Monday, August 05, 2019

Í giljum ofan Fellsmerkur

Í Fjallgili ofan Fellsmerkur. Það má víst segja að íslenskar kindur eru sko alls engar gungur!

Hvort gilið heitir Fjallgil veit ég reyndar ekki alveg því það gæti verið nafnið á næsta gili sem annars heitir Þvergil. En flott er þetta gil. Á facebook fékk ég svo komment frá Höskuldi Björnssyni: "Ég reikna með að í framhaldinu hafi þetta sama verið staðfest um íslenska karlmenn." þar sem ég varð að játa ákveðinn gunguskap sem ég reyndar kallaði skynsemi. Rollurnar fóru þarna um eins og enginn væri morgundagurinn. Ég var meira meðvitaður um það að of líklegt væri á þessari slóð að það yrði enginn morgundagurinn hjá mér! Svo hafa rolluskjáturnar líka ákveðið forskot umfram mig þar sem þarf að fara á sillum með minna en meters hæð undir yfirhangandi bergi. Svo fyrir utan það að þeirra matur var líklega í brekkunni þarna ofar en minn matur þurfti að komast á grillið talsvert neðar. Ef þær bara vissu hvað ég ætlaði að éta... eða kannski einmitt þær vissu og töldu lífslíkurnar meiri með að forða sér þennan tæpa stíg en að hitta mig!

Átti annars fínan kvöld-fyrirmat-göngutúr þarna upp eftir. Gekk fyrst inn Lambárgil sem reyndist vera torsótt nema með meiriháttar vaðmennsku sem ég var ekki að fara út í einsamall þar sem áin rann öll milli hlíðar og hnullungs,sbr næstu mynd.

Lambá rennur milli hlíðar og risahnullungs. Ekki árennileg þarna!


Fór því uppúr Lambárgili og endaði í þessu sem gæti heitið Fjallgil en er sem sagt ekki alveg viss. Sá svo á GPS trakki að ég hafði farið hérumbil ofan í gilið hinum megin frá þegar ég var þarna 1. júlí á síðasta ári.

Í gilinu hvar ég sneri líklegast við - enda þurfti ég niður í Fellsmörk til að fara að snæða - og enda hefði annars fólk farið að óttast um mig.