Eiginlega keypti ég þessa bók óvart eða kannski frekar svona óforvarandis. Samt ekki alveg því fyrir um 35 árum (ótrúlegt að það geti verið svona mörg ár síðan) sat ég ásamt nokkrum vinum mínum í sér tíma í Heimspeki hjá Gunnari Dal í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Eitt af því sem hann gerði fyrir okkur var að rubba uppúr sér eitthvað um 20 bóka lista sem var listi yfir þær bækur sam hann sagði að við yrðum að lesa á lífsleiðinni. Eitthvað las ég af þessum bókum á sínum tíma en ein af þeim sem ég mundi alltaf eftir en án þess að les, var þessi: Mómó eftir Michael Ende. Núna var ég hins vegar að leita að jölagjöf handa frænku minni 12 ára og var ekki alveg viss um þessa bók sem jólagjöf handa henni þannig að ég keypti hana handa sjálfum mér til lestrar og ef mér litist á þá myndi ég gefa henni bókina. Það er ekki neinn stóridómur um þessa bók en frænkan fékk gjafakort í Smáralind í jólagjöf. Bókina fær hún kannski einhvern tímann seinna.
En bókin þá...
Jæja, eitthvað um bókina. Eins og við var að búast af bók sem komst á listann hans Gunnars þá er þetta ekkert mjög venjuleg bók – og svo las ég líka af umræddum lista Söguna endalausu eftir sama höfund sem ætti einnig að vera skyldulesning. Það er líklega hvort heldur hægt að segja að Mómó sé rosalega góð barnabók fyrir fullorðna eða góð fullorðinsbók fyrir börn.
Annars er þessari bók kannski best lýst með því að segja að hún sér einhvers konar heimspekileg vangavelta um tímann, hvernig maður notar eða eyðir tímanum. Hvort maður hafi tíma til einhvers eða ekki… og þá af hverju. Reyndar eins og einhver sagði einhvern tímann að þá þarf maður ekkert að vera að flýta sér eða gera sig tímabundinn því aðal galdurinn við tímann væri að það kæmi alltaf meiri tími aftur.
Hvað ef...
En hvað ef þetta væri allt saman satt... ef sagan sem maðurinn á óræða aldrinum sagði Michael Ende væri rétt... það væru einhver grámenni búin að plata okkur öll og þess vegna hefði enginn lengur tíma til neins. Veit samt ekki alveg með sjálfan mig því leti minni eru á stundum engin takmörk sett. Og þó... núna þessi jólin hef ég verið finnst mér upptekinn við að hafa tíma fyrir mig eins og mig lystir... en samt hefur sá tími einhvern veginn bara horfið frá mér. Kannski var maðurinn á óræða aldrinum í lestinni sem Michael Ende hitti Meistari Hora kominn þar í eigin persónu og þá grámennin búin að hrekja hann úr húsinu sem var og er hvergi. Er einhver saga sönn eða eru þær það allar... og skiptir það annars einhverju máli?
No comments:
Post a Comment