Og laufabrauðsbakstur
Jamms, föstudagur og í Fellmsörk skyldi haldið. Þar er lítill kofi kallaður hús og kenndur við mýs. Þar er alltaf gott að vera fyrir menn og jú... líklega mýs.
Þetta var annars sett þarna inn einhvern tíman en svo átti alltaf að setja einhvern texta inn en einhvern veginn er tíminn alltaf á hlaupum frá manni og maður bara hleypur ekki nógu hratt!
En sum sé. Það var farið austur í Fellsmörk. Eins og oft þá var komið myrkur þar austur frá. Ekki rigning eins og einu sinni þegar við lentum í hálfgerðum vandræðum á ónýtum slóðunum heldur smá svona snjófjúk. Þá vorum við líka bara á Ventó en ekki eins og núna á honum Cesurari. Hann iðaði í skinninu að sýna hvað í honum byggi. Það var bara spaugað með þetta þegar við komum að læknum þar sem vegurinn var í sundur.
Ég: "Líst þér eitthvað á þetta?"
HK: "Veit það ekki, hef aldrei komið hingað áður" - sem er bara bull því við vorum að grínast sko...
Og svo var bara látið vaða út í!
Það gekk auðvitað ljómandi vel því þetta var bara smá lækjarlæna sem lá þarna út frá jökulsánni. En við bara héldum áfram án þess að hafa of miklar áhyggjur af þessu. Nú er það svo að yfirleitt þegar maður ekur yfir á þá er það einhvers staðar þar sem vað er á ánni og einhver hefur lagt veg að ánni og metið það svo að á staðnum sem vaðið er þá sé gott að fara yfir. Og vaðið gjarnan skipulag þannig að hægt sé að aka niður undan straumi, úr hvorri áttinni sem maður er að koma! Þessu er ekki að heilsa þegar komið er að á sem hefur sópað einhverjum vegi í burtu.
Þetta var svo sem ekkert rosalega mikið vatn en hins vegar all nokkuð djúpt og góður straumur því breiddinni var ekki fyrir að fara þarna. En við út í. Fljótlegra sáum við þrjú, þ.e. ég sem var að stýra, Cesar sem var að keyra og HK sem veitti okkur báðum andlegan stuðning að þetta var allt saman eins og þetta á ekki að vera. Djúpur áll og þungur straumur sem flæddi upp á húdd. Frekar óhugnanlegt svona í niðamyrkri að sjá bílljósin lýsa í gegnum vatnið. En við þrjú tókum á honum stóra okkar og komumst yfir. Það rauk hressilega úr inniflum Cesars en hann hóstaði hvorki né stundi. En þar sem framhaldið var bara annar eins áll framundan þá var nokkuð auðveld ákvörðun að snúa bara við. Ferðin til baka yfir álinn djúpa gekk vel enda undan þungum straumi!
Nú. Maður gefst ekki svo auðveldlega upp eða hvað? Við fórum áfram eftir bakkanum og komumst framhjá þessi svæði sem áin rennur í vegarstæðinu. Þurftum bara að fara út í einn lítinn poll og svo komast upp á veginn og þá væri leiðin greið áfram. Við létum á þetta reyna. Reyndar var klaki yfir og ekki gott að finna bílinn sunka niður um ísinn en þetta var grunnt þannig að Cesar bara öslaði áfram. Svo fór hann að krafla sig upp á veginn og það gekk nú ekki nema bara svona og svona og endaði með þeim ósköpum að hann var kominn upp á farþegamegin en eitthvað ofaní polli (sem mér var seinna sagt að væri kviksyndisppollur) hægra megin. Hliðarhalli á að giska 45 gráður. Nú kom hin ágætasta setning frá HK: "Nú förum við ekki lengra, nú skulum við leita okkur aðstoðar".
Þó Fellsmörk sé ekki á fjöllum þá er þar ekki GSM samband og við þvi að arka af stað upp brekku og upp á hól til að komast í eitthvað samband. Bjargvætturinn er Sigurjón sem býr í Pétursey og hann kom þarna undir miðnættið á sínum eðal risa traktor með taug og allar grægjur. Var Cesar dreginn frekar lúpulega til baka og slapp þar með fyrir horn. Svo ókum við honum bara til baka þar sem öll ósköpin byrjuðu og parkeruðum honum þar. Gengum svo bara þessa nokkur hundruð metra sem við áttum eftir og komum okkur fyrir í kofanum. Einhverjar hugmyndir um að tjalda og vígja VE-25 fuku út í veður og vind og var sest að tafli og spilamennsku fram undir morgunn. Þá loks farið að sofa á meðan dagurinn sem sést á myndinni að ofan hóf innreið sína.