Monday, December 07, 2015

Er verið að spá vondu veðri

Versta veðurspá í áratugi?


Það er farið mikinn því von er á versta veðri síðan 1991 segja veðurfræðingar sem ljúga ekki - eða hvað? Kortið að ofan sýnir ástandið líklega þegar veðrið á að vera hvað verst og það er vont en samt kannski ekki alveg eins vont og talað er um.

Það er vissulega gert ráð fyrir rosalegum vindi á suðurlandi sem sést líka á næsta korti. Þ.e. gera má ráð fyrir vindhraða um eða yfir 40m/s undir Eyjafjöllum. En það er svipað og mig minnir að hafi orðið í febrúar síðasta vetur.


Það er hins vegar helst verið að bera þetta veður saman við veður sem varð 1991 sem er mesta rok sem ég man eftir í Reykjavík. Þá fauk margt. Tré rifnuðu upp, svalir fuku af húsum og einhverjir bílar eflaust fuku þó hið eiginlega Engihjallaveður hafi líklega verið 10 árum fyrr. En ef skoðað er hvernig spáin er fyrir hana Reykjavík núna þá sýnist mér að Reykjavík muni að mestu leyti sleppa við versta veðrið.

Þ.e. fer mest í um 20m/s í stærstum hluta Reykjavíkur. Ég myndi því ekki gera ráð fyrir neinu neyðarástandi í bænum. En það verður hins vegar hvassara á Kjalarnesi - en fólk þar er vant mun meiri vindi en í hinni upphaflegu Reykjavík.

No comments: