Fór á Stardalshnúka með FÍ um síðustu helgi og þá kom til tals hvað hnúkarnir þar norður af eigi að heita: Móskarðshnúkar eða Móskarðahnúkar.
Ég sjálfur ólst upp við að þeir hétu Móskarðshnúkar en var fyrir líklega rúmum 10 árum síðan bent á að þeir hétu Móskarðahnúkar því á milli þeirra væru Móskörð en ekki eitt Móskarð. Miðað við það væri réttara að þeir hétu Móskarðahnúkar, þ.e. fleirtölumynd skarðanna væri notuð í nafni hnúkanna.
En ef ég skoða hvað er upprunalegra er ein leið að skoða hvað hefur verið skrifað í íslensk dagblöð og tímarit í gegnum tíðina. Þá á eintölumyndin (Móskarðshnúkar) vinninginn og það er yfirburðasigur. Móskarðshnúkar koma fram í íslenskum prentmiðum á timarit.is alls 191 sinni. Elsta dæmið er frá þarsíðustu öld eða 1899 í Andvara og Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags.
Skráð dæmi um Móskarðahnúka eru eingöngu 9 talsins og bara eitt frá því fyrir síðustu aldamót sem er auglýsing Útivistar um gönguferð þangað árið 1985. Þar er hins vegar um tölvuvillu í skönnun að ræða og það er greinilega verið að nota orðið í eintölu. Það eru því engin dæmi til um Móskarðahnúka nema eftir árið 2000.
Ef skoðað er hvort það er talað um Móskarð eða Móskörð þá snýst dæmið hins vegar við því ekki virðist vera talað um Móskarð í eintölu utan einu sinni - í Þjóðólfi árið 1876. Einhver nokkur dæmi eru um að tala um Móskörð hins vegar í fleirtölu.
Þetta er til gamans gert og ég ætla ekki að taka endanlega afstöðu. Væntanlega er rökréttara að tala um Móskarðahnúka en þeir hafa samt verið kallaðir a.m.k. á prenti Móskarðshnúkar síðustu 120 árin eða svo.
Svo sé ég að Landmælingar hafa tekið afstöðu því á vef https://ornefnasja.lmi.is/ er ekki að finna Móskarðshnúka heldur eingöngu Móskarðahnúka.
No comments:
Post a Comment