Saturday, September 24, 2022

Hagafellsjökull austari mældur

Fyrir viku var það Hagafellsjökull vestari en núna var það Hagafellsjökull austari. Tækifærið gripið föstudagseftirmiðdag því veðurspáin slæm fyrir helgina og ekki víst að það verði hægt að komast aðrar helgar fyrr en í nóvember. Ekki var lagt í að plata neinn með að þessu sinni, því e.t.v. líklegasta fólkið til að komast með engum fyrirvara var erlendis.

Landslagið sem kemur undan jöklinum sem opin bók og nýjar blaðsíður að bætast við þó hop á eystri jöklinum hafi verið minna en oftast. Þessi jökull hefur þó hopað mjög hratt síðustu árin og frá því við hófum að mæla hann fyrir 15 árum er hann búinn að hopa vel yfir 2 km. Á eftir að fara betur yfir mælinguna en hann er núna að hopa innan við 50 metra á ári.

Loftmynd sem sýnir líklegast malarás, esker á miðri mynd sem er myndað við rennandi vatn undir jökli. Hægra megin eru svo jökulkembur, flutes. Sveigjan á þeim sýnir skriðstefnu jökulsins og hvernig hann hefur dreift úr sér niður við vatnið. Jökullinn var að hopa frá þessi svæði á árunum 2010 til 2015.
Borgir eða Jökulborgir í Hagafellsjökli austari. Þarna undir er líklegast móbergshryggur sem ég geri ekki ráð fyrir að hafi sést í um nokkrar aldir. Miðað við hvað er kominn mikill sandur upp í neðsta kollinum, munu varla líða mörg ár þangað til jökulsker fer að stinga upp kollinum þarna. Þetta er um 2km frá núverandi jökuljaðri

Facebookfærsla

No comments: