5. apríl 2021
Hugmyndin var að koma bakdyramegin að Fagradalsfjalli, leið sem er ekkert verið að loka neitt sérstaklega þegar svæðið er auglýst "lokað" og það er rýmt. Ég var í raun bara að fara í hjólaferð með viðkomu á gosstöðvunum. Aðallega langaði mig til að taka 360° panoramamyndir með drónanum. Verst að það passaði ekki alveg við flugreglur en af hverju ætti ég að vera að fara eftir öllum reglum þegar alvöru flugmennirnir eru ekki að gera það. Þeir fara of lágt og þá stelst ég bara til að fara of hátt.
Keyrði Reykjanesbrautina og beygði að Keili og svo átti að hjóla. Þegar ég var að nálgast þann stað sem skyldi hjólað frá, byrjuðu hádegisfréttir í útvarpinu og ég heyrði bara hætta, rýming og Fagradalsfjall. Jájá, hugsaði ég með mér... það er sem sagt of mikið gas eina ferðina enn... en þetta var eitthvað annað. Ný sprunga hafði opnast og ljóst var að ferðin hjá mér yrði eitthvað öðru vísi en ráð hafði verið fyrir gert. Ákvað að fara af stað þrátt fyrir að gera ekki ráð fyrir að geta skoðað eldgos að neinu ráði. Ég gæti a.m.k. reynt að taka einhverjar drónamyndir.
Hjólatúrinn gekk ágætlega og ómerkt leið sem ég var búinn að finna út yfir hraunið var hin besta. En þetta er nú samt alls ekki einfaldasta leiðin til að komast að eldgosinu en er samt svona ágæt privatleið sem er hægt að fara á eigin vegum.
Flugumferð talsverð og ég búinn að heyra í fréttum að það væri kannað úr lofti hvar fólk væri statt vegna rýmingar og líklega einhvers staðar skráð að einn maður í bláum jakka á hjóli nálgaðist Fagradalsfjall úr austri. Ég fór í raun lengra en ég hafði ætlað mér og var loks kominn á austur brún Meradala og þá mér til talsverðar furðu sá ég hvar hraunið var þar komið ofan í dalinn.
Var þarna staddur í vel rúmlega kílómeters fjarlægð frá hraunsporðinum. Gekk áleiðis upp á næsta hól þegar þyrla LHG flögraði yfir og lenti á hólnum. Var ég upplýstur - í einhverri vinsemd samt - að svæðið væri rýmt og ég eiginlega í óspurðum fréttum sagðist alls ekki ætla að fara lengra og færi bara til baka. Var það látið gott heita. Spurði reyndar og sagði svo hvort ég mætti fljúga á dróna. Sá frá LHG sagðist ekki geta bannað mér það en eindregin tilmæli að gera það ekki... held að hann hafi sagt ef ég gæti komist hjá því... sem ég komst auðvitað ekki hjá að gera og því eru til þessar ágætu drónamyndir úr ferðinni.
Ég sem sagt flaug drónanum eftir öfluga hvatningu frá Ragnhildi og Kristjáni. Sé ekki mikið eftir því en sé frekar eftir að hafa ekki flogið meira. Á myndinni að ofan er dróninn kominn nokkurn veginn að hraunjaðrinum sem er að skríða fram Meradalina í austurátt. Ælunin hafði svo verið að taka kúlupanoramamyndir og þar sem almennt hafði verið skrúfað fyrir flugumferð á svæðinu þá var það vel framkvæmanlegt. Endaði á að fljúga beint upp í loftið þar sem ég stóð.
--------------------
Kúlupanorama í fullri upplausn
--------------------
Þessi skrípaleikur að banna vönu útivistarfólki för um land þó það sé eldgos einhvers staðar í kílómeters fjarlægð er einhver mesta della sem hægt er að hugsa sér. Hættan sem ég var í þarna var algjörlega engin en ég sem sagt bara fór að koma mér til baka. Í heildina samt ágætlega heppnaður túr.
No comments:
Post a Comment