Thursday, January 25, 2018

Sakramentið þegar ég uppgötvaði nýtt uppáhalds

Ég held að ég hafi aldrei áður lesið neitt eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Skoðaði einhvern tímann fyrir langalöngu eitthvað eftir hann en komst að því að bækurnar hans væru ekkert að höfða til mín. Fólk með svipaðan bókasmekk og ég var ekkert að fíla bækurnar hans. Svo var eitthvað, umfjöllun í Kiljunni eða eitthvað sem sagði mér að bókin "Sakramentið" sem kom út fyrir síðustu jól væri eitthvað sem ég gæti lesið. Ætlaði að gefa hana í jólagjöf fyrst en ekkert varð af því. Sat uppi með eintak sem ég hafði kannski ætlað mér að skipta fyrir mat úr Bónus - en þar sem ég kom því ekki í verk og enda ekkert að farast úr peninga eða matarleysi þá dagaði hún uppi hjá mér. Byrjaði að lesa hana síðasta laugardag í Fellsmörk og að vissu leyti fór lífið að snúast um þessa bók.

Er núna búinn að skoða eitthvað meira bókadóma um hana svona professional dóma og þeir eru allir mjög jákvæðir en samt þannig að bólkinni er lýst út og suður.

Sumir fjalla um hana sem glæpasögu og vissulega er það rétt það er í bókinni ofbeldi, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt sem verið er að rannsaka og eftir allt þá er líka morð í bókinni og að auki sjálfsmorð. Drifkrafturinn í sögunni er samt alls ekki það að einhver glæpur hafi verið framin. Í einhverri vanhugsaðri umfjöllun um bókina kom fram hver var drepinn eða dó og það hefði skemmt upplifun lestarins mikið að vita um það fyrirfram.

Flestir fjalla um bókina a.m.k. líka sem einhvers konar ádeilu á kaþólsku kirkjuna á Íslandi og það sem hefur komið í ljós með ofbeldi gagnvart nemendum skólans í Landakoti. Einhvers staðar las ég að sá vinkill bókarinnar myndi koma við marga eða eitthvað slíkt. Veit ekki með aðra en það kom ekkert sérstakega við mig hvað kaþólska kirkjan hefur gert enda hefur það verið almennt fréttaefni síðustu ár.

En það var a.m.k. einn gagnrýnandi sem fannst þungamiðja bókarinnar vera persónusköpun systur Jóhönnu, samkynhneigðrar franskrar nunnu og hvernig fordómar kirkjunnar og eiginlega frekar kristninnar bönnuðu henni að vera hún sjálf. Leit hennar að sannleikanum þar sem mikilvægasti sannleikurinn var ekki hver hafði framið hvaða glæp heldur hvers konar lífi hún sjálf hafði lifað og hvort hún hefði verið elskuð eða ekki. Afleiðingar þess að standa ekki alltaf með sjálfri sér og vera föst í fordómum annarra.

Hvað sem öllu líður þá varð þessi bók strax á upphafssíðunum ein af mínum uppáhalds. Endirinn varð einhvern veginn samt hálf snubbóttur. Ekkert ósáttur við hvernig bókin endaði og hvernig lá í hlutunum og líklega hefði sagan aldrei gengið upp nema á þann hátt sem henni lauk en einhvern veginn vantaði samt eitthvað fannst mér.

Ef ég hefði ekki vitað hver skrifaði bókina, hefði mér aldrei dottið annað í hug en að kona hefði skrifað þessa bók. Þannig er maður nú forpokaður þó maður þykist vera eitthvað annað!

Læt svo fylgja með mynd af kirkjunni á Landakoti, mynd sem ég tók fyrir... gvöð hjálpi mér... eitthvað um 14 árum!


Svo maður bæti við eigin hugrenningar. Þessi mynd mynnir mig alltaf dálítið á mikið flottari mynd sem mig minnir framhaldsskólanemi sýndi í Ásmundarsal fyrir meira en 30 árum undir nafninu ragsi sem var sett á hana án þess að hún fengi nokkru um það ráðið. Ætli hún hafi ekki orðið neinn ljósmyndari? Hún var a.m.k. með bestu myndirnar þar en einhverjir aðrir sýnendur hafa unnið hálfa æfina sem atvinnuljósmyndarar.

No comments: