Sunday, November 12, 2017

Og það er kominn snjór!

Bláfjöll í dag... reyndar ekki alveg nógu mikill snjór þó þetta líti ágætlega út á mynd!


Ærtli það hafi ekki verið 9. nóvember að það var komin snjóföl um kvöld. Ég fór reyndar í Heiðmörk til að hjóla - var með skíðin meðferðis líka - en klúðraði víst algjörlega. Gleymdi skíðaskónum heima og hjálminum. Ætla ekki að fara að hálkuhjóla í myrkri hjálmlaus þannig að ég skeindist heim aftur. Það var svo alls ekki nægur snjór kominn í Heiðmörk til að skíða þetta fimmtudagskvöld og líklega meiri snjór í Reykjavík af einhverjum ástæðum. For svo bara hjólandi í Elliðaárdal þannig að einhverju sé hér haldið til haga.

Á föstudagsmorgni var svo kominn einhver 10cm jafnfallinn snjór í henni Reykjavík. Það var haldið til Heiðmerkur um kvöld með skíðin og núna gleymdust ekki skórnir - helvítis Alpha hælsærisbomsurnar. Ákvað eða ákvað ekki - var bara þannig - að vera í bara einum grófum íslenskum ullarsokk - mitt uppáhalds. Og a.m.k. stuttur Heiðmerkurgöngutúr gerði ekki gat á hælana mína og ekki heldur endurtekinn á laugardeginum.

Sá svo á myndum að það er alveg kominn nothæfur snjór í Bláfjöll til gönguskíða. Búið að troða Leiruhring fyrir þá sem stunda svimagönguskíðun en ég auðvitað ekki í því frekar en fyrri daginn. Fór út á Heiðartopp og fékk mér nokkrar nýjar rispur til viðbótar á nýju skíðin. Ætli þau verði ekki orðin ónýt þegar vorar!

Var eins búinn til fótanna og í Heiðmörk og hælarnir eru ennþá þokkalega heilir eftir rúmlega 7km Bláfjallaheiðarlabb. Vonandi er ég kominn yfir þetta óvænta hælsæristímabil sem ég fékk síðvetrar fyrir um hálfu ári.

Thursday, October 19, 2017

Nýtt land birtist undan Eystri-Hagafellsjökli



Við bræður... ég sjálfur og Gunnar Sigurðsson höfum frá því Hanna Kata fattaði upp á því fyrir 10 árum síðan, farið á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands að mæla hop (og ef það gerist framskrið) Hagafellsjöklanna sem skríða í suður fram úr Langjökli. Fyrir rúmum tveimur vikum var það vestari jökullinn en núna var það eystri jökullinn.

þarna er fyrir minn smekk afar áhugavert land að koma undan jökli og hálfgerð forréttindi að vera ganga um land sem e.t.v. enginn hefur áður gengið um... nema þá á fyrri hluta Íslandsbyggðar!

FAR1-2017-fyrir skyrslu
......
....

Saturday, May 13, 2017

Gengið yfir Eyjafjallajökul fyrir einni viku

Gengið áleiðs upp á Skerjaleið. Pétur Ásbjörnsson fremstur.

Það má færa til bókar að gengið var á hann Eyjafjallajökul um síðustu helgi með Ferðafélag Íslands í einhverri þeirri mestu edilonsblíðu sem ég hef komist í þar. Bolaveður góðan hluta leiðarinnar, jafnvel stuttermabols! Var þar í hlutverki gæds með Hjalta, Pétri, Höskuldi og Unni. Gekk áfallalaust fyrir sig. Gengið var upp Skerjaleið við Grýtutind, Skerjum fylgt á Goðastein (?) og þaðan haldið suður með gígnum á aðra tinda. Farið svo niður að Seljavöllum. Allt frekar hefðbundin þverun Eyjafjallajökuls held ég að megi segja.

Leiðin sem var gengin. 19,8km skv. GPS tækinu og heildartími 12:10. Það var sem sagt ekki sett hraðamet í þessari ferð!

Undir Ónefndum Gígtindi eða kannski Goðasteini. Hámundur og Guðnasteinn fjær. Raunar má sjá fimmta tindinn vinstra megin á bakvið Hámund þann hæsta.

Það var gengið á alla eða flesta tinda jökulsins í þessari ferð en eitthvað fer mismunandi sögum af hvað þeir heita. Þegar ég hélt að það mætti vera ljóst að sá fyrir ofan Skerin heiti Goðasteinn, svo komi ónefndur tindur sem hefur nýverið fengið heitið Gígtindur og þá Guðnasteinn sem er lægri en blasir við frá Seljavöllum og Þorvaldseyri en Hámundur þar inn af og hæstur þá kom babb í bátinn þegar ég fór í klippingu í gær. Klipparinn sem er ættaður frá líklega Kvíhólma rétt hjá Sauðhúsvelli hélt því fram að í han sveit og stutt af Þórði á Skógum væri Hámundur tindurinn beint fyrir ofan Skerin (sem ég hef alltaf viljað kalla Goðastein) en svo sé vestari tindurinn séður frá hans svæði sá sem á að kallast Goðasteinn (Ónefndur Gígtindur í minni bók) og svo sá eystri Guðnasteinn sem ég get skrifað uppá reyndar. En þá stendur eftir að hæsti tindurinn sem blasir svo sem hvergi alveg við úr nærsveitum jökulsins hann verður nafnlaus. Finnst mér þessi nafnahefð því ekki ganga alveg upp. En líklega er vandamálið það að tindarnir sem eru líklega að minnsta kosti 5 talsins (því það er einn lítill fyrir austan þann sem ég kalla Hámund) en nöfnin voru bara þjú áður en Gígtindsnafnið komi til.

Spennandi gönguleiðin sem mér hefur svo dottið í hug er að fara upp með Gígjökli að austan upp á Fremi-Skolt sem ég held að sé alveg hægt að fara. Svo þaðan á Goðastein og áfram hringinn á Hámund. Halda þá áfram meðfram gígnum sem ég þekki ekki hversu gott er að fara og svo niður á Innri-Skoltinn. Fara svo einhverja leið þaðan niður sem ég þekkki ekki hvort eða hvernig sé hægt. Skilst samt á Páli Ásgeiri að Magnús Tumi eigi einhverja leið þar niður.

Mitt línugengi undir hinum ónefnda Gígtindi... eða er það Goðasteinn?



Núna um helgina hafði svo staðið til að fara á Öræfajökul á gönguskíðum, gista þar uppi og ná öllum tindunum á hringum umhverfis öskjuna. Það verður hins vegar að bíða betri tíma þar sem veður er ekki sérlega hagstætt þar austur frá núna þó það sé bara blíðan í henni Reykjavík.

Monday, March 27, 2017

Þegar hjólin hrundu af bílnum en betur fór en á horfðist

Óhapp á leiðinni heim með tvö af hjólunum manns. Hjólafestingin ákvað að opna sig á hraðahindrun en hjólin virðast sem betur fer hafa verið nógu sterk til að þola þetta!

Er ekki oft með tvö hjól á króknum. það kom til af góðu eða þannig. Hafði græjað mig með hjól á bílnum kvöldið áður í vinnuna því það átti að verða herjarinnar vínsmakk í Turni á 7. hæð. Svo varð úr að það var bara farið í bæinn á eftir og svo bara farið heim með leigara. Svo þurfti auðvitað að fara hjólandi á öðru hjóli til að sækja bílinn.

Á bakaleiðinni vildi ekkert betur til en svo að á hraðahindrun á Réttarholtsveginum, samt bara í rólegheitunum ákvað hjólafestingin að opna sig og all hrundi af. En held að bæði hjól séu óskemmd eftir.

Sunday, March 19, 2017

Ný skíði... Fischer E99 Crown - par nr. 3

Við Lyklafell í góðum eins manns túr í góðu veðri, 19. mars. Hælsærið að byrja að myndast líklega.
Skíðaskórnir höfðu verið að gefa sig lengi eftir að hafa fengið táviðgerð einhvern tímann líklega fyrir allt slas. Svo hafði ég séð við einhverja skoðun á skíðunum fyrir líklega Landmannalaugaferðina að þau voru orðin vel slitin og en verra að stálkanturinn var farinn í sundur á einum stað og svo var annað skíðið orðið klofið að aftan. það var því komið að endurnýjun. Eftir að hafa fengið nýtt par af Fischer E99 riffluskíðum í afmælisgjöf - þá var farið á stúfana með að kaupa skó eftir að þeir gömlu gáfust endanlega upp í fannferginu sem kom eina helgina í lok febrúar.

Í Elliðaárdal - 51cm jafnfall skv. Veðurstofunni en 55cm í Hæðargarðinum mælt af mér
Eftir einhverjar hellingspælingar var ég kominn með rauða Alpina skó í stærð 45 fyrir NNN bindingu af því að mig langaði til að prófa þá bindingu og það var ekki til nr 44 í þeim skóm - hélt að 45 væri allt í lagi. Við prufutúr eftir 100metra skíðalabb sá ég að þetta var ómögulegt. Skilaði skónum og eftir enn meiri pælingar var ég kominn með Alfa skó nr 44 verslaða fyrir slikk í Noregi af Gunnanum sem var alveg óvart þar að vatnamæla.

Skórnir
Þeir pössuðu eitthvað og virkuðu fínt fyrir utan að þeir hafa reynst hinar verstu hælsærisbomsur. Sköpuðust eitthvað undarlegar umræður um það á Fésbók þar sem ég hafði velt því upp hvar væri hægt að versla skíðaskó.

Tröll hraunar á Fésbók

Veit ekki hvort ég sé bara of viðkvæmur en mér leiðist svo svona umræða að ég endaði á að hætta að fá fram það sem umræddur Árni skrifar á fésbókina.

Síðan líka skondið að einhvers staðar fær maður einhver komment um að maður sé núna kominn á góð skíði - og ráðleggingar um að þetta séu svo og svo góð skíði. Eða ráðleggingar um hvernig á að velja skíðin. Eitthvað frekar undarlegt þegar maður er búinn að vera á þessu sama dóti í meira en tvo áratugi. Það er kannski frekar spurning um að fara að prófa eitthvað annað!

En er búinn að fara margar skíðaferðirnar á skónum og hef oftast komið heim með eitthvað blöðrótta hæla. Veit ekki almennilega hvað skuli til bragðs taka því þetta hér er síðan á dagskrá þegar kemur fram í júní!

Stórskemmtileg og stórgóð ferðasaga Watts yfir Vatnajökul lesin en í fótspor hans stendur til að fara þegar kemur fram í húní.



Sunday, February 12, 2017

Landmannalaugar á skíðum helgina 11-12 febrúar

DSC_0083

Það var farið skíðandi í Landmannalaugar með HSSR. Einhvers konar endurtekning af afar vel heppnaðir ferð líklega fyrir þremur árum. Ekki margir samt sem fóru í báðar ferðirnar. Bara ég sjákfur og Christina. Þessi var aðeins öðru vísi fyrir það að fyrir þremur árum var Jóhannes Berg í hlutverki bílstjóra og keyrði á Ásnum inn að Sigöldu. Hann ákvað svo að slást bara í hópinn og þreytti frumraun sína á gönguskíðum á göngunni inn í Laugar. Gekk bara vel. Núna var farið úr bænum á teimur jeppum og fóru þeir inn í Laugar trússandi fyrir okkur og einnig til halds, strausts og öryggis.

Í Laugum stóð Sigga fyrir því að eldaður var dýrindis matur. Læri með öllu því meðlæti sem einhverjum hafði einhvern tímann dottið í hug að væri hægt að gera sér að góðu. Svo var auðvitað farið í laugina.

Bilanavesen var reyndar að hrjá jeppana þar sem það hafði brotnað öxull í þeim stærri. Viðgerð reynd í Búrfelli um kvöldið með varahlutum Kindilsmanna sem voru þarna líka en öxull ekki að passa.

Daginn eftir var haldið áleiðis í Dómadal. Bílarnir komu á móti okkur þar sem ekki varð komist upp á Dómadals með bilaðan öxul.

Meiri myndir á Flickr t.d. hér.

......

Thursday, January 12, 2017

Komið nýtt ár og allt!


Jól og áramót voru auðvitað bara fín. Flugeldasala á milli.


Desember var líka nokkuð góður því ég tók upp á því að setja skóinn út í glugga og viti menn... jólasveinninn lét mig varla í friði!


Fór svo í gær á skíði einsamall í Bláfjöll. Tunglskinið æðislegt og ég bara átti fjöllin. Tók mynd á símann minn sem er samt dálítið byggð á instagram-myndvinnslu þarna úti í kuldanum á staðnum. Myndin var eiginlega alveg svört eins og hún kom fram fyrst. En þetta var einhver flottasti skíðatúr sem ég hef farið. Engar brautir neins staðar en spor eftir skíði hér og þar, færið hart en yfirleitt með smá nýrri lausamjöll til að ná einhverri spyrnu. Ég þurfti eiginega að beita mig hörðu til að snúa við og koma mér til baka í bílinn. Ég bókstaflega átti fjöllin eftir að ég komst úr sjónmáli frá brautarskíðurunum sem æddu hring eftir hring á sínum ógnarhraða.

Ökklinn stóð sig vel í þessum síðasta skíðatúr sem var líklega 11km. Hafði farið líklega tveimur dögum fyrr og þá var ökklinn eitthvað aðeins að stríða mér. Held að núna hafi vinstri fóturinn kvartað meira en sá hægri!