Sunday, July 28, 2019

Kannski hver veit...

... byrjun á einhverju nýju eða ekki neitt

Það eru einhver ár síðan og bæði axlarbrot og svæsið fótbrot búið að bætast í reynslubankann en það er spurningin með það hvort maður eigi að láta verða af því að fara í Landvættaverkefni næsta vetur. Ég ætti auðvitað ekki að hugsa um þetta einu sinni með fyrirmæli læknis um að ég megi ekki hlaupa. En það telur kannski ekkert alveg ef það er verið að hlaupa á mjúku undirlagi og ef það er verið að hlaupa nógu hægt.

Það sem ég gerði núna í dag er samt kannski fyrsta æfingin fyrir þetta hjá mér. Ég fór af stað að hlaupa og hljóp hluta af Jaðrinum. Reyndar ekki alveg þeim sem ég hef verið að hjóla þar sem ég fór einhverja nyrðri leið sem var hundleiðinleg, meira notuð af mótorhjólum en reiðhjólum, frekar grófur malarslóði að hluta til þar sem ekki var gott að hlaupa. Meðalhraðinn var ágætur til að byrja með á minn mælikvarða, eitthvað milli 9 og 10km/klst en datt svo alveg niður þegar færðin versnaði og endaði í 8.0 km/klst. En þannig hraði dugar samt alveg í það sem þarf að hlaupa í Landvættahlaupinu þó það sé auðvitað talsvert lengra. Ég hljóp ekki nema rúma 12 km en í Jökulsárgljúfrahlaupinu er hlaupið held ég 32 km. Tímamörk 5 klst þannig að með að hlaupa á 8 km/klst meðalhraða væri maður bara góður.

Það var rigning eins og mætti ætla af myndinni að ofan þó droparnir á henni séu reyndar feik. Svo fékk ég hælsæri. Utanvegahlaupaskórnir mínir sem reyndar eru eðal-góðir á flestan hátt virðast spæna upp á mér hælana ef ég fer ekki þeim mun varlegar.

......

Smá update:
Eftir að hafa skoðað þetta eitthvað meira þá held ég að þetta sé alveg rakið fyrir mig. Hlýt eiginlega að klára mig ágætlega af þessu og tilvalið að fara í þetta með mínu fólki í FÍ.
Líklega ætti ég að hafa mestar áhyggjur af skíðagöngunni þar sem ég er þvilíkur skussi í brekkum á brautargönguskíðunum!

....

Monday, July 08, 2019

WOW Cyclothon fyrir um 10 dögum

Heldur betur peppaður einhvers staðar á Suðurlandinu

Það var ákveðið að fara WOW með Deloitte. Ekki eins og fyrir tveimur árum þegar mér var boðið með tveggja daga fyrirvara. Núna fékk ég alveg mína tvo mánuði og rúmlega það. Enda var ég í eitthvað betra hjólaformi en þá þó það hafi nú ekki verið neitt framúrskarandi.

Undirbúningurinn var ekkert of mikill hjá liðinu. Það voru bara tvær sameiginlegar æfingar hjá okkur og eitthvað mjög illa gekk líka að ná liðinu saman. Það var samt komið eitthvað sem átti að vera endanlegt lið um tveimur vikum fyrir keppnina. það var hins vegar ætunin að hjóla líka með Deloitte NSE, með lið frá Newcastle. Það var þá ein þaðan, Anna Oswald, sem ætlaði að koma með okkur en þegar á reyndi voru forföll íu breska liðinu og þau þóttu ekkert geta hjólað, með vonlaust skipulag og endaði það með að Anna færðist yfir til þeirra aftur.

Halla og líklega Liam að gera sig klár í næsta sprett

Meginmarkmiðið í mínu huga var að við kæmum öll heil heim og að það yrði gaman. Það gekk ljómandi vel eftir. Einu notin fyrir sjúkrakittið mitt var að vefja stýri þar sem stýrisvafningar höfðu losnað. Stemmarinn í mínum hópi var alveg eðal allan tímann. Hefði kannski mátt vera eitthvað meiri keppnisaksjón á köflum en var nú samt alveg í góðu lagi held ég.

Ég reyndar eins og venjulega að drepast úr tímaskorti hitti liðið norðan Hvalfjarðarganga en þar skildi ég þá bílinn minn eftir.

Patrick að hefja (eða ljúka við) einn legginn á Möðrudalsöræfum

Það var gaman og lærdómsríkt að hjóla með Bretunum. Við vorum fimm í mínum hluta íslenska liðsins en bretarnir voru bara fjórir að hjóla með einn að auki sem var bara að keyra. skipulagið varð því þannig að við fengum alltaf nýjan hjólara í hvert skipti. Að mestu héldum við saman nema uppi á Holtavörðuheiði þar sem ég hjólaði einn á undan þeim í mjög hvössum hliðarvindi. Gamli fjallakallinn lét vindinn ekkert of mikið á sig fá og hjólaði bara í rólegheitunum með hjólið næstum á hlið. Bretarnir og líklega fleiri lið sem voru á svipuðum slóðum voru í skjóli af bílum til að komast þarna niður af Holtavörðuheiðinni.

