Jólagleði og leit á sömu helginni
Frá æfingu með HSSR
Það var sofið á undarlegum tímum þessa helgina. Á föstudag stóð mikið til. Jólagleði Skýrr haldin með pompi og prakt. Örteiti á undan hjá Þórólfi og svo jólahlaðborð á Hótel Loftleiðum þar sem Helga Möller söng matinn ofan í okkur. Ætli hún sé ekkert að þreytast á þessu. Ég væri orðinn nokk verulega þreyttur ef ég væri hún.Ég varð annars dálítið mikið þreyttur daginn eftir. Svaf fram yfir hádegi og fór ekkert í gönguferð laugardagsins sem mér hafði verið boðið í. Það kom sér reyndar vel þegar kallið kom yfir kvöldfréttunum. Týnd rjúpnaskytta á Skáldabúðaheiði. Ég hafði nú einhvern tímann heyrt um þessa heiði en varla séð og ekki breyttist það þarna í myrkrinu. Ég sá á korti reyndar áðan að ég fór þarna í gegn fyrir einhverjum 15 árum eða svo á mínum fyrsta jeppa.
En aðfararnótt sunnudagsins gekk ég og gekk og gekk. Kolniðamyrkur og nístingskalt. Ekki fann minn hópur eða aðrir hópar þann týnda en langt gengum við. Erfitt að leita í myrkri en öll áhersla á að finna manninn sem fyrst því kuldinn er erfiður. Var kominn í rúmið eitthvað um 10 leytið um morgun.
Núna er ég samt helst eftir mig á tungunni eftir frekar of heitt kaffið hjá Hlyni á leiðinni upp í Árnes á laugardagskvöldinu.
Leit haldið áfram á morgun mánudag en þá kemst ég ekki neitt. Er að halda námskeið í Endurmenntun og eiginlega ekki hægt að stinga af frá því.
En ætli maður fari ekki snemma að sofa núna í kvöld... það er kannski bara nákvæmlega núna!