Wednesday, January 24, 2018

Ný skíði á nýju ári

Það er víst komið 2018 og fyrst mánuðurinn langt kominn. Best að halda einhverju til haga eins og stundum áður!


Ætli það sé ekki á þriðju viku að ég verslaði mér ný gönguskíði - svona af því að ég átti innleggsnótur og mig hafði langað í brautarskíði í mörg ár. Hafði ekki neinn aur fyrir einu eða tveimur árum - eða taldi mig a.m.k. ekki hafa nægan aur en núna vella peningar út úr eyrunum á mér má næstum segja. Það var a.m.k. hægt að kaupa ný skíði.

Þetta var laugardag þá fyrir tveimur helgum og það var farið í skjóli myrkurs í Bláfjöll til að prófa. Þessi skíðaprik runnu alveg óskaplega verð ég að játa eða eiginlega frekar alveg óstjórnlega. Reyndar aðallega áfram á meðan verið var í braut en í einhverjum brekkum sem ég hafði ekki áttað mig á að væru á þessu svæði í Bláfjöllum þá tók ég á það ráð að fara út úr brautinni til að tempra hraðann. Meðalhraðinn þrátt fyrir þær hrakfarir milli 8 og 9 km/klst er held ég allt í lagi ef ég miða við hvað ég sé frá öðrum þarna á Strava.

Svo kom skítviðristíð, ég þurfti til útlanda og svo var allt of mikið að gera í vinnunni til að komast á nein skíði í síðustu viku - en sjáum hvað setur. Setti annars í gærkvöldi persónulegt hraðamet á gömlu riffluðu stálkantaskíðunum á ísaðri grjótbraut á útsporuðum göngustígum Heiðmerkurinnar.

No comments: