Það var fullt tungl í vikunni og það var að vera komið miðnætti þegar ég ákvað að svefn væri einhver skammtímaánægja og miklu viturlegra að steðja út og ná myndum af tunglskini, norðurljósum og alls kyns. Þetta var reyndar eitthvað á ljósmyndakeppni.is sem ég sá að það væri góð norðurljósaspá og einn búinn að fara út og taka alveg edilons fínar myndir.
Ég fór af stað. Sá engin norðurljós en hélt áfram og sló ekki af fyrr en einhvers staðar á afleggjaranum upp að Skálafelli. Sá reyndar bara svartan himininn og hélt þetta yrði ekkert flott. En reyndar var tunglskinsbirtan alveg ágæt.
En svo byrjaði norðurljósabíóið og það var bara rúmlega ágætt. Myndin er hér að ofan. Glöggir geta líka séð þarna Karlsvagninn!
Svo hélt ég áfram til Þingvalla og ætlaði að fanga meiri ljósagang á Almannagjárbrún. Það var víst eitthvað búið að deyfa ljósin í sýningunni þannig að ég fékk ekki meira svoleis en það var ekki slæmt að mynda sjálfan mig sem tvípersónu og Orion sjálfan að fylgjast með öllu saman!
Og fréttir af Cesari
Cesar er merkilegt ökutæki eins og sumir hverjir vita en eitthvað er honum búið að vera íllt í maganum sínum síðustu vikurnar eða alveg síðan hann fékk þessa rosalegu vindverki og fretgang fyrir einum og hálfum mánuði. Helstu sérfræðingar Ingvars Helgasonar í bílalæknastétt kváðu upp sinn dauðadóm án þess að svo mikið sem líta á sjúklinginn. Hann er með alvarlega inníflasýkingu sögðu þeir og þarf að skipta flestum inníflunum meira og minna út. Líklega best áð kaupa bara nýtt inníflasett sem kostar eitthvað rúmlega milljónkall þegar það er komið í hann. Ekki leist mér nú mikið á það.Svo fann ég eitthvað gamalt úrsér gengið inníflasett sem átti ekki að kosta nema svona 200 þúsundkall. Veit ekki hvort mér leist nokkuð betur á það en loks ákvað ég að fara með hann á læknamiðstöðina í Kistufelli sem ku vera nokkuð úrræðagóð í svona málum. Þá allt í einu fóru sérfæðingarnir hjá honum Ingvari að muldar eitthvað um að þetta gæti nú bara verið í ábyrgð.
Þá kom heilt stórt humm frá mér en niðurstaðan varð sú að þetta væri ekki ábyrgðarverk því lögguvitleysingarnir sem áttu Cesar einu sinni hér í dentíð vildu ekki leyfa alminlegu verkstæði að gera við einhverja botnlangabólgu sem hann var einhvern tíman með. Gátu snillingar Ingvars þá ekkert gert fyrir mig og fór hann Cesarur við svo búið til Kistufellsins með aðstoð hennar Vöku. Nú, þeir tóku þennan dauðadóm ekki sérlega trúanlegan og prófuðu að bara setja Cesarinn í gang og viti menn, hann fór bara í gang og gekk alveg ágætlega. Reyndar þurfti að skipta um eitt og annað í maganum á honum og endaði reikningurinn yfir tvöhundruðþúsundkall... en hvað um það. Tvöhundruðþúsundkall er dálítið betra en milljónkall og það er gott að vera kominn á þann bláa gæðing aftur!
No comments:
Post a Comment