Við röltum tveir saman, ég og minn bróðir, Gunnar Sigurðsson að Hagafellsjökli vestari núna um helgina og mældum hvort hann hefði nú haldið áfram að hopa. Komin tvö ár frá síðustu ferð og fyrstu niðurstöður segja að hann hafi hopað um 127 metra á þessum tveimur árum. Það er talsvert!
Á leið að jöklinum. Gangan er alltaf að lengjast þar sem jökulsporðurinn er að fjarlægjast ár frá ári!
Gengið er frá Línuveginum.
Hér sést hvar jökuljaðarinn var mældur þetta árið, þ.e. 2022. Ekkert var mælt þarna árið 2021 en árið 2020 var einungis neðsta totan í lóninu komin undan jöklinum. Skv. fyrstu mæliniðurstöðum þá er hop jökulsins á mælilínunni 127 metrar yfir þessi tvö ár sem er þónokkuð sértaklega ef tekið er mið af því að sumarið 2022 var ekkert sérstaklega heitt og talsvert snjóaði yfir veturinn.
Hér sést áin sem er yfirleitt alltaf talað um með ákveðnum greini þ.e. Læmið. Líklega ekkert margir sem vita af því að þessi á sé til en hún kemur úr Vestari Hagafellsjökli og rennur í Hagavatn. Heldur svo áfram sem ein af upptakakvíslum Farsins, sem er þá önnur á sem er oftast höfð með ákveðnum greini einnig.
Jökulkembur í botnurðinni sem hopandi Hagafellsjökull vestar hefur skilað til baka. Þetta er þunn botnurð ofan á hrauni sem hefur að mestu verið undir jökli síðustu árhundruðin. Hefur komið undan jöklinum frá síðasta framhlaupi hans frá árinu 1980. Landformin sem myndast í botnurðinni og þarna sjást kallast jökulkembur eða glacial flutes. Slíkt "röndótt landslag" er nokkuð einkennandi fyrir það sem oft á tíðum kemur undan hopandi jöklum.
GPS kort sem sýnir hop jökulsins síðustu ár. Samanlagt hop síðustu tveggja ára er 127 metrar skv. því sem GPS tækið sagði á staðnum. Það er í góðu meðallagi fyrir þennan jökul. Frá því við fórum fyrst að honum til mælinga árið 2009 hefur hann hopað alls um 850 metra.
Facebookfærsla