Á leiðinni
Það gekk eitthvað frekar illa að komast af stað og GS taldi alveg nóg að leggja af stað seint og um síðir. Hann nennti líklega ekki að hlusta þegar ég var að reyna að útskýra að það væri betra að hafa daginn fyrir sér þar sem ég hefði einnig erindi að skoða aðstæður við Hrafnabjörg vegna áætlaðrar gönguferðar þangað. Aðalmálið þar var að skoða veginn. Eftir á segir GS að ég hafi keyrt eins og vitleysingur - sem er ekkert alveg rétt - en það þurfti að halda vel á spöðunum því við vorum allt of seint á ferðinni. Reyndar er það að einhverju leyti ástæðan fyrir að mér finnst oft eða jafnvel bara oftast best að vera einn á ferð því a.m.k. þegar hann á í hlut þá er endalaust vesen að komast af stað á einverjum skikkanlegum tíma þannig að hægt sé að gera hlutina í rólegheitum - eða einhverjar undarlegar samningaviðræður um hvað við ætlum að vera lengi.Ég get nú samt ekki neinum um kennt nema sjálfum mér að hafa ákveðið að treysta því að það væri alveg hátt undir Dusterinn sem fékk eftir þessa ferð nafnið Drasler hjá mér. Hann rakst niður á einn lausan stein og þá tjónaðist skynjaradót í honum sem er svo haganlega fyrir komið að það er líklega lægsti punktur undir bílnum... heildar viðgerðarkostnaður uppundir 300 þúsund!
En myndir úr dróna af Hrafnabjargasvæðinu komu hins vegar afar vel út.
Mælingin sjálf
Ef ég man rétt svona ársfjórðungi seinna, að þá gekk þessi mæling ágætlega þannig séð. Við vorum seinir fyrir og því var ekki mikill tími til bollalegginga. Ég var að fljúga drónanum yfir jökuljaðarinn og Gunni þá stikaði eitthvað eftir honum. Ekki mikill tími til neins því miður.Svo ég taki af Facebbok síðunni minni: Frá síðustu helgi (10. október) þegar við bræður fórum og mældum hop Hagafellsjökuls Eystri. Okkar árlega sporðamæling. Mér sýnist að endanleg niðurstaða á mældu hopi jökulsins frá í fyrra verði 38 m. Ég hafði reyndar gert ráð fyrir talsvert miklu meira hopi en það vill þannig til að núna er einhver herjarinnar tunga niður úr skriðjöklinum þar sem mælilínan er. Þannig að við séum ekki bara að mæla "eitthvað" þá höldum við okkur við mælilínuna.
Facebook færsla úr ferðinni er annars hér: https://www.facebook.com/eirasi/posts/10226334827458083
Það bar annars helst til að í þessari ferð þá endurheimtust vettlingar!
Skráð inn löngu eftirá, í janúar 2022... en set þessa færslu bara á 10. október 2021 en þá var farið í þessa jöklasporðamælingu :-)