Tuesday, November 19, 2024

Að vera með ADHD eða að vera ekki með ADHD

Ég eiginlega veit ekki alveg hvenær ég komst grjóthart á þá skoðun að ég væri með ADHD... kannski hef ég alltaf vitað það.

Ég hafði líklega mest grínast með það inni í hausnum á mér að ég væri með eitthvað ADHD en ekki alveg tekið sjálfan mig trúanlega með það. Einhvern veginn t.d. stóð ég í þeirri trú að fólk með ADHD hefði átt við námsörðugleika að stríða og verið svona krakkarnir sem voru aldrei til friðs í skólanum. Ég var hins vegar alltaf frekar rólega týpan... eða það fannst mér... og líklegast hef ég rétt fyrir mér í því. Svo var það konan sem var ráðherra sem uppljóstraði því að hún hefði verið greind með ADHD á fullorðinsárum og ég tengdi eitthvað aðeins meira við hana. Svo einhvern tíman var ég eitthvað að þvæælast á Instragram og skoða taggaðar myndir með introvertum sem ég taldi mig vera en sá að ég er alveg rosalega lítið alvöru introvert... reyndar ekkert endilega extróvert heldur. En þá bara BINGÓ það voru færslur taggaðar með ADHD og það var bara nokkurn veginn lýsing á sjálfum mér.

Einkenning svona nokkurn veginn þannig að ég tikka í boxið:

  • Rólega týpan í skóla sem fór dálítið lítið fyrir.
  • Gaurinn sem fór oft að gera eitthvað allt annað þegar hann átti að vera að gera eitthvað rosalega mikilvægt... eins og t.d. læra fyrir próf, þá voru bara teknar framköllunartarnir í myrkraherbergi eða ég fann einvherjar rosalega merkilegar bækur sem ég varð að lesa... eða þegar ég er að skrifa þetta þá eru tvö mjög mikilvæg verkefni sem ég þarf að klára á morgun... annað um hádegi og hitt um kvöldið... en nei ég er ekki að vinna það núna komið undir miðnætti.
  • Miklir hæfileikar og geta til að gera áætlanir og plön en gjörsamlega vonlaus að fara eftir þeim.
  • Með áætlanir og plön... þá verð ég að hafa plan þannig að eitthvað gerist en að ég geri það sem stendur á planinu það er ekki að fara að gerast.
  • Íbúðin mín eiginlega fullkomið mess.
  • Á alveg ofboðslega erfitt með að klára verkefni.
  • Fæ endalausar hugmyndir... a.m.k. fæ ég meira af hugmyndum en flestir held ég.
  • Tala annað hvort allt of mikið eða allt of lítið.
  • Á ekkert rosalega auðvelt með að vera kjurr.
  • Naga neglurnar og mun líklega aldrei geta hætt því.

Hyperfocus
En það fylgir þessu líka hyperfókus. Ef það er eitthvað sem á allan hugann þá kemst eiginlega ekkert annað að og ég get afkastað alveg óstjórnlega - eða það finnst mér a.m.k. sjálfum. Svona eins og ég er t.d. í núna að það ver verkefni sem hefur ekkert gengið í heilt ár og ég þarf að gera grein fyrir því um hádegi á morgun og e.t.v. þá næ ég hyperfocus í fyrramálið og geri þá allt sem gera þarf.

Og svo e.t.v það sem er eiginlega rosalegast að starfsferillinn minn gengur eiginlega út á ADHD líka. Það sem ég hef fengist við er að búa til skipulag annað hvort fyrir sjálfan mig eða fyrir aðra til að fara eftir.

Svo það sem fer kannski mest taugarnar á mér er að þegar ég impra eitthvað á þessu þá annað hvort fæ ég framan í mig að það séu allir með ADHD eða ég fæ spurninguna hvort ég ætli þá að fara að éta amfetamín.

Það stendur ekkert til að fara á nein lyf held ég úr þessu.

Svo hins vegar líka... a.m.k. tvisvar hef ég fengið hérumbil greiningu. Hjúkrunarfærðingur sem var að þælast í einhverri ferð sem ég var í... var alveg með það að hreinu að ég væri augljóslega með ADHG og önnur kona sem ég hef líka verið að þvælast með, þekkir ADHD úr sinni fjölskyldu, einvherjir með ADHD greiningu og segir að ég sé bara alveg eins og þeir sem eru með ADHD.

