Monday, July 08, 2019

Undarlegir dagar


Það var öðrum hvorum megin við páaskana sem mér varð eitthvað illt innan í mér. Líktist mest nýrnasteinum og því bara helvíti vont. Endaði á að fara til læknis og í nýrnamyndatöku en það kom bara ekkert út úr henni – þ.e. engir nýrnasteinar. Verkirnir minnkuðu svo hægt og rólega en var eitthvað verkjaður út af þessu líklega í heilan mánuð. Þar sem ekkert kom út úr nýrnamyndatökunni varð niðurstaðan sú að skoða meira og það er að fara að gerast núna á eftir. Miðað við aldur og fyrri störf var nefnilega talið rétt að ég færi í ristilspeglun.

Núna á hádegi mánudags er ég búinn að vera á fljótandi fæði frá því ég fór að sofa á föstudagskvöldinu. Reyndar dálítið flókið eða lélegar upplýsingar um hvað má. Engar mjólkurvörur en almennt allir drykkir en samt ekki með sterku litarefni. Veit ekki með Bora Bora eða Pina Colade te frá Te og Kaffi þar sem það er mjög litsterkt. Sleppti því held ég alveg eftir laugardaginn.

Svo á „síuð“ kjötsúpa að vera í lagi. Ekki neitt sem kom fram um hvernig hún ætti að vera síuð þannig að til að ég fengi eitthvað í kroppinn þá lét mér nægja að sigta hana. Þorði samt ekki að láta það eftir mér nema bara á laugardeginum. Ætlaði reyndar fyrst að setja hana í gegnum kaffifilter en sýndist að það kæmist ekki mikið í gegnum slíkan filter. Ég held annars að það væri alveg hægt að lifa eitthvað á svona sigtaðri kjötsúpu.

Svo mátti sjúga brjóstsykur og Opal eða slíkt. Ég held að ég hafi innbyrt meira og verra sælgæti síðustu tvo sólarhringana en ég hef gert í mörg ár. Eiginlega hreint ógeð. Svo ekki gott að mér sýnist að það sé ekki lengur seldur almennilegur brjóstsykur í poka. Það er bara eitthvað endalaust hlaupdrasl til. Lét það eiga sig.

Það mátti nota hunang til kaloríuinntöku og ég hugsanlega misnotaði það með að borða hunangið upp úr krukkunni.

En maður lifandi hvað ég hef áttað mig á því hvað ég er háður því að vera alltaf eitthvað að borða. Varð órólegur um leið og ég vaknaði á laugardeginum. Mátti ekki fá mér kaffi með mjólk útí og ekki brauðsneið með osti hvað þá eitthvað meira. Kaffi með hunangi gæti reyndar kannski vanist eitthvað.

Svo kl. 6 í gærkvöldi var settur af stað pípandi niðurgangur með inntöku á PICOPREP. Það virkaði eitthvað og núna er ég bara orðinn nokkuð vanur að sprauta með afturendanum í klósettið. Hef samt mestar áhyggjur af því að ég sé allt of skítugur ennþá þarna inni í mér til að hægt sé að skoða mig almennilega að innan. Núna er svo hafin tveggja tíma fasta fyrir herlegheitin.

En það kemur bráðlega í ljós.

Vona síðan bara að það fari ekki að koma eitthvað vont í ljós í þessu hjá mér... eða samt kannski að ef eitthvað er að þá komi það í ljós.

En ég er nú annars bara góður!



Uppfært
Þetta gekk alveg hreint ljómandi vel. Ekkert vont sást og fékk ekki nein kæruleysislyf og gat því bara keyrt heim strax á eftir. Núna, líklega rúmum hálftíma eftir að ég kom heim er búið að innbyrða AB mjólk tveggja lita með eðalmúsí, brauðseniðar með þykkum osti, kaffi með mjólk og súkkulaðikex. Líklega er ég mataristi - er a.m.k. frekar háður mat!

Það má annars færa til bókar að það að sjá svona inn í sig er með því undarlegra sem ég hef gert og þetta var alveg ótrúlega lítið óþægilegt. Þeir sem eru ekki mikið fyrir dóp ættu að prófa að sleppa kæruleysis sprautunni!

No comments: