Vestari jökullinn var mældur 18. október og var í sömu ferð komið við á Hlöðuvöllum til að bora á einum stað. Það tókst ekki alveg sem skyldi þar sem tvennt gerðist með borinn. Fyrst þá slitnaði ræsisnúran og við ekki með áhöld til að gera neina tilraun til viðgerðar. Svo á einhvern dularfullan hátt festist borinn í vélinni. Er hann þar ennþá! Það náðust bara tveir kjarnar nothæfir þannig að þessi mælistaður er í tómu tjóni. Gerðum tilraun til að fara helgina á eftir Aftur var reynt viku seinna. Þá var hins vegar kominn talsverður snjór og líklega ófært að Hlöðuvöllum fyrir Nissan Norðlending - fórum samt upp frá Geysi. Við náðum með þokkalegu móti að komast upp brekkurnar við Mosaskarð en þar var hins vegar kominn allt of mikill snjór. Vegurinn ekki vel greinanlegur og alveg ljóst að við myndum lenda í alls konar basli þar á leiðinni. Ekki hjálpaði það heldur mikið til að ég var kominn með einhvern skrambans bakverk.
Á Hagavatnsvegi sem við reyndum líka við, snerum við við við kannski komnir hálfa leið inn að Einifelli. Það var kominn talsverður snjór en svo sem ekki ófært. Eflaust hefðum við komist en mér fannst ólíklegt að það yrði hægt að gera neina jöklamælingu af viti. Bakið líka að hrella mig.
Það var því snúið við en ég fékk þá eftir á að hyggja afar slæmu hugmynd að fara í Fellsmörk. Slæmu því ég þurfi annars vegar að vera að læra þessa helgi líka en ekki síður að ég held að þetta ferðalag hafi ekki gert bakinu á mér neitt gott.
Úr Fellsmörkinni var svo sem ekki margt að frétta. Nýja húsið er þannig séð tilbúið en veðrið var ekki upp á sitt besta í Fellsmörk, bakið að hrella mig og ég að reyna að læra eitthvað af veikum mætti. Skoðuðum varnargarða og þeir voru lítið skemmdir nema líklega eitthvað eytt af stubbunum á garðinum sem ekið er eftir.
Bakið var verulega slæmt á bakaleiðinni sem varð frekar fúlt viku seinna því þá var snjórinn að mestu bráðnaður og komið sæmilegt veður líka. Bakið er annars þannig að það er eiginlega fyrst að jafna sig eitthvað núna síðustu dagana, tæpum mánuði seinna. Núna er hins vegar kominn helst til of mikill vetur - eins og sjá má t.d. í Heiðmörkinni líka!
Svo sem ekki neinn gríðarmill snjór í henni Heiðmörk en samt þegar svona er komið þá má gera ráð fyrir snjó í öllum fjöllum!
Varðandi sjúkraþjálfun þá fór ég líka til Gunnars sérstaks bakþjálfa. Ég gerði líklega þau slæmu mistök að segja honum bara slysasöguna mína - en ekki að hann þyrfti að laga á mér bakið þannig að ég kæmist á skíði og út að hjóla. Hann svona meira leiðbeindi mér hvernig ég ætti að komast hjá því að reyna á bakið með því að gera helst ekki neitt og haga öllum hreyfingum þannig að ég myndi ekki reyna á bakið. Borferðir á Hlöðufell voru ekki til neinnar sérstakrar umræðu. Upphafið hjá t.d. Árna ökklaþjálfa var aðeins annað þegar ég kom á hækjunum til hans, með röntgenmynd sem sýndi mölbrotinn fót með sögu um að hann væri ennþá að mestu ógróinn en ég vildi hins vegar sjálfur helst fá að vita hvenær ég gæti farið í svona einhverja alvöru fjallgöngu. Ég klikkaði víst alveg á að láta Gunnar vita um það hvernig lífi ég lifi - eða vil a.m.k. lifa.
Svo má kannski líka færa til bókar að ég á að vera að læra andhverfar varpanir sem ég skil eiginlega ekki neitt í og raunar skil stundum ekki af hverju ég er að þessum masókisma þarna í háskólanum! Ég hefði a.m.k. átt að sleppa þessum hræðilegu andhverfum - hef varla erindi sem erfiði þar!
Lét ekki sjá mig á árshátíð HSSR sem var í Hrauneyjum. Bæði lærdómsvesen en líka þetta bak dálítið líka.
Og meðan ég man. Ólöf á neðri hæðinni er víst búin að finna sér hund til að koma í staðinn fyrir Guttann. Vona að hann verð án gelteiginleikanna.
Já og svo loks - þá er hugurinn dálítið hjá frönsku þjóðinni eftir hryðjuverk síðasta föstudags.