En ekki veit ég alveg af hverju ég er að skrifa þetta eða fyrir hverja eða hvern... líklega bara fyrir sjálfan mig.

Bouvet eyja



Facebook á það dálítið til að troða óumbeðnum upplýsingum upp á mann og það dúkkuðu upp hjá mér dálítið tilgangslausar upplýsingar um Bouvet eyju á suðurhveli, sem var sögð merkileg fyrir það að þar væri afskekktasti staður jarðarinnar. Ég veit ekki hvort það sé rétt en mér fannst annað merkilegra.

Þessi eyja sem er svo sem ekki stór eða um 50 ferkílómetrar eða 6x9 km að stærð, þá er hún á um 54°suðlægrar breiddar sem er talsvert nær miðbaug en Ísland. Raunar er eyjan staðsett á suðurhveli á sama stað og suður Danmörk. Eins og sést á Google Earth þá er eyjan nær algjörlega hulin jökli.

Ef við myndum „slökkva á“ Golfstraumnum – sem gæti gerst með þeim loftslagsbreytingum sem eiga sér stað… þá gæti Ísland endað hulin jökli eins og þessi eyja.

Ef við þurfum að flýja Ísland út af því að hylst jökli vegna umhverfisbreytinga, þá má kannski gera ráð fyrir að hagur þessarar eyjar vænkist og hún verði í staðinn íslaus, því eitthvert mun hitinn fara. Þarna er þá kannski fyrirheitna landið okkar. Eyjan er annars norsk og þá kannski snjallt að senda inn beiðni til Norska kóngsins að fá að vera þarna?!

Monday, November 11, 2024

Jón og njósnararnir

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns

Þetta er allt saman með dálitlum ólíkindum og á margan hátt hið einkennilegasta mál en það er samt ekkert þarna í fréttinni hjá Heimildinni, (hvað ég nennti að lesa hana) hjá Heimildinni sem kemur á óvart sérstaklega með Jón Gunnarsson.

Ég hélt að það hefði verið alveg augljóst að hann fór þarna inn í matvælaráðuneytið til að hefna sín á Vinstri grænum og alveg sérstaklega til hjálpa vini sínum Kristjáni Loftssyni að fara aftur að veiða hval. Hann var meira að segja búinn að lýsa því yfir sjálfur að hann ætlaði sér að gefa út leyfi til hvalveiða.

Það var í sömu fréttunum að Jón tæki þetta 5. sæti á lista og að hann myndi hætta á þingi til að fara að taka til í matvælaráðuneytinu. Það var því algjörlega augljóst hélt ég að þetta hékk allt saman saman. Það sem er hins vegar ótrúlegt er að Jón Gunnarsson sé það þekktur erlendis að ísraelskt njósnafyrirtæki hafi sett upp gerfifyrirtæki og sent hingað njósnara til að veiða upplýsingar upp úr syni hans. Til að gera þetta enn einkennilegra þá hófst allt saman áður en stjórnarslitin urðu og algjörlega ófyrirséð hélt ég að Jón Gunnarsson væri að fara þarna inn í matvælaráðuneytið sem var þá í höndum Vinstri grænna.

Það má líka velta fyrir sér hvernig fólk er að fara með trúnaðarupplýsingar. Sonur Jóns á varla að vita hvað fer á milli Jóns og einhverra innvígðra nema hann sé sjálfur þannig innvígður og hann á í öllu falli ekki að vera að gaspra um það við einhvern erlendan "viðskiptafélaga".

Spurningin vaknar svo eiginlega líka hvort eitthvað fleira svona sé í gangi. Ef Jón hefði ekki farið þarna inn í matvælaráðuneytið þá hefði þetta líklegast aldrei orðið frétt og Jón bara siglt í rólegheitum út úr pólítíkinni. Eru svona njósnir bara daglegt brauð en oftast verður ekkert úr neinu því ekkert krassandi kemur í ljós?!

Og það er alveg klárt í mínum huga að þeir sem settu upp þessa undarlegu fléttu til að plata soninn eru bara glæponar og þeir feðgar fórnarlömb glæponanna.