Sunday, November 12, 2017

Og það er kominn snjór!

Bláfjöll í dag... reyndar ekki alveg nógu mikill snjór þó þetta líti ágætlega út á mynd!


Ærtli það hafi ekki verið 9. nóvember að það var komin snjóföl um kvöld. Ég fór reyndar í Heiðmörk til að hjóla - var með skíðin meðferðis líka - en klúðraði víst algjörlega. Gleymdi skíðaskónum heima og hjálminum. Ætla ekki að fara að hálkuhjóla í myrkri hjálmlaus þannig að ég skeindist heim aftur. Það var svo alls ekki nægur snjór kominn í Heiðmörk til að skíða þetta fimmtudagskvöld og líklega meiri snjór í Reykjavík af einhverjum ástæðum. For svo bara hjólandi í Elliðaárdal þannig að einhverju sé hér haldið til haga.

Á föstudagsmorgni var svo kominn einhver 10cm jafnfallinn snjór í henni Reykjavík. Það var haldið til Heiðmerkur um kvöld með skíðin og núna gleymdust ekki skórnir - helvítis Alpha hælsærisbomsurnar. Ákvað eða ákvað ekki - var bara þannig - að vera í bara einum grófum íslenskum ullarsokk - mitt uppáhalds. Og a.m.k. stuttur Heiðmerkurgöngutúr gerði ekki gat á hælana mína og ekki heldur endurtekinn á laugardeginum.

Sá svo á myndum að það er alveg kominn nothæfur snjór í Bláfjöll til gönguskíða. Búið að troða Leiruhring fyrir þá sem stunda svimagönguskíðun en ég auðvitað ekki í því frekar en fyrri daginn. Fór út á Heiðartopp og fékk mér nokkrar nýjar rispur til viðbótar á nýju skíðin. Ætli þau verði ekki orðin ónýt þegar vorar!

Var eins búinn til fótanna og í Heiðmörk og hælarnir eru ennþá þokkalega heilir eftir rúmlega 7km Bláfjallaheiðarlabb. Vonandi er ég kominn yfir þetta óvænta hælsæristímabil sem ég fékk síðvetrar fyrir um hálfu ári.

No comments: