Saturday, October 22, 2022

Gígur í Hafnarfjalli


Drónamynd af "gígnum". Skarðsheiðin í bakgrunni og til að skynja stærð fyrirbærisins þá ætti að vera hægt að sjá fólk innan barmanna neðarlega til vinstri á myndinni - er svo smátt að það þarf að smella á myndina til að fá það fram.

Fór í áhugaverða göngu í dag með Þrautseigum Léttfeta FÍ, að sérkennilegri gígmyndun í Hrossatungum austan Hafnardals í Hafnarfjalli. Var með dróna með og veit um einhverja sem vilja sjá myndirnar.

Jarðfræðifyrirbrigði sjást oft ekki almennilega nema úr lofti eða jafnvel utan úr geimnum. Þegar við vorum inni í gígskálinni þá var þetta bara einhvers konar dalkvos og ekkert endilega neitt svo sérstök. En með því að lyfta sér aðeins upp þá kemur þessi sérkennilegi gígur - sem þó er eiginlega alls ekki gígur - betur í ljós.

Það sem e.t.v. er merkilegast við þessa jarðfræðilegu myndun er kannski hvað það hafa verið lagðar fram ótrúlega fjarstæðukenndar tillögur um þessa myndun. Það sem var ótrúlegast sem ég hef séð er að þetta sé myndað á jökulskeiði fyrir um 100 þúsund árum og þar var þessu lýst fannst mér, eins og myndun á móbergsstapa því eldgosið hafi náð uppúr jöklinu. Eitthvað þykist ég vita um móbergsstapa en sá ekki neitt af því sem ég á að geta séð í móbergsstapa. Nálægt dæmi reyndar um mjög jökulsorfinn móbergssapa eru Botnssúlurnar og það er ekki mikið líkt með Botnssúlum finnst mér og þessum hrygg þarna í Hrossatungum með þessari sérkennilegu hringmyndun.

Um aldur Hafnarfjallsmegineldstöðvarinnar er það að segja að svæðið hafi verið virkt fyrir 4-6 milljón árum síðan og að megineldstöðin hafi verið að byggjast upp seinni hluta þess tímabils. Þessi hringmyndun er beint yfir miðju Hrossatungu-innskotsins sem er gabbró og þetta hefur þá í doktorsritgerð Hjalta Franzsonar verið talið vera einhvers konar keilugangainnskot þaðan - eða innskot sem varð einvhern veginn svona sívalningslagað. Gabbró innskotið kennt við Hrossatungur er þar talið með því síðasta sem gerðist í eldvirkni Hafnarfjallseldstöðvarinnar og er tengt við öfugt segulmagnað berg frá segulskeiði Nunivak 4.33-4.09 milljón ára gamalt. Hringinnskotið er hins vegar dólerít, þ.e. basísk kvika sem hefur storknað talsvert hraða en það er er í Gabbró innskotinu en allt saman sambærileg efnasamsetning og venjulegt basalt. Hvort að þetta innskot hafi náð til yfirborðs svæðisins fyrir rúmum 4 milljón árum síðan held ég að sé ómögulegt um að segja en þar sem líklega fæst innskot verða að eldgosi – þá finnst mér það ólíklegra en hitt. Varðandi það að þetta sé myndað í móbergi þá reyndar skoðaði ég ekki bergið þarna í kring þannig að ég get ekki sagt mikið um það en ég tel það ekkert allt of líklegt að það sé móberg. Ef innskotið er meira en 4 milljón ára gamalt þá er bergið sem það gekk i gegnum ennþá eldra en það eru almennt ekki til mikil gögn um jöklunarskeið á Íslandi. Það elsta sem ég hef séð er um 4 milljón ára gamal. Móberg getur hins vegar auðvitað vel myndast í vatni almennt og þarna á svæðinu hefur verið staðsett stærðarininar öskjuvatn í Hrossatungum og þar norður af. Á þeim jarðfræðikortum sem ég hef séð þá er samt ekki merkt móberg þarna neins staðar sérstaklega en það kann líka að stafa af því að þar var verið að greina meira storkubergið sjálft en móbergið. Það að þarna á óvirku svæði um 4 milljón ár, hefði verið eldgos við upphaf síðasta jökulskeiðs væru stórtíðindi í jarðfræði Íslands!

