Wednesday, January 24, 2018

Og nýr... gamall bíll... reyndar frá því fyrir áramót !

Mér bárust ekki góðar fréttir frá fúlu bílaverkstæði rétt fyrir jólin. Fagri-Blakkur var víst bara fagur á ytra byrðinu en hið innra var hann að verða ryði að bráð. Skil reyndar ekki annað en að það hafi verið brögð í tafli þegar hann fór án slíkra athugasemda í gegnum skoðun rétt áður en ég keypti hann vorið 2016 og líklega verður hann að teljast verstu bílakaup mín til þessa. En hann samt kostaði ekki nein ósköp þannig að ég verð nú ekki neitt gjaldþrota út af þessu.

Enda var það svo að eftir að hafa eitthvað skoðað og eiginlgea bara mjög lítið og hafa ætlað að kaupa eitthvað allt annað þá varð ég líklegast á öðrum degi milli jóla og nýárs, orðinn eigandi V6 Suzuki Grand Vitara. Og vonandi ekki að drepast úr ryði þar sem seljandinn var Ryðvarnarskálinn. Hann fær að heyra það Jón Ragnarsson ef bíllinn verður ónýtur af ryði eftir eitt til tvö ár. Annars hef ég tröllatrú á Jóni þar sem ég ætlaði fyrst að kaupa allt annan bíl hjá honum en hann fullvissaði mig um að sá bíll væri ekki góður til að eiga eða nota!

Þessi súkka annars er held ég í alvörunni alveg eðal. Er komin yfir fermingaraldur en ekki komin með bílpróf og ekin miðað við það. En hún er samt dálítið eins og ný finnst mér og af svona súkkum sem ég hef prófað þá er þetta sú lang besta. Alveg draumur í dós að keyra hana!



Svo var farið til Fellsmerkur um helgina eins og sést af þessari mynd. Hafði ekki komist þangað síðan í ágúst. Eiginlega of mikið að gera í vinnu til að fara þangað!

No comments: