Sunday, November 30, 2008

Undarleg helgi

Jólagleði og leit á sömu helginni

On we go !

Frá æfingu með HSSR

Það var sofið á undarlegum tímum þessa helgina. Á föstudag stóð mikið til. Jólagleði Skýrr haldin með pompi og prakt. Örteiti á undan hjá Þórólfi og svo jólahlaðborð á Hótel Loftleiðum þar sem Helga Möller söng matinn ofan í okkur. Ætli hún sé ekkert að þreytast á þessu. Ég væri orðinn nokk verulega þreyttur ef ég væri hún.

Ég varð annars dálítið mikið þreyttur daginn eftir. Svaf fram yfir hádegi og fór ekkert í gönguferð laugardagsins sem mér hafði verið boðið í. Það kom sér reyndar vel þegar kallið kom yfir kvöldfréttunum. Týnd rjúpnaskytta á Skáldabúðaheiði. Ég hafði nú einhvern tímann heyrt um þessa heiði en varla séð og ekki breyttist það þarna í myrkrinu. Ég sá á korti reyndar áðan að ég fór þarna í gegn fyrir einhverjum 15 árum eða svo á mínum fyrsta jeppa.

En aðfararnótt sunnudagsins gekk ég og gekk og gekk. Kolniðamyrkur og nístingskalt. Ekki fann minn hópur eða aðrir hópar þann týnda en langt gengum við. Erfitt að leita í myrkri en öll áhersla á að finna manninn sem fyrst því kuldinn er erfiður. Var kominn í rúmið eitthvað um 10 leytið um morgun.

Núna er ég samt helst eftir mig á tungunni eftir frekar of heitt kaffið hjá Hlyni á leiðinni upp í Árnes á laugardagskvöldinu.

Leit haldið áfram á morgun mánudag en þá kemst ég ekki neitt. Er að halda námskeið í Endurmenntun og eiginlega ekki hægt að stinga af frá því.

En ætli maður fari ekki snemma að sofa núna í kvöld... það er kannski bara nákvæmlega núna!

Monday, November 03, 2008

Fyrsti dagur í sjósundi

IMG_2308

Það er erfitt að vinna með brjáluðu fólki. Á miðvikudag í síðustu viku fór þetta brjálaða lið suður vestur eða eitthvað í Nauthólsvík og skvampaði bara út í þriggja gráðu heitan sjóinn eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Þá hafði ég þá fínu afsökun að þurfa í mitt vikulega badminton. En þetta var víst stuð hjá þeim eins og má sjá á Andlitsbókinni. Ég mátti ekki vera minni maður eða hvað.

Maður eða mús sagði Stebbi og ég lét mig hafa það. Reyndar kom þessi fína afsökun til mín í gær í formi SMS frá Gaxel sem á snúinn pabba sem ætlaði ekki að komast í mánudagsbadminton. Ég búinn að segja já við þá badmintonspilafélaga en núna varð varaskeifan að lýsa yfir óvæntum forföllum. Það skyldi sem sagt í sjósund. Ég ákvað að vera maður en ekki mús.

Ég var nú ekkert alveg á tauginni allan daginn en einhver ónot var ég með þarna einhvers staðar. Fór svo skokkandi í hádeginu þannig að þegar komið var að hættutíma var ég enn hálf þreyttur og hálf óétinn eftir skokktúr hádegisins.

Greip svo í tómt í samlokubar mötuneytisins. Kom við í 10-11 á leiðinni og fékk mér feita samloku með róstbíf. Enda er ég þess nokkuð viss að sjóbað í köldum sjó á fastandi maga er ekki góð hugmynd. Eftir að hafa gúffað í sig samlokuna sem reyndar var langloka en skiptir ekki máli nemað til að gera þetta að samskonar, þ.e. langloku var ætt af stað í Nauthólsvíkina.

það gekk á með slagveðursslyddurigningarhryðjum (vá, villuleiðréttingin í boði Eldrefsins og Blogblettins samþykkti þetta rosalega orð!) þegar ég kom þangað þannig að mér leist ekkert of mikið á. Sá heldur engann sem ég kannaðist við. Einhver miðaldara kona á mínu reki spurði hvort ég væri að fara í sjósund. Ég játti en hún ætlaði að fylgjas með syninum sínum að drýgja þrekvirkið. Úr því aumingjadómur var ekkert í boði þá hélt ég bara áfram. Fann svo einhverja sem ég kannaðist við og svo tíndist einhver til, til viðbótar og svo var að stökkva út í.

Og það stórundarlega var að þetta var nú ekki alveg jafn kalt og ég hafði gert ráð fyrir. Reyndar skítandskotihelvíti kalt en samt saup ég ekki kveljur eins og ég hafði eiginlega gert ráð fyrir. Það var hægt að synda smá en ég var nú svona frekar með hausinn uppúr. Svo þurfti nú að taka einhverjar myndir og jafnvel vídeó sem kannski kemur seinna.

Svo var farið í pottinn og það var bara næs!

Það er ekki spurning að þetta verður prófað aftur sem fljótlegast aftur.

Svo má ég nú ekki láta mitt eftir liggja í svona æfintýramennsku og gerast einhver ættleri því mér skilst að mín móðir hafi nú stundað svona sundferðir sér til skemmtunar á sínum yngri árum í Skerjafirðinum. Það var nú í þá daga og enginn var þar heitur potturinn til að fara í á eftir. En reyndar held ég að hún hafi nú frekar stundað sjóböð að sumarlegi en í nóvember... Nóvember... þetta er klikkun þó ég segi sjáfur frá!

......




....