Sunday, October 11, 2015

Það var farið einn einn leiðangur á Hlöðufell

Áður en haldið var í hann upp á Hlöðufell. Fjallið búið að rífa af sér og allt hið bestasta! Ég tók reyndar engar frekari myndir í ferðinni. Ferðafélagarnir voru með betri myndavélar og sáu um það. Ég líka of upptekinn við mælivinnuna.

Veðurspáin var búin að sveiflast fram og til baka með tímasetingu á sæmilegu veðri við Hlöðufell. Stundum gott á föstudegi og stundum gott á laugardegi - stundum sæmilegt báða dagana. Að endingu var komin sæmileg spá bara fyrir laugardag en ekki fyrir föstudag þannig að það varð úr. Boð látin út ganga til sérlegra aðstoðarmanna, Gunna og Haraldar að það yrði farið í bítið á lagardeginum. Lagðir af stað úr bænum eitthvað uppúr klukkan 7 að morgni. Sem reyndist vera hin ágætasta tímasetning því Hlöðufellið var að rífa af sér þegar við nálguðumst það.

Fórum upp frá Gullkistu aðallega af því að ég gerði ráð fyrir ófærð norðan Skjaldbreiðar. Veit ekki hvort þar var ófærð en það var talsverður snjór fyrir ofan Laugarvatn eitthvað sunnan við Gullkistu og áfram á Miðdalsfjalli. Ruðningar á veginum og ekki björgulegt um framhaldið. Þetta var hins vegar bara staðbundinn snjór og þar sem farið var niður af Miðdalsfjalli var aftur orðið autt. Snjólaust að kalla inn á Hlöðuvelli.

Eftir að hafa boðið upp á ómerkilegt neskaffi en ágæta kanilsnúða og kleinur var haldið af stað upp á fjallið. Alls kyns hafurtask tekið með. Bæði til að mæla upp kjarnana sem höfðu verið boraðir tveimur vikum fyrr en líka búnaður til vetrarferða, broddar, axir, línubútur og slíkt þar sem ég gerði ráð fyrir talsverðum vetraraðstæðum í fallinu.

Uppferðin gekk afar vel og vorum komnir í fyrsta sýnatökustað. Gekk hins vegar ekkert of vel að finna hann þar sem GPS mælingar á honum höfðu klúðrast þegar kjarnarnir voru boraðir. Merkilegt nokk samt að punkturinn sem ég hafði búið mér til af korti af staðnum var bara með 2m skekkju þegar ég leit á tækið.

Í Kletabelti Hlöðufells. kjarnaborinn hitaður með prímusvatni! Mynd frá Haraldi Gunnarssyni

En þetta var ekkert alveg að gera sig. Kjarnarnir gaddfreðnir inni í klettinum. Það var brugðið á það ráð sem ég hafði undirbúið að hita vatn á prímus og svo var borkrónu stungið ofaní og handborað í gegnum frosið borsvarf. A.m.k. tveir kjarnar brotnuðu og útlitið ekki of gott. Tókst þá eitthvað að bæta aðferðirnar og náði að hreinsa í kringum restina af kjörnunum.Mæling á kjörnunum var svo ekki alveg að gera sig því að þrátt fyrir að hann Hlöðufellið hefði rifið af sér skýjaslæðurnar þá var ekki það sama að segja um fjöllin í nágrenninu. En það var sæmilegt sólskin og því notað sólarmið - þannig að ég þarf víst að fara að reikna eitthvað! Til að auka enn á gleði mína vantaði strik á fyrsta kjarnann og hann því ónýtur. Frekar verulega fúlt. En þá var bara að vanda sig meira!

Tókum ekki kjarna efst í klettabeltinu við gönguleið þar sem mig langaði meira í aðra kjarna ofar í fjallinu. Gæti alltaf tekið kjarnana í klettabeltinu á bakaleiðinni.

Borkjarnar mokaðir upp í hraunstalli ofan neðra klettabeltis Hlöðufells. Mynd frá Haraldi Gunnarssyni

Í litlu árgili við lítinn hraunstall þurfti að moka smá til að komast í kjarnana. Þar var ekki margt um fína drætti við orienteringu á kjörnum þar sem skyggni var lítið og sólin horfin. Það var notaður steinn í ekki mikilli fjarlægð og svo lét sólin sjá sig af og til. Veit ekki alveg með gæði allra þeirra mælinga.

Uppi á Hlöðufelli. Búinn að moka upp kjarnana og að myndast við að handbora þá út með bornum sem var hitaður með vatninu í prímusnum sem sést líka á myndinni við annan fótinn á mér. Mynd frá Haraldi Gunnarssyni

Áfram var haldið alveg upp. Þar var allt á kafi í snjó og talsverður mokstur til að komast í kjarnana. Aðstæður ekki of góðar og til að hafa eitthvað mið var hugmyndin að Gunninn myndi gerast mið. Hann gekk eitthvað í burtu og var óðar horfinn sjónum okkar. Kom eitthvað nær og reynt að miða á hann. En sá sem hefur prófað að fókusera með augunum í gegnum lítinn spegil á einhvern mann í þoku í hvítri auðn veit líkleg að það er eiginlega ekki hægt að gera. Það var því súrt í broti að ekki var hægt að mæla segulskekkju við þessa kjarna af neinu viti við svo búið. Pökkuðum saman en þá bara allt í einu blasti við Högnhöfði og önnur fjöll. Áttavitinn og annar búnaður dreginn upp hið snarasta og náð að mæla segulskekkju fyrir öll sýnin sem voru tekin. Reyndar bara teknir líklega 6 kjarnar af þeim rúmlega 10 sem eru þarna. Sumir reyndra niður við jörð og því hefði verið meiriháttar mokstur að ná þeim upp!

En svona um hvernig happið er að á síðasta kjarnanum sem var mældur þá rétt náðst í miðið sem var notað. Hefði ekki mátt neinu muna.

Fallegt veður á leiðinni niður! Mynd frá Haraldi Gunnarssyni

Haldið af stað niður í hinu fegursta veðri. Það var farið að skyggja þannig að kjarnar efst í klettabelti fá að bíða betri tíma. Hvenær sem sá tími kemur. Geri ekkert sérstaklega ráð fyrir að fara aftur upp á fjallið fyrr en þá næsta sumar. Niðurleiðin gekk ágætlega svo sem. Minn brotni fótur alveg þokkalega að standa sig en þetta var samt óttalegt pauf. Þó það hljómi eins og argasta bull þá er mikið auðveldara fyrir mig að ganga upp á fjall en niður af fjalli!

Vorum komnir með hausljós á niðurleiðinni, smá brauðsnæðingur við bílinn og svo haldið heim á leið um Gullkistuveg um kl. 8. Gekk vel og vorum reyndar álíka lengi að komast til baka og uppeftir. Um 50 mínútur niður á þjóðveg. Komnir í bæinn vel fyrir 10 um kvöldið held ég. Sem sagt innan við tveggja tíma bíltúr

Vel heppnaðir ferð lokið og ég fyrir mína parta dálítið uppgefinn eftir það. Aksturinn tók reyndar líka aðeins á. Eitthvað uppundir 20 kjarnar í poka bíða núna frágangs og sögunar hjá Leó - þegar hann kemur heim úr Svíþjóðarferð eftir eina viku.

Annars líka í manns persónulegu frásögur fært að þetta var fyrsta gangan mín í snjó frá því að ég braut mig. Gekk í raun og veru bara mjög vel held ég!

Monday, October 05, 2015

Eitt og annað til að halda lífinu í blogginu

Gutti ekki lengur meðal lifenda


Our neighbour, Guttormur - called Gutti!
Guttormur fyrir svona 8 árum

Ekki væri nú gott ef blogginu mínu yrði bara lógað - eins og aumingja Gutta af neðri hæðinni var lógað í vikunni sem leið. Fyrir þá sem ekki vita þá var Gutti hundur, sígeltandi á meðan hann var upp á sitt besta en var reyndar orðinn of gamall og lasburða síðustu misserin til að gelta af einhverju viti. Ólöf (mamma hans sko) sagði mér frá þessu með tárin í augunum. Ég held að hún sé, þrátt fyrir að vera komin á níræðisaldur, farin að hugsa um að fá sér nýjan hund... einhvern lítinn sagði hún. Það óttast ég því minnstu hundarnir gelta yfirleitt hvað mest.

Af mínum fæti og af minni öxl

Engar fréttir eru góðar fréttir. Það fréttist annars dálítið af fætinum um mánaðamót júlí - ágúst, sem ekkert var bloggað um þá. Ég hafði gert ráð fyrir að fara að komast í felt vinnu um það leyti en þá snarversnaði mér í fætinum og kom sár stingverkur í ökklann. Sjúkraþjálfarar í fríi þá og ég haltur í svona tæpar tvær vikur. Var farinn að nota hækju aftur heima við :-(

Árni sjúkraþjálfari greindi þetta sem vandamál frá brjóskinu - sem er þá líklega raunverulega skemmt og miðað við hvernig hann varð á svipinn þegar hann var að skoða mig þá er þetta ekki mjög gott. Mér batnaði nú samt en feltvinna tafðist um tæpan mánuð. Er núna hjá honum svona 2-3 skipti í mánuði.