Við fimm í íslenska liðinu vorum ekkert mjög ójöfn og að meðaltali hraðari en hinn hluti íslenska liðsins þar sem samt Heimir sá hraðasti okkar allra var. Sama mátti segja um bretana, þeir voru allir hraðir sem voru með okkur og tveir þeirra talsvert hraðari en ég - eða það fannst mér. Eftir á var e.t.v. best að hjóla með þeim en samt var engin sérstök tilhlökkun að hjóla með Patrick á meðan á því stóð en eftir á var það æðislegt. Náði almennt alltaf að skiptast á að drafta með honum. Eftir á þá sýnist mér að ég hafi verið með mesta meðalhraðann af íslendingunum - öllum. Heimir hins vegar hjólaði mikið meira en ég og reyndar var hinn hlutinn fyrir bæði lönd þannig að liðsmenn hjóluðu mjög mismunandi mikið. Í mínum hluta þá var þessu þanig séð alveg jafnt skipt.

Skráður tími á báðum liðum var 49:09.

Sameinað lið Deloitte á íslandi og UK liðið frá Deloitte NSE

Undarlegir dagar


Það var öðrum hvorum megin við páaskana sem mér varð eitthvað illt innan í mér. Líktist mest nýrnasteinum og því bara helvíti vont. Endaði á að fara til læknis og í nýrnamyndatöku en það kom bara ekkert út úr henni – þ.e. engir nýrnasteinar. Verkirnir minnkuðu svo hægt og rólega en var eitthvað verkjaður út af þessu líklega í heilan mánuð. Þar sem ekkert kom út úr nýrnamyndatökunni varð niðurstaðan sú að skoða meira og það er að fara að gerast núna á eftir. Miðað við aldur og fyrri störf var nefnilega talið rétt að ég færi í ristilspeglun.

Núna á hádegi mánudags er ég búinn að vera á fljótandi fæði frá því ég fór að sofa á föstudagskvöldinu. Reyndar dálítið flókið eða lélegar upplýsingar um hvað má. Engar mjólkurvörur en almennt allir drykkir en samt ekki með sterku litarefni. Veit ekki með Bora Bora eða Pina Colade te frá Te og Kaffi þar sem það er mjög litsterkt. Sleppti því held ég alveg eftir laugardaginn.

Svo á „síuð“ kjötsúpa að vera í lagi. Ekki neitt sem kom fram um hvernig hún ætti að vera síuð þannig að til að ég fengi eitthvað í kroppinn þá lét mér nægja að sigta hana. Þorði samt ekki að láta það eftir mér nema bara á laugardeginum. Ætlaði reyndar fyrst að setja hana í gegnum kaffifilter en sýndist að það kæmist ekki mikið í gegnum slíkan filter. Ég held annars að það væri alveg hægt að lifa eitthvað á svona sigtaðri kjötsúpu.

Svo mátti sjúga brjóstsykur og Opal eða slíkt. Ég held að ég hafi innbyrt meira og verra sælgæti síðustu tvo sólarhringana en ég hef gert í mörg ár. Eiginlega hreint ógeð. Svo ekki gott að mér sýnist að það sé ekki lengur seldur almennilegur brjóstsykur í poka. Það er bara eitthvað endalaust hlaupdrasl til. Lét það eiga sig.

Það mátti nota hunang til kaloríuinntöku og ég hugsanlega misnotaði það með að borða hunangið upp úr krukkunni.

En maður lifandi hvað ég hef áttað mig á því hvað ég er háður því að vera alltaf eitthvað að borða. Varð órólegur um leið og ég vaknaði á laugardeginum. Mátti ekki fá mér kaffi með mjólk útí og ekki brauðsneið með osti hvað þá eitthvað meira. Kaffi með hunangi gæti reyndar kannski vanist eitthvað.

Svo kl. 6 í gærkvöldi var settur af stað pípandi niðurgangur með inntöku á PICOPREP. Það virkaði eitthvað og núna er ég bara orðinn nokkuð vanur að sprauta með afturendanum í klósettið. Hef samt mestar áhyggjur af því að ég sé allt of skítugur ennþá þarna inni í mér til að hægt sé að skoða mig almennilega að innan. Núna er svo hafin tveggja tíma fasta fyrir herlegheitin.

En það kemur bráðlega í ljós.

Vona síðan bara að það fari ekki að koma eitthvað vont í ljós í þessu hjá mér... eða samt kannski að ef eitthvað er að þá komi það í ljós.

En ég er nú annars bara góður!



Uppfært
Þetta gekk alveg hreint ljómandi vel. Ekkert vont sást og fékk ekki nein kæruleysislyf og gat því bara keyrt heim strax á eftir. Núna, líklega rúmum hálftíma eftir að ég kom heim er búið að innbyrða AB mjólk tveggja lita með eðalmúsí, brauðseniðar með þykkum osti, kaffi með mjólk og súkkulaðikex. Líklega er ég mataristi - er a.m.k. frekar háður mat!

Það má annars færa til bókar að það að sjá svona inn í sig er með því undarlegra sem ég hef gert og þetta var alveg ótrúlega lítið óþægilegt. Þeir sem eru ekki mikið fyrir dóp ættu að prófa að sleppa kæruleysis sprautunni!