Eitt og annað sem er gert í sumarfríinu. Mamman fór eitthvað að tala um gamlar filmur í gær og það varð til þess að rifjaðir voru upp gamlir taktar í myrkraherbergi. Ótrúlegt nokk að 30 ára gamall stækkari fór bara í gang eftir líklega um 20 ára notkunarleysi. Flest sem til þurfti fannst en svo reyndar fór stækkarinn að mylja einhver plasttannhjól en hvað um það... það tókst að búa til nokkrar myndir! Uppundir 100 ára gamlar myndir af mismunandi stórum filmum, runnu út á splunkunýan ILFORD ljósmyndapappír!
Komst reyndar að því að myrkraherbergisvinna er eitthvað dálítið eins og að hjóla. Ef maður hefur einu sinni lært þetta - almennilega þá gleymist það ekki svo glatt!
Wednesday, July 15, 2020
Tuesday, July 14, 2020
Heilsdagsmorgunganga ofan Fellsmerkur
10. júlí 2020
...... Sumarið 2020 er eitthvað frekar lauslega skipulagt. Hef ágætt sumarfrí en ekkert skipulag niðurneglt fyrirfram. Ef maður vinnur að mestu við skipulag þá er kannski best að hafa sumarfríið óskipulagt. En það var farið í Fellsmörk tvisvar með stuttu millibili og það seinna með þá gömlu með. Ég hafði svo bara daginn áður farið í fjallgöngukönnunarleiðangur á Stóra-Björnsfell með smá viðkomu við Langjökul hvar ég tók mynd af einum fossi meðal annars. Júlía í Fellsmörk stakk uppá að sá foss væri í Holtsá þannig að ég tók einhverja skyndiákvörðun um að rölta uppað fossi sem mig minnti að væri þar einhvers staðar nálægt. Í minningunni lítill foss í gljúfri og varla í Holtsá fannst mér. Eitthvað var minnið að svíkja mig því mér gekk ekki vel að finna fossinn þann og gekk næstum upp að Mýrdalsjökli. Hafði lagt af stað í stutta morgungöngu upp að þessum fossi um kl. 9 um morguninn eftir einn kaffibolla og hálfa dós af grískri jógúrt.Á niðurleiðinni meðfram ánni kom ég að þessum flotta fossi í sjálfri Holtsá. Dinglaði aðeins fótunum á bjargbrúninni en var svo sem ekkert í neinni sérstakri hættu að fljúga þar framaf. Flottur foss og kom á óvart fannst mér.
Svo líklega daginn eftir fór ég að skoða þetta eitthvað nánar og sá þá að þetta var auðvitað fossinn sem ég var að leita að en þegar ég hafði farið að honum áður hafði ég gengið upp með Holtsánni og bara fengið mátulega stuttan göngutúr þá. Núna hins vegar varð þetta eiginlega að dagsgöngu og ekki kominn til baka fyrr en um hálf fimm síðdegis. Hafði sem betur fer haft með mér bæði hádegismat og síðdegiskaffi. Raunar boðið uppá það sama á báða málsverði: Vatn og Snickers!
Monday, July 06, 2020
Ein mynd en tveir á flugi
Tveir sem hittust á flugi yfir Holtsá í Fellsmörk. Vissi reyndar ekki af spóanum fyrrn en ég fór að skoða myndirnar eftirá. Báðir sluppu frá þessu ómeiddir en spóar ku vera e.t.v. næst skæðastir í árásum á dróna, á eftir tjaldinum.
Subscribe to:
Posts (Atom)