Kenningin um að þetta sé gígur eftir loftstein stenst síðan ekki á neinn hátt þar sem þá ættu að vera þarna steindir sem myndast við háan þrýsting en eru ekki. Eins þá eru veggir innskotsins lárétt stuðlaðir sem bendir eindregið til þess að þetta hafi storknað eins og það er og væntanlega ofan í jörðinni.

Varðandi gosgíginn aftur að þá eru gosgígarnir yfirleitt byggðir upp af gjalli sem getur svo harðnað saman en myndi held ég aldrei fá útlit eins og þessi gígmyndun í Hrossatungum er. Um hvort það megi telja þetta gíg, þá út frá því að orðið gígur sé ekki endilega tengt eldgosi heldur frekar útliti fyrirbærisins á stærri skala – sem er þá einhvers konar hola eða dæld og með einhverjum börmum helst – þá er þetta hikstalaust gígur. Og það sem ég er að skrifa hér er að mestu byggt á rannsóknum Hjalta Franzsonar sem skrifaði doktorsritgerð um þessar eldstöðvar fyrir næstum hálfri öld og rannsóknum sem hafa verið gerðar í framhaldi af því og þá MS rigerð Moneer Fathel Alnethary frá 2018.


Skýringamynd Hjalta Franzsonar, sem er líklegast upphaflega í doktorsitgerð hans um svæðið. Láréttir stuðlnarnir (columnar jointing [horizontal] ).
Ég fann á vef upplýsingar sem eiga að vera frá Hjalta:
Þetta er afar sérstæður gígtappi, um 240 x 140 m. Ytra byrðið er fallega lárétt stuðlað dólerítlegt innskot. Þykkt þessa ellipsulagaða lags er 10-20 m. Það sem er undarlegt er að innri skilin eru fínkorna sem bendir til að þar séu skilin á tappanum. Hvað er fyrir innan í miðhlutanum er ekki ljóst þar sem ekki sést í berg. Þessi sérkennilega myndun er í "móbergfyllingu" öskjunnar í Hafnarfjalli og hefur líklegast rofist þar niður um 200-300 m frá yfirborði öskjunnar.

Svæðið gjarnan kallað Hrossatungur og gígurinn oft kenndur við þær. Fjallshryggurinn þar sem Svartitindur er hæstur heitir svo einnig Rauðuhnúkafjöll. Gígurinn sjálfur hefur hins vegar mér vitanlega ekki neitt nafn fyrir utan að vera þá gígurinn í Hrossatungum.


Hér að neðan er kort sem sýnir gönguleiðina sem var farin en þetta var ferð með FÍ: Lettfeta.

Færsla af Facebook

Wednesday, October 19, 2022

Króatían

Svo einhverju sé haldið til haga þá var þetta fyrsta ferð mín til útlanda án þess að vera bara í vinnunni í dálítið mörg ár. Síðast líklega árshátíðarferð 2017 ætli það hafi ekki verið og svo aftur árshátíðarferð 2022 en núna tókst mér að vera með í lengingunni á ferðinni. Það var farið í tvær ljómandi fjallgöngur. Hæsta fjallið Dinara fyrst og svo tveimur dögum seinna líklega Biokava fjallið sem er aðeins lægra en samt meira krefjandi og þannig séð meira æfintýri. Hvorugt samt neitt klifur eða þannig heldur bara göngutúrar.

Svo var það árshátíð og Dubrovnik og auðvitað breyttist þetta í vinnuferð á síðasta degi þegar ég fór til Danmerkur á heimleiðinni á fund - sem reyndar var áhugaverður á Dragør.

Sett inn 5-FEB-2023