Monday, October 31, 2011

Fellsmerkurferð í rigningu...

... með trjáflöskum, haustlaukum og skóflubroti einu all svakalegu


Verklegt skóflubrot

Rigning og súld var búið að lofa okkur en það átti að verða nokk þurrt fyrir hádegi á sunnudeginum. Það var haldið til Fellsmerkur. Veðurguðirnir sáu aumur á okkur og ráku okkur ekkert á fætur á sunnudagsmorgninum með brakandi blíðviðri. Það var vart hundi út sigandi. Enda við ekki með neinn hund. Sýndum samt að sjálfsögðu af okkur almenna kæti og settum flöskur yfir tré og Gunninn setti niður lauka. Tók heldur betur á því og braut eitt skipti skóflu í tvennt!

Vorum með spýtur í þak kamarkukhússins. Þær höfðu átt að vera sagaðar af Húsasmiðjunni í 240cm en það reyndust bara vera 230cm og þær því of stuttar. Meira spýtnabrak þarf til og lengd 240cm takk og alls breidd sem er eftir 96cm... svo svona einhverju sé haldið til haga. Og jú annars, það vantar eldspýtur í Fellsmörkina og uppkveikilög - en eitthvað til af kolum.

Thursday, October 13, 2011

Gruggugt?

Ármót Hafursár og Lambár

Ármót Lambár (vinstra megin) og Hafursár (hægra megin) á áreyrum neðan Fellsmerkur

Dálítið skondið, en ég komst að með krókaleiðum að Lambá, ein af miðlungslitlu ánum frá Mýrdalsjökli hafi þótt frekar gruggmikil núna í sumar og sést það ágætlega mynd sem ég tók í sumar þar sem Lambáin rennur í Hafursá en þær sameinast seinna Klifanda og renna svo saman til sjávar. Myndin hafði ekki verið mikið skoðuð á vefnum þangað og alls höfðu ekki nema um 10 kíkt á myndina þangað til í gær. Þá bættust 10 áhorf við og í dag eru þau komin yfir 40. Dálítið skondið finnst mér. Einhver hefur farið að skoða ána á vefnum!

Saturday, October 08, 2011

Grænland og fleira

From Greenland
Sit núna við og hamra ritgerð um jarðsögu Grænlands. Það er mart sem maður þarf að gera ef maður ætlar að vera að gera eitthvað allt annað en maður hefur verið að gera. Jarðsaga Grænlands er svona að verulegu leyti saga af gömlu grjóti og svo er þarna jökull. Það sem er kannski dálítið undarlegt til að hugsa er að elsta berg í Grænlandi er nær 4 milljarða ára gamalt. Núverandi ísaldarjökull fór að myndast á Grænlandi einhvern tíman síðustu 4-5 milljón árin. Þar á undan var bara þokkalega hlýtt á Grænlandi eins og annars staðar á jörðinni líklega heil 500 milljón á á undan og þá var Grænland líka allt annars staðar á jarðarkúlunni. Einhvers staðar nálægt miðbaug kannski en þó frekar fyrir sunnan miðbaug. Það hefur því ekki verið jökull á Grænlandi nema svona 0,1 til 0,2% af þeim tíma sem Grænland hefur verið til.

Byrjaði á að skoða elsta bergið á Grænlandi sem er í kringum Nuuk. Er ekki enn kominn að því bergi sem er á myndinni að ofan. Og raunar ekki alveg klár á því hvort það telst frekar til Ketilidian beltisins eða myndurnar sem er kennd við Garða. Sú fyrrnefnda er eitthvað nálægt 2 milljarða ára gömul en sú síðarnefnda ekki nema rétt rúmlega eins milljarðs ára. Það mun vera 100 sinnum eldra en elsta berg á Íslandi.

Það er kannski ekki erfitt að hugsa í svona miklum fjarlægðum í tíma en það er frekar mjög undarlegt!

Varðandi myndina að ofan þá man ég að sú jarðfræði sem ég kunni þá var öll frekar íslensk og öll einkennd af því að berg myndaðist fyrst og fremst í eldgosum. Þetta dularfulla X á myndinni ákvað ég þarna á staðnum að væru berggangar en skildi ekki alveg svo sem hvernig þeir gátu legið í svona X. Ég er reyndar enn alls ekki með á hreinu hvernig þetta hefur myndast en tel berggang frekar mjög ólíklegan.