Wednesday, June 10, 2015

Ef ég hefði raunverulega ætlað þá hefði ég átt að vera búinn...

... að hlaupa maraþonhlaup.

Ég var hjá Ríkarði lækni í morgun. Allt svo sem ágætt en þessar heimsóknir til hans hafa líklega þann tilgang helstan að uppfræða mig hægt og rólega um það hvað ég get en sérstaklega hvað ég get ekki. Hann vill ekki að ég hlaupi nokkurn tímann aftur. Þannig að ef ég ætlaði að hlaupa maraþonhlaup, þá hefði ég átt að vera búinn að gera það áður en ég braut á mér fótinn.

Stundum talar fólk um að það læri eitthvað af svona áföllum. Held að flestir séu þá að meina að þeir eigi að læra það að passa sig og fara eitthvað varlegar en hafði verið gert. Það er ekki minn lærdómur. Minn lærdómur er meira sá að ef þú getur gert eitthvað sem þig langar til að gera - drífðu þá í að gera það því þú veist aldrei hvenær það verður orðið of seint!

En ég má gera ráð fyrir að geta farið á gönguskíði og ég má fara í fjallgöngur en verð bara að fara varlega þegar ég geng niður brekkurnar. Hjólreiðar eru ágætar en samt sér læknirinn ofsjónum yfir því slasaða fólki sem kemur á slysó eftir hjólreiðaslys.

Reyndar held ég að sem sárabætur fyrir þennan hlaupaúrskurð læknisins þá eigi ég að drífa í að fara að fá mér eitt hjól í viðbót - það er hvort sem er helst það sport sem ég get stundað!
Reyndar langar mig kannski meira í ultegra týpuna sem kostar 100 þúsund kall meira og er rautt og flott. Diskatýpan af þessu (105 grúppa með diskum) vil eg hins vegar síður því það er ljótara á litinn!


Síðan er til eðalflottur svartur fákur líka í GAP frá Cannondale. Þar er hins vegar 105 týpan skráð með 10 gíra kasssettu - og það hljómar of undarlega fyrir minn smekk til að vera valkostur.

No comments: