Fjallakofinn heimsóttur en þar fást núna utanbrautargönguskíði, stálkanta með skinnum. Verslað í hádeginu og Helmut snillingur búinn að setja bindingarnar á um kaffileytið. Þá var ekkert að gera nema prófa græjurnar strax enda veðrið orðið allt í lagi þegar leið á daginn. Það var farið í Heiðmörk.
Hin skemmtilegustu skíði og náði ágætis rennsli þó þau reyndar renni ekki eins brjálæðislega og góð brautarskíði með skinnum.
Mér telst annars til að þetta sé fjórða utanbrautagönguskíðaparið sem ég eignast! Verður reyndar notað í bland við par númer 3 sem er enn í ágætu standi en er rifflað.
Svo verður víst að játast að ég stóð mig ekki sérlega vel sem staðal Íslendingur í dag. Á meðan ég þrammaði um Heiðmörkina, utan brautar aðallega og út um allt þá átti ég víst að vera að horfa á beina útsendingu í sjónvarpinu hvar íslenska handboltalandsliðið náði að leggja Dani á Evrópumóti held ég í handbolta. Ekki slæmt þar sem Danir áttu eiginlega að vera bestir af öllum á mótinu. Kannski einhver skýring að þeir voru búnir að missa þjálfarann sinn til Íslands.