Saturday, February 04, 2023

Játningin

... eftir Ólaf Jóhann Ólafsson

Mín játning er eiginlega bara sú að ég ákvað um áramótin að lesa a.m.k. eina almennilega bók fyrir hvern mánuð ársins 2023. Það hefði átt að vera auðvelt í janúar þar sem ég gaf sjálfum mér þá bók í jólagjöf frá síðasta jólabókaflóði sem mig langaði mest til að lesa. Það var Játningin efrir Ólaf Jóhann Ólafsson.

það gerðist einhvern veginn alveg óvart að ég fór að lesa bækur eftir Ólaf Jóhann. Fyrir margtlöngu þegar hann var að byrja að skrifa bækur þá fundust mér þær ofmetnar og óáhugaverðar þó ég hefði í raun aldrei lesið neina þeirra. það var bara fólk sem ég taldi vera með svipaðan bókmenntasmekk og ég, sem lýsti bókunum hans sem frekar óháugaverðum. Svo einvhern tímann fyrir ekkert mörgum árum var mér eitthvað sagt frá einnig bók eftir hann og þá bók las ég og ætli það hafi ekki verið Sakramentið sem kom út 2017. Síðan hef ég líklegast lesið hverja einustu bók eftir hann.

En um Játninguna þá var ég eitthvað lengi að komast inn í bókina og það var ekki fyrr en í flugvél á leið til Kaupmannahafnar á síðasta degi janúarmánaðar sem ég byrjaði eitthvað að lesa. Ég laut lestrarins í botn og lesturinn bjó til hauga af hugrenningartengslum hjá sjálfum mér. Bæði var það að bókin gerist í Austur-Evrópu og er um fólk þar á 9. áratugnun, rétt nokkrum árum áður en ég var að þvælast í Prag sumarið 1990 og svo í Berlín 1991. Aðalpersónan gerði það sem ég gerði ekki, að læra ljósmyndun þannig að hausinn á mér var eiginlega kominn einhver rúm 30 ár afturábak. Ég var svona næstum farinn að finna lyktina af framköllunarvökvanum þegar ljósmyndarinn í bókinni var að framkalla filmurnar sínar og hugurinn einnig kominn í Austur-Berlín sem ég náði í skottið á, nokkurn veginn síðustu daga þeirrar borgar.

Bókin vel skrifuð fannst mér og gerðist á mörgum tímum eins og bækur Ólafs gera yfirleitt. Hún var spennandi en í endann þá leystist spennan ekkert alveg og eiginlega þá getur maður alveg áfram haft sögupersónurnar í hausnum á sér og velt því fyrir sér hvað hafi svo orðið um þær.

Það sem svona helst truflaði mig í gegnum bókina að sumt sem sumir gerðu var einvhern veginn svo mikið á skjön við það sem eitthvað vit væri að gera að það eiginlega eyðilagði skynsemina í bókinni. En það var líklegast sú persóna bókarinnar sem - kannski sem betur fer - ég tengdi ekki endanlega við.