Já - og svo - Er að reyna að létta mig til að minnka álagið á fótinn. Markmiðið að komast a.m.k. niður í 90kg og helst 5kg betur. Er má segja hálfnaður úr 100kg og kominn í kringum 95kg. Er nú samt ekkert rosalega mikið í megrun en reyni að hreyfa mig sem mest og borða kannski aðeins minna. Kominn aftur með kort í Worldclass. Skondið að hitti þar Þorleif vinnufélaga. Hann sagði að það væri a.m.k. jákvætt að ég væri að gera eitthvað í mínum málum. Heldur fólk almennt að ég hreyfi mig ekki neitt - eins og hann virðist halda. Varð hálf kjaftstopp við þetta komment hans. Hef það sem af er ári hjólað og gengið um 2300km ef miðað er við það sem er skráð hjá mér á Endomondo. Göngutúrar hvers konar þar af tæpir 500km. Var 46 mínútur upp að Esju-Steini síðast þegar ég fór - um mitt sumar reyndar - áður en ég fór að finna til í fætinum að nýju - minnir mig.


Aðeins um öxlina, þá er hún bara eins og hún er. Raggi sjúkraþjálfi vill meina að ég sé ennþá að ná meiri hreyfigetu. Hreyfigetan er að mörgu leyti ágæt en samt ekki eins og hún á að vera. Finn fyrir öxlinni ef ég er að hreyfa hana upp, út og suður. Veit ekki hvort hún flokkast sem einhver örorka eða hvað - en það er líklega komið að því að skoða það einhvern tímann. Hef verið hjá Ragga helst vikulega þegar ég hef komist.

Af segulmælingum og annarri jarðvísindavinnu

Gunni borar í klettabelti Hlöðufells

Búið að ganga upp of ofan. Eftir að ég fór að treysta mér vegna míns fótar í alvöru fjallgöngur - eða svona einhverjar brattar utanslóðafjallgöngur - þá er veðrið búið að vera að stríða mér. Tekst til að ég sé búinn að fara tvisvar til þrisvar upp á Hlöðufell og á núna holur sem á eftir að sækja kjarnana í. Það er hins vegar kominn einhver snjór. Veðrið á laugardag hefði verið allt í lagi ef það hefði ekki verið kominn snjór. það rigndi líklega í gær þannig að ég sé til hvað verður.

Svo eigum við bræður eftir að mæla Hagafellsjöklana. Þar er væntanlega kominn einhver snjór þannig að það verður e.t.v. erfitt.

Í ofanílag er flóð í Skaftá nýafstaðið - eða varla það. Gunninn auðvitað í sinni vinnu að mæla flóðið en ég bara hef það hlutverk að sitja í mínu sæti og reyna að fá fólk til að vinna eitthvað sem það vill ekki vinna og enginn nennir að gera. Veit ekki af hverju þetta óréttlæti stafar. Hvað gerði ég eiginlega vitlaust. Er reyndar að skrópa í vinnunni núna en það er líklega allt í lagi þegar maður er bara í hálfri vinnu.

Aftur að námi þá er ég í einum kúrs núna um sprengigos. Svona hefðbundinn nemendafyrirlestrakúrs með Þorvaldi þar sem ég er einn íslendinga. Fáir nemendur og næstum helmingur þeirra í doktorsnámi. Ég einn í jarðeðlisfræði. Skil samt ekki alltaf hvernig getur staðið á því að stundum virðist ég vita meira um jarðfræði en þau.

Velti samt alltaf meira og meira fyrir mér af hverju í ósköpunum ég sé að leggja það á mig að læra þetta. Sé ekki fram á að vinna nokkurn tímann við nein jarðvísindastörf og eiginlega þegar ég útskrifast þá verði það bara end of story. Kannski bara kostur að þetta dragist á langinn ef mér finnst þetta á annað borð vera skemmtilegt. Kannski bara betra að holurnar mínar fenni á kaf og ég komist ekki í að klára felt vinnu fyrr en næsta sumar og þá teygist útskriftin fram á haust 2016. Gerði nú annars einhvern tímann ráð fyrir að klára þetta áður en ég yrði fimmtugur.

Tunglmyrkvi

Lunar eclipse 28. september 2015

Svo bar það til tíðinda að það varð tunglmyrkvi. Fór nú ekki langt til að skoða hann. Lét mér nægja að fara út í garð og út á götu!

lunar eclipse

Já og pínulítið undarleg haustverk

Ég fattaði reyndar einhvern tímann um helgina að ég hefði átt að fara á föstudagskvöldi austur í Fellsmörk, bara einsamall. Gista og fara svo á laugardeginum til að skoða flóðið í Skaftá. Hefði svo getað gist aftur á bakaleiðinni. En það gerði ég ekki

Þess í stað stóð ég í garðslætti í október. Reyndar hafði verið örlítill snjór, krap hér og þar í henni Reykjavík á laugardagsmorgninum en eftir að hafa farið stuttan fjallahjólatúr í Heiðmörk var farið á Urðarstekk og slegið gras sem hafði eitthvað lítið verið slegið um sumarið. Lenti reyndar í miklum vandræðum með rafmagnið þar því það sló alltaf út. Þurfti að tengjast 20A tengli með stórri Tichino kló til að geta haft sláttuvélina í gangi.

Svo þegar ég kom heim í Hæðargarðinn þá sló ég bara líka blettinn hjá mér, báðum megin hússins en reyndar eki hjá Ólöfu.