Wednesday, June 06, 2018

Í sjöunda himni á Hvannadalshnúki


Ég hafði eiginlega ætlað að gera þetta fyrir einhverjum árum að fara með þá Stakavinnufélögum á Hvannadalshnúkinn. En það var ekki farið fyrr en núna og þá Stakafélagarnir orðnir að Deloitte vinnnufélögum. Að auki bættust við nokkrir meira orginal Deloittar.
Þetta varð eiginlega fyrsta ferðin á þennan mesta jökul landsins þar sem ég sá um allt skipulag og bar ábyrgð á ferðinni - þó ég hafi ekki verið launaður gæd þá virkaði þetta nákvæmlega þannig. Ferðin gekk í alla staði ljómandi vel og ekki reyndi sérstaklega á æfingar í júmmi og spekúlasjónir með sprungubjörgun. Eina sem reyndi á var að fylgja þeim seinustu niður. Bakpokinn minn hræðilega þungur og alveg að gara út af við mig hvernig hann lá á öxlunum á mér. En ég annars ágætur í fótunum. Enda ég a.m.k. rúmum 5kg léttari sjálfur en ég var fyrir t.d. ári síðan.

Eins og ég setti þetta upp þá voru markmiðin þrjú og þau náðust öll!
  1. Komast upp
  2. Hafa gaman í ferðinni
  3. Komast niður
Mikilvægi markmiðanna var algjörlega í öfugri röð við upptalninguna. Þ.e. mestu skipti að komast niður en minnstu máli að komast upp. En það tókst auðvitað líka!

Fallegt útsýni þegar við komum uppúr láglendisþokunni

það var lagt af stað í svarta þoku og gott að vera með GPS tækið uppi við þar sem stígurinn er ekki alls staðar mjög greinilegur. Hefði verið klúður að villast með hópinn þarna á fyrstu metrunum. Lögðum af stað rétt upp úr kl. 1 eftir miðnætti aðfararnótt laugardags 2. júní. Hálftíma fyrr hafði Alla leið hópur FÍ farið af stað með Hjalta Björnsson í broddi fylkingar og öðrum hálftíma fyrr eða svo hafði stór hópur Vilborgar Örnu lagt af stað. Alls voru þetta um 100 manns að ganga á fjallið. Eitthvað uppsöfnuð þörf því ekki hafði verið almennilegt veður neinn einasta frídag í maí þetta vorið.

Séð til efri hluta Virkisjökulsleiðarinnar. Sprungur greinilega gera leiðina illfæra.

Hnúkurinn sjálfur fannst mér vera frekar sprunginn en samt gekk þetta stóráfallalaust að klöngrast yfir þær á snjóbrúm sem voru hér og hvar. Línan var höfð þokkalega strekkt!

Hnúkurinn sjálfur frekar sprunginn. Hópur frá Tindar-Travel efst og svo Ferðafélag Íslands, Alla leið hópur undir stjórn Hjalta Björnssonar


Niðurleiðin gekk í sjálfu sér ágætlega en það var frekar lítil fjallgöngureynsla í minni línu og einvherjir urðu rosalega þreyttir á leiðinni niður. Kannski átti ég einhverja sök á því þar sem mjög hratt var farið í línunni neðarlega í löngu snjóbrekkunni. Gerði kannski hálfpartinn út af við þá sem varð þreyttust. En niður komumst við skref fyrir skref í lokin sem sum hver voru mjög stutt. Heildartími varð um 15.5 klst. hjá mér.

Mér telst annars til að þetta hafi verið ferð nr. 7 þarna upp.
  • Með Fí 1985 um 17 júní, Virkisjökulsleið.
  • Með vinnufélögum frá Ráðgarði þegar Einar Rúnar var okkar leiðsögumaður og við fórum Hnappaleiðina.
  • Með vinnufélögum frá Skýrr og Íslenskir Fjallaleiðsögumenn að leiðsegja. Eina ferðin sem ég hef farið með því kompaníi og hef aldrei farið með jafn ófaglegum leiðsögumönnum sem t.d. skildu einn farþegan eftir sem gafst upp undir Dyrhamrinum á meðan aðrir kláruðu. Sá sem beið þurfti að dúsa þar í svona 6 klst!
  • Aftur með Skýrr og núna undir leiðsögn Árna Þórs úr HSSR. Fyrsta skiptið sem ég fór Sandfellsleiðina.
  • Enn aftur með Skýrr. Sandfellsleið og ég gekk upp á fjallaskíðum. Það var erfitt en ljúft að renna sér niður. Aðalleiðsögumaður var Raggi Ant frá Skýrr.
  • Sem gæd með FÍ vorið 2017. Fyrsta skipti sem ég var að gæda þannig ferð á launum.
  • Núna vorið 2018 og ég sem aðalleiðsögumaður fyrir starfsmenn Deloitte.