Thursday, January 26, 2023

Jarðarför

Erla Guðrún: 28. maí 1929 – 14. janúar 2023.

Það var hringt að morgni laugardags 14. janúar og í símanum var Kolla. Erla er dáin. Ég þá á leið í ferð sem leiðsögumaður út á Reykjanes og margt hugsað í þeirri ferð sem annars var hin ágætasta á alla lund.

Jarðarför á miðvikudegi 25. janúar frá Víðimýrarkirkju. Lítil og mjög sérstök fjölskylduathöfn í hinni afar litlu kirkju. Við fórum fimm saman á stóra jeppanum Ragnildar og Kristjáns: við systkinin, mamma og Ragnheiður sem kom frá Danmörku. Komum kvöldið áður og fórum í heimsókn til Hrafnhildar og gistum svo á hótelinu í Varmahlíð.

Þegar þau systkinin frá Syðra-Vallholti falla frá, þá er einhvern veginn eins og ekki bara hluti minnar sögu og ættar sögunnar heldur einhvern veginn á stærra samhengi líka. Erla var þvílíkt merkileg manneskja, sveitastelpa úr litlu koti í Skagafirði freistar gæfunnar í Bandaríkjunum og kemst vel áfram. Endar svo æfina aftur á heimaslóðunum.

Sérkennilegasti hluti útfararinnar fyrir mig var þegar verið var að bera kistuna út úr kirkjunni í lok athafnarinnar. Við bræður fengum það hlutverk en kirkjan er það þröng að það komast ekki nema tveir að bera á sitt hvorum endanum. Líklega varla pláss yfir handleggina á manni með hluðum kistunnar. Raunar hefur það gerst að kistan hafi verið of stór og þurft að saga af hankana eða hvernig sem því var bjargað. En við bræður vorum þarna með hana Erlu í fanginu út úr kirkjunni og með aðra útfarargesti til sitt hvorrar hliðar. Við bræður ef ég man rétt eitthvað lítillga laskaðir á sitt hvorri hliðinni en vorum svo öfugum megin við að bera kistuna áfram út í kirkjugarðinn.

Það sem ég síðan sá einhvers staðar, sem einhver skrifaði eða kannski bara sagði var að sá sem sat aftast í kirkjunni var eitthvað að hugsa um hvort það þyrfti ekki að opna dyrnar áður en við kæmum með kistuna aftur kirkjuganginn, þá, á óútskýrðan hátt fuku dyrnar upp. Hvort þar hafi sál Erlu verið að taka af skarið er eitthvað sem enginn veit.
----------------------
Færsla á Facebook

Thursday, January 19, 2023

Frost á Fróni

Reyndi að finna frosinn sjó til að mynda... Sá úr Smáraturni að Kópavogurinn virtist að mestu frosinn. Komst samt ekki þangað að mynda vegna umferðaröngþveitis. Fannst merkilegast að fjörur eru víða frosnar með botninum... einhvers konar grunnstingull sem ég þekki frekar úr ám.

Það er búið að vera frost og sjó hefur lagt en ekki þarna. Klaki hefur hins vegar myndast á botninum og hefur líklegast gerst vegna breytinga á sjávarstöðu á flóði og fjöru.

Af Facebook

Friday, January 13, 2023

Skíði á Hólmsheiði

Búinn að vera upptekinn annars vegar í vinnu og hins vegar að njóta vetrarins. Búinn að stunda Hólmsheiðarskíðasporið flesta daga. Fyrst núna í dag sem ég komst í einhverri birtu. Alltaf gaman en alveg helvíti napurt því það var vindgustur í frostinu núna.
Var annars að vígja nýjar gönguskíðabrækur en þær gömlu voru orðnar þannig að það var eiginlega bara hægt að nota þær í myrkri!

......

Af Facebook