Heppinn að hafa ekki verið handtekinn
Kom seint í gærkveldi heim úr pílagrímsferð á Kárahnjúkasvæðið. Gekk upp með Jökulsá á Fljótsdal að austan verðu og niður með Kelduá að vestan verðu. Heimamenn myndu reyndar segja að sunnan og norðan en þeir eru alveg haugáttavilltir vil ég meina. Þetta var mikil pílagrímsferð og verður eiginlega að segjast eins og er að við fengum öll hálfgert sjokk við að sjá alla þessa fossa sem á að gelda vegna virkjanaframkvæmdanna.Við vorum annars að mestu leyti ein í heiminum þarna og engir mótmælaseggir nálægir fyrir utan okkur sjálf sem tókum nokkrar góðar rispur á Landsvirkjun þarna á staðnum.
Hugmynd sem annars fæddist þarna og hefði átt að vera til athugunar fyrir Landsvirkun er að sleppa að virkja Kelduánna og leyfa henni að vera í friði. Það hefði eitthvað minnkað endanlega virkjun en væntanlega ekki skipt neinum sköpum en hefði hugsanlega getað myndað einhverja sátt um framkvæmdina. Það er reyndar ekki of seint ennþá held ég að ákveða að sleppa þessum lónum, skurðum, stíflum og fossaeyðileggingum sem virkjun Kelduár hefur í för með sér.
Við fórum svo bara heim eftir göngutúrinn og grill þarna við ána. Ef það hefði verið einhver tími þá hefði ég viljað fara þangað sem mótmælin voru en líklega hefði ég þá endað í grjótinu á Egilsstöðum!
En kannski er öllum orðið alveg sama nema mér og mínum auk einhverra útlendinga.
Kirkjufoss, einn af þeim flottari:
Veistu hvað ég sá?
Fullt af fossum
með vatni
sem rennur
niður í sjó
Veistu hvað ég sá?
Fullt af vegum
og vélum
sem mala
möl og gull
en ekki fyrir mig.
Veistu hvað ég sá?
Fullt af fossum
með vatni
sem rennur
ekki meir.
No comments:
Post a Comment