjum mínútum lengri tíma - og er eiginlega mikið meira mál þar sem ég vil ekki vera að trampa á aumingja ökklanum mínum.

Varð svo hálf slappur á föstudeginum - en reyndar búinn að vera með aðkenningu að einhvers konar hálsbólgukvefi dagana á undan. Lagðist á föstudagskveldi og missti af þriggja skólagöngu Dísanna tveggja.

Svo í dag á sunnudegi, þrátt fyrir að vera ennþá hálf slappur og rúmlega það var haldið af stað áleiðis á Esju. Núna var enginn Gunni með til að spjalla við og ég líka aðeins meira meðvitaður um hvað ég gæti. Tíminn upp að læk kominn niður fyrir 40 mínútur og það held ég að myndi samsvara því að komast upp að Steini á klukkutíma. Ég er sem sagt að komast réttum meginn við línuna sem skilur á milli feigs og ófeigs.

Niðurgangan gekk hægt fyrir sig en samt örlítið hraðar en á fimmtudeginum. Endaði niðurferðina á 55 mínútunum sem var uppgöngutíminn þá! Hálf datt held ég tvisvar og krossbrá í bæði skiptin. Ekkert gerðist og svo sem ekki nein sérstök hætt á ferðum - en áminning um að fara varlega.


En margt getur komið einum manni á óvart. Fékk ábendingu frá Þórhildi Jetzek um að það væri mynd af mér á Vatternrundan síðu. Og það er! Ég virðist vera eitt af andlitum Vatternrundan þetta árið - með mynd frá árinu 2009 ef ég man rétt. Í kjölfarið hafa skapast umræður og það stefnir allt í að farið verði að ári eina ferðina enn. Fóturinn er dálítið áhyggjufullur reyndar!

Wednesday, June 10, 2015

Ef ég hefði raunverulega ætlað þá hefði ég átt að vera búinn...

... að hlaupa maraþonhlaup.

Ég var hjá Ríkarði lækni í morgun. Allt svo sem ágætt en þessar heimsóknir til hans hafa líklega þann tilgang helstan að uppfræða mig hægt og rólega um það hvað ég get en sérstaklega hvað ég get ekki. Hann vill ekki að ég hlaupi nokkurn tímann aftur. Þannig að ef ég ætlaði að hlaupa maraþonhlaup, þá hefði ég átt að vera búinn að gera það áður en ég braut á mér fótinn.

Stundum talar fólk um að það læri eitthvað af svona áföllum. Held að flestir séu þá að meina að þeir eigi að læra það að passa sig og fara eitthvað varlegar en hafði verið gert. Það er ekki minn lærdómur. Minn lærdómur er meira sá að ef þú getur gert eitthvað sem þig langar til að gera - drífðu þá í að gera það því þú veist aldrei hvenær það verður orðið of seint!

En ég má gera ráð fyrir að geta farið á gönguskíði og ég má fara í fjallgöngur en verð bara að fara varlega þegar ég geng niður brekkurnar. Hjólreiðar eru ágætar en samt sér læknirinn ofsjónum yfir því slasaða fólki sem kemur á slysó eftir hjólreiðaslys.

Reyndar held ég að sem sárabætur fyrir þennan hlaupaúrskurð læknisins þá eigi ég að drífa í að fara að fá mér eitt hjól í viðbót - það er hvort sem er helst það sport sem ég get stundað!
Reyndar langar mig kannski meira í ultegra týpuna sem kostar 100 þúsund kall meira og er rautt og flott. Diskatýpan af þessu (105 grúppa með diskum) vil eg hins vegar síður því það er ljótara á litinn!


Síðan er til eðalflottur svartur fákur líka í GAP frá Cannondale. Þar er hins vegar 105 týpan skráð með 10 gíra kasssettu - og það hljómar of undarlega fyrir minn smekk til að vera valkostur.