Thursday, January 25, 2018

Sakramentið þegar ég uppgötvaði nýtt uppáhalds

Ég held að ég hafi aldrei áður lesið neitt eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Skoðaði einhvern tímann fyrir langalöngu eitthvað eftir hann en komst að því að bækurnar hans væru ekkert að höfða til mín. Fólk með svipaðan bókasmekk og ég var ekkert að fíla bækurnar hans. Svo var eitthvað, umfjöllun í Kiljunni eða eitthvað sem sagði mér að bókin "Sakramentið" sem kom út fyrir síðustu jól væri eitthvað sem ég gæti lesið. Ætlaði að gefa hana í jólagjöf fyrst en ekkert varð af því. Sat uppi með eintak sem ég hafði kannski ætlað mér að skipta fyrir mat úr Bónus - en þar sem ég kom því ekki í verk og enda ekkert að farast úr peninga eða matarleysi þá dagaði hún uppi hjá mér. Byrjaði að lesa hana síðasta laugardag í Fellsmörk og að vissu leyti fór lífið að snúast um þessa bók.

Er núna búinn að skoða eitthvað meira bókadóma um hana svona professional dóma og þeir eru allir mjög jákvæðir en samt þannig að bólkinni er lýst út og suður.

Sumir fjalla um hana sem glæpasögu og vissulega er það rétt það er í bókinni ofbeldi, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt sem verið er að rannsaka og eftir allt þá er líka morð í bókinni og að auki sjálfsmorð. Drifkrafturinn í sögunni er samt alls ekki það að einhver glæpur hafi verið framin. Í einhverri vanhugsaðri umfjöllun um bókina kom fram hver var drepinn eða dó og það hefði skemmt upplifun lestarins mikið að vita um það fyrirfram.

Flestir fjalla um bókina a.m.k. líka sem einhvers konar ádeilu á kaþólsku kirkjuna á Íslandi og það sem hefur komið í ljós með ofbeldi gagnvart nemendum skólans í Landakoti. Einhvers staðar las ég að sá vinkill bókarinnar myndi koma við marga eða eitthvað slíkt. Veit ekki með aðra en það kom ekkert sérstakega við mig hvað kaþólska kirkjan hefur gert enda hefur það verið almennt fréttaefni síðustu ár.

En það var a.m.k. einn gagnrýnandi sem fannst þungamiðja bókarinnar vera persónusköpun systur Jóhönnu, samkynhneigðrar franskrar nunnu og hvernig fordómar kirkjunnar og eiginlega frekar kristninnar bönnuðu henni að vera hún sjálf. Leit hennar að sannleikanum þar sem mikilvægasti sannleikurinn var ekki hver hafði framið hvaða glæp heldur hvers konar lífi hún sjálf hafði lifað og hvort hún hefði verið elskuð eða ekki. Afleiðingar þess að standa ekki alltaf með sjálfri sér og vera föst í fordómum annarra.

Hvað sem öllu líður þá varð þessi bók strax á upphafssíðunum ein af mínum uppáhalds. Endirinn varð einhvern veginn samt hálf snubbóttur. Ekkert ósáttur við hvernig bókin endaði og hvernig lá í hlutunum og líklega hefði sagan aldrei gengið upp nema á þann hátt sem henni lauk en einhvern veginn vantaði samt eitthvað fannst mér.

Ef ég hefði ekki vitað hver skrifaði bókina, hefði mér aldrei dottið annað í hug en að kona hefði skrifað þessa bók. Þannig er maður nú forpokaður þó maður þykist vera eitthvað annað!

Læt svo fylgja með mynd af kirkjunni á Landakoti, mynd sem ég tók fyrir... gvöð hjálpi mér... eitthvað um 14 árum!


Svo maður bæti við eigin hugrenningar. Þessi mynd mynnir mig alltaf dálítið á mikið flottari mynd sem mig minnir framhaldsskólanemi sýndi í Ásmundarsal fyrir meira en 30 árum undir nafninu ragsi sem var sett á hana án þess að hún fengi nokkru um það ráðið. Ætli hún hafi ekki orðið neinn ljósmyndari? Hún var a.m.k. með bestu myndirnar þar en einhverjir aðrir sýnendur hafa unnið hálfa æfina sem atvinnuljósmyndarar.

Ætli mér finnist Vetrarborgin vera lélegasta bók Arnarldar?

Ég ætlaði annars aðallega að blogga um eitthvað sem ég var að lesa og þá er það fyrst vetrarborgin hans Arnaldar. Byrjaði að lesa hana í vinnuferð til Stokkhólms í líklega þar síðustu viku.

