Tuesday, December 10, 2019

Nýtt dót

Kistufell Esjunnar og Grafardalur vestan Hátinds séð með nýju linsunni.


Veit ekki hvað er langt síðan ég verslaði mér síðast linsudót á Nikoninn. Það eru líklega svona 10 ár síðan. Reyndar á blankheitatímanum gerði ég ekki ráð fyrir að kaupa mér nokkurn tímann aftur nýja linsu - en blankheitatíminn er líklegast blessunarlega liðinn - eða kannski ekki svo blessunarlega.

En það var myndavélin sem gekk undir nafninu krílið sem gafst upp á mér eftir einhverja blauta gönguferð í haust þegar ég endaði á að hella te yfir hana í hristingi í eðalfáki Höskuldar. Hún hætti að geta lesi minniskort. Fór í viðgerð fyrir meira en mánuði síðan og átti að vera tilbúin bara eftir fáa daga. Búinn að hringja tvisvar og alltaf á hún að vera tilbúin eftir fáa daga. Þeir dagar hafa breyst í að ég er farinn að telja daga hennar talda.

Svo leiddi eitt af öðru. Fór á amrísku vefverslanirnar og jú... þar var einhver rauðlituð Olympus vél sem gæti kannski þolað meðferðina hjá mér... og svo sá ég einhverja linsu sem gæti verið gaman að eiga... og svo kom svartur föstudagur með alls konar tilboðum. Að endingu var hvort tveggja keypt. Linsan 16-80mm F2.8-4.0 sem myndin að ofan er tekin með og svo Olympusan rauða sem á að vera vatnsheld. Ég sem hafði helst ætlað að spara 100% á þessum svarta fössara með að leiða hann hjá mér enda með einhverra fárra tuga prósenta sparnað og eyðslu hátt í 200 þúsund. En ég held að þetta séu ágætar græjur!

Myndin að ofan er annars tekin síðasta sunnudag þegar ég fór í könnunarferð og myndatökubíltúr að skoða aðstæður fyrir göngu næstu helgar þegar stefnt verður á Stardalshnúka.

No comments: