Langt um liðið frá seinasta pósti en það er þannig að stundum gerir maður eitthvað örlítið skemmtilegt eins og t.d. að fara á Björgunarleika Landsbjargar sem voru á Egilsstöðum. Var þar í eðalfínu liði HSSR sem við kölluðum Hvolpasveit enda óttalegir hvolpar. Eitt af verkefnunum var að stökkva ofan í Eyvindarána af gömlu brúnni. Reyndar bara tveir sem stukku í keppninni en við hin mönnuðum okkur upp í að hoppa eftirá. Ekki alveg það auðveldasta sem ég hef gert fyrir sálartetrið að láta sig gossa þarna niður. Videó bæði á þeim ofurhraða sem ég húrraði þarna niður og svo annað sem sýnir þetta aðeins rólegar!
Bæði videóin eru drónavídeó sem Óli Jón Jónsson tók af okkur.
Svo má líka koma fram að okkur gekk alveg sérdeilis vel á Björgunarleikunum og skv. stigagjöf lentum við í 6 sæti af líklega 15 liðum.
Ég var annars ekki alveg einhamur í þessari ferð og var með racerinn með mér og fór tvo sæmilega hjólatúra um 20 km inn með Lagarfljóti. Reyndar óttalegt rok þarna í sólinni.