Verð að játa að ég held að mér hafi ekki fundist jafn lítil til koma nokkurrar annarrar bókar frá Arnaldi sem ég hef lesið. Sumt gekk ekkert upp í bóikinni eins og að börn hafi verið týnd í heilan dag eða meira án þess að það væru kallaðar út björgunarsveitir til að leita að þeimn - og svo fannst sá týndi í öskutunnugeymslunni heima hjá sér. Það hefði einhver með snefil af leitartækniþekkingu átt að vera búinn að leita þar.

Svo var glæpurinn óttalegt hnoð og leystist dálítið afþvíbara fannst mér og morðið svona eiginlega líka eitthvað afþvíbara.

Sterkasti punkturinn var hliðarsaga um einhvern ógæfumann sem kom svo sem meginsögunni ekkert við.

Þar sem þetta er ekkert opinber bókadómur þá get ég alveg sagt að mér fannst þessi saga vera óttalegt prump!

Wednesday, January 24, 2018

Og nýr... gamall bíll... reyndar frá því fyrir áramót !

Mér bárust ekki góðar fréttir frá fúlu bílaverkstæði rétt fyrir jólin. Fagri-Blakkur var víst bara fagur á ytra byrðinu en hið innra var hann að verða ryði að bráð. Skil reyndar ekki annað en að það hafi verið brögð í tafli þegar hann fór án slíkra athugasemda í gegnum skoðun rétt áður en ég keypti hann vorið 2016 og líklega verður hann að teljast verstu bílakaup mín til þessa. En hann samt kostaði ekki nein ósköp þannig að ég verð nú ekki neitt gjaldþrota út af þessu.

Enda var það svo að eftir að hafa eitthvað skoðað og eiginlgea bara mjög lítið og hafa ætlað að kaupa eitthvað allt annað þá varð ég líklegast á öðrum degi milli jóla og nýárs, orðinn eigandi V6 Suzuki Grand Vitara. Og vonandi ekki að drepast úr ryði þar sem seljandinn var Ryðvarnarskálinn. Hann fær að heyra það Jón Ragnarsson ef bíllinn verður ónýtur af ryði eftir eitt til tvö ár. Annars hef ég tröllatrú á Jóni þar sem ég ætlaði fyrst að kaupa allt annan bíl hjá honum en hann fullvissaði mig um að sá bíll væri ekki góður til að eiga eða nota!

Þessi súkka annars er held ég í alvörunni alveg eðal. Er komin yfir fermingaraldur en ekki komin með bílpróf og ekin miðað við það. En hún er samt dálítið eins og ný finnst mér og af svona súkkum sem ég hef prófað þá er þetta sú lang besta. Alveg draumur í dós að keyra hana!



Svo var farið til Fellsmerkur um helgina eins og sést af þessari mynd. Hafði ekki komist þangað síðan í ágúst. Eiginlega of mikið að gera í vinnu til að fara þangað!

Ný skíði á nýju ári

Það er víst komið 2018 og fyrst mánuðurinn langt kominn. Best að halda einhverju til haga eins og stundum áður!


Ætli það sé ekki á þriðju viku að ég verslaði mér ný gönguskíði - svona af því að ég átti innleggsnótur og mig hafði langað í brautarskíði í mörg ár. Hafði ekki neinn aur fyrir einu eða tveimur árum - eða taldi mig a.m.k. ekki hafa nægan aur en núna vella peningar út úr eyrunum á mér má næstum segja. Það var a.m.k. hægt að kaupa ný skíði.

Þetta var laugardag þá fyrir tveimur helgum og það var farið í skjóli myrkurs í Bláfjöll til að prófa. Þessi skíðaprik runnu alveg óskaplega verð ég að játa eða eiginlega frekar alveg óstjórnlega. Reyndar aðallega áfram á meðan verið var í braut en í einhverjum brekkum sem ég hafði ekki áttað mig á að væru á þessu svæði í Bláfjöllum þá tók ég á það ráð að fara út úr brautinni til að tempra hraðann. Meðalhraðinn þrátt fyrir þær hrakfarir milli 8 og 9 km/klst er held ég allt í lagi ef ég miða við hvað ég sé frá öðrum þarna á Strava.

Svo kom skítviðristíð, ég þurfti til útlanda og svo var allt of mikið að gera í vinnunni til að komast á nein skíði í síðustu viku - en sjáum hvað setur. Setti annars í gærkvöldi persónulegt hraðamet á gömlu riffluðu stálkantaskíðunum á ísaðri grjótbraut á útsporuðum göngustígum Heiðmerkurinnar.