Monday, October 05, 2015

Eitt og annað til að halda lífinu í blogginu

Gutti ekki lengur meðal lifenda


Our neighbour, Guttormur - called Gutti!
Guttormur fyrir svona 8 árum

Ekki væri nú gott ef blogginu mínu yrði bara lógað - eins og aumingja Gutta af neðri hæðinni var lógað í vikunni sem leið. Fyrir þá sem ekki vita þá var Gutti hundur, sígeltandi á meðan hann var upp á sitt besta en var reyndar orðinn of gamall og lasburða síðustu misserin til að gelta af einhverju viti. Ólöf (mamma hans sko) sagði mér frá þessu með tárin í augunum. Ég held að hún sé, þrátt fyrir að vera komin á níræðisaldur, farin að hugsa um að fá sér nýjan hund... einhvern lítinn sagði hún. Það óttast ég því minnstu hundarnir gelta yfirleitt hvað mest.

Af mínum fæti og af minni öxl

Engar fréttir eru góðar fréttir. Það fréttist annars dálítið af fætinum um mánaðamót júlí - ágúst, sem ekkert var bloggað um þá. Ég hafði gert ráð fyrir að fara að komast í felt vinnu um það leyti en þá snarversnaði mér í fætinum og kom sár stingverkur í ökklann. Sjúkraþjálfarar í fríi þá og ég haltur í svona tæpar tvær vikur. Var farinn að nota hækju aftur heima við :-(

Árni sjúkraþjálfari greindi þetta sem vandamál frá brjóskinu - sem er þá líklega raunverulega skemmt og miðað við hvernig hann varð á svipinn þegar hann var að skoða mig þá er þetta ekki mjög gott. Mér batnaði nú samt en feltvinna tafðist um tæpan mánuð. Er núna hjá honum svona 2-3 skipti í mánuði.

Já - og svo - Er að reyna að létta mig til að minnka álagið á fótinn. Markmiðið að komast a.m.k. niður í 90kg og helst 5kg betur. Er má segja hálfnaður úr 100kg og kominn í kringum 95kg. Er nú samt ekkert rosalega mikið í megrun en reyni að hreyfa mig sem mest og borða kannski aðeins minna. Kominn aftur með kort í Worldclass. Skondið að hitti þar Þorleif vinnufélaga. Hann sagði að það væri a.m.k. jákvætt að ég væri að gera eitthvað í mínum málum. Heldur fólk almennt að ég hreyfi mig ekki neitt - eins og hann virðist halda. Varð hálf kjaftstopp við þetta komment hans. Hef það sem af er ári hjólað og gengið um 2300km ef miðað er við það sem er skráð hjá mér á Endomondo. Göngutúrar hvers konar þar af tæpir 500km. Var 46 mínútur upp að Esju-Steini síðast þegar ég fór - um mitt sumar reyndar - áður en ég fór að finna til í fætinum að nýju - minnir mig.


Aðeins um öxlina, þá er hún bara eins og hún er. Raggi sjúkraþjálfi vill meina að ég sé ennþá að ná meiri hreyfigetu. Hreyfigetan er að mörgu leyti ágæt en samt ekki eins og hún á að vera. Finn fyrir öxlinni ef ég er að hreyfa hana upp, út og suður. Veit ekki hvort hún flokkast sem einhver örorka eða hvað - en það er líklega komið að því að skoða það einhvern tímann. Hef verið hjá Ragga helst vikulega þegar ég hef komist.

Af segulmælingum og annarri jarðvísindavinnu

Gunni borar í klettabelti Hlöðufells

Búið að ganga upp of ofan. Eftir að ég fór að treysta mér vegna míns fótar í alvöru fjallgöngur - eða svona einhverjar brattar utanslóðafjallgöngur - þá er veðrið búið að vera að stríða mér. Tekst til að ég sé búinn að fara tvisvar til þrisvar upp á Hlöðufell og á núna holur sem á eftir að sækja kjarnana í. Það er hins vegar kominn einhver snjór. Veðrið á laugardag hefði verið allt í lagi ef það hefði ekki verið kominn snjór. það rigndi líklega í gær þannig að ég sé til hvað verður.

Svo eigum við bræður eftir að mæla Hagafellsjöklana. Þar er væntanlega kominn einhver snjór þannig að það verður e.t.v. erfitt.

Í ofanílag er flóð í Skaftá nýafstaðið - eða varla það. Gunninn auðvitað í sinni vinnu að mæla flóðið en ég bara hef það hlutverk að sitja í mínu sæti og reyna að fá fólk til að vinna eitthvað sem það vill ekki vinna og enginn nennir að gera. Veit ekki af hverju þetta óréttlæti stafar. Hvað gerði ég eiginlega vitlaust. Er reyndar að skrópa í vinnunni núna en það er líklega allt í lagi þegar maður er bara í hálfri vinnu.

Aftur að námi þá er ég í einum kúrs núna um sprengigos. Svona hefðbundinn nemendafyrirlestrakúrs með Þorvaldi þar sem ég er einn íslendinga. Fáir nemendur og næstum helmingur þeirra í doktorsnámi. Ég einn í jarðeðlisfræði. Skil samt ekki alltaf hvernig getur staðið á því að stundum virðist ég vita meira um jarðfræði en þau.

Velti samt alltaf meira og meira fyrir mér af hverju í ósköpunum ég sé að leggja það á mig að læra þetta. Sé ekki fram á að vinna nokkurn tímann við nein jarðvísindastörf og eiginlega þegar ég útskrifast þá verði það bara end of story. Kannski bara kostur að þetta dragist á langinn ef mér finnst þetta á annað borð vera skemmtilegt. Kannski bara betra að holurnar mínar fenni á kaf og ég komist ekki í að klára felt vinnu fyrr en næsta sumar og þá teygist útskriftin fram á haust 2016. Gerði nú annars einhvern tímann ráð fyrir að klára þetta áður en ég yrði fimmtugur.

Tunglmyrkvi

Lunar eclipse 28. september 2015

Svo bar það til tíðinda að það varð tunglmyrkvi. Fór nú ekki langt til að skoða hann. Lét mér nægja að fara út í garð og út á götu!

lunar eclipse

Já og pínulítið undarleg haustverk

Ég fattaði reyndar einhvern tímann um helgina að ég hefði átt að fara á föstudagskvöldi austur í Fellsmörk, bara einsamall. Gista og fara svo á laugardeginum til að skoða flóðið í Skaftá. Hefði svo getað gist aftur á bakaleiðinni. En það gerði ég ekki

Þess í stað stóð ég í garðslætti í október. Reyndar hafði verið örlítill snjór, krap hér og þar í henni Reykjavík á laugardagsmorgninum en eftir að hafa farið stuttan fjallahjólatúr í Heiðmörk var farið á Urðarstekk og slegið gras sem hafði eitthvað lítið verið slegið um sumarið. Lenti reyndar í miklum vandræðum með rafmagnið þar því það sló alltaf út. Þurfti að tengjast 20A tengli með stórri Tichino kló til að geta haft sláttuvélina í gangi.

Svo þegar ég kom heim í Hæðargarðinn þá sló ég bara líka blettinn hjá mér, báðum megin hússins en reyndar eki hjá Ólöfu.

